Ónýta tölvan
Það var ástæða fyrir þessu öllu saman. Það var ekki mér að kenna, né honum, en það var einhver ókunn ástæða sem seinna kæmi í ljós. Kannski ásökuðum við sjálfan okkur en vildum ekkert segja til að vekja ekki grunnsemdir hjá hinum aðilanum. Ég hafði snert tölvuna og hann líka. Hann neitaði öllu saman og ég líka. Enginn viðurkenndi neitt. Nú stóð hún þarna, óviðráðanleg. Saklaus í útliti en að innan var mesta illska sem hægt er að ímynda sér, illska iðnvæðingarinnar. Rykið sem hafði safnast í henni öll þessi ár sýndi sig nú. Nú gat ég ekkert gert og hann ekki heldur. Helst langaði mig til þess að sparka í tölvuna. Hún átti það skilið. Peningurinn sem ég hafði eytt í hana var farinn, nú gagnaði hún engum tilgangi. Hún átti ekki einu sinni skilið að vera horft á. Saklaus, ljót og gömul. Einmitt þegar ég ætlaði að fara nota hana af viti. Einmitt núna og er það ekki týpískt, við höfum öll lent í þessu. Ruslahaugurinn er nú rétti staðurinn. Þar getur hún dúsað og hugsað sinn gang. Svo ef að hún mun einhvern tímann skilja hvað hún gerði mér, þá má hún koma aftur. En þá er búið að klessa hana í þrjátíu þúsund bita og þá vil ég hana ekki. Gott á hana. Hún ætti ekki skilið að koma aftur.