ok, ég veit að hún er löng… ég þarf að senda hana inn í pörtum. þessi saga fékk auka verðlaun í smásögu- og ljóðakeppni æskunnar


Einhvers staðar… leynist lítill heimur. Hann er ekki úti í geimi eða eitthvað. Hann er bara ósýnilegur. Enginn veit hvar hann er. Nema…

Barnaland

Matthildur Vera, kölluð Mattí, vaknaði við skrítinn draum. Hana dreymdi að hún hafi verið á labbi úti við sjóinn. Allt í einu sá hún flokk barna koma arkandi á móti sér. Þau voru eins og hún en samt öðruvísi. Þau voru öll ljós- eða rauðhærð. Allir í rosalega ljósum fötum. Áður en hún vissi var hún byrjuð að arka með þeim og syngja sama lagið. Þá vaknaði hún. Hana hafði dreymt þennan draum oft. Alltaf eins. Hún leit á klukkuna. Eins og hún hélt, klukkan var átta og hún var of sein í skólann, eins og alltaf þegar hana dreymdi þennan draum. Hún stökk á fætur, klæddi sig, greiddi sér, burstaði tennurnar, greip nestið og skólatöskuna og þaut út. Hún átti heima rétt fyrir ofan skólann svo hún var ekki lengi en þegar hún kom inn í stofuna sá hún að hún hafði fengið seint einu sinni enn.
‘Jæja ungfrú góð,’ sagði kennarinn um leið og hún settist, ‘af hverju kemur þú svona seint? Gleymdiru að stilla vekjaraklukkuna? Át hundurinn heimaverkefnið og þú varst að gera það aftur í morgun? Eða… dreymdi þig drauminn aftur?’.
Mattí hafði einu sinni reynt að útskýra afhverju. Eða, kannski ekki einu sinni, heldur milljón sinnum. Hún var hætt að reyna að útskýra þetta fyrir Löngutöng, eins og þau kölluðu kennarann.
‘Fyrirgefðu, þetta…,’ byrjaði hún. ‘Þetta gerist aldrei aftur.
‘Reyndu ekki að telja mér trú um það!’ urraði Langatöng.
Það var íslenska í fyrsta tíma, Langatöng kenndi hana. ‘Í dag er stafsetningarupplestur,’ hvæsti hún yfir bekkinn. Á eftir íslensku var landafræði. Indi kenndi hana. Indi var uppáhaldskennari flestra krakkanna í skólanum.
‘Í dag ætla ég að skipta ykkur í sex hópa, fjórir í hverjum hópi. Þið ráðið hópunum. Þetta er verkefni úr Norðurlöndunum. Veljið núna saman hópa, tvær stelpur og tveir strákar í hverjum hópi.’
Mattí átti tvo bestu vini í bekknum, Freyju og Stebba. Þau þrjú og Arnar, besti vinur Stebba, voru fljót að velja sig saman. Indi setti þau í að gera verkefni um Svíþjóð. Þau voru heppin, Arnar var hálfur Svíi. Landafræðin var snögg að líða og sömuleiðis allir aðrir tímarnir. Loksins var skólinn búinn. Eftir skóla fór Mattí niður í fjöru. Hún labbaði sömu slóð og í draumnum. Eftir tveggja tíma gögnu settist hún á stein.
‘Það er vonda veðrið,’ heyrði hún allt í einu sagt við hliðina á sér. Þar sat stelpa, kannski svona 16 ára. Hún var alveg eins og stelpan sem leiddi hópinn í draumnum.
‘Ehh…,’ sagði Mattí.
‘Ó, fyrirgefðu. Ég heiti Gumma og er frá Barnalandi.’ Stelpan rétti fram hendina.
‘Mattí,’ sagði Mattí steinhissa og tók í hendina á henni.
‘Þú? Jei, ég hef verið að leita að þér,’ sagði Gumma, ‘komdu með mér.’ Gumma stóð upp og gekk af stað. Mattí fylgdi á eftir. Þær höfðu ekki gengið lengi þegar Gumma allt í einu stoppaði. ‘Lokaðu augunum. Ekki kíkja. Ef þú kíkir kemstu ekki í gegn,’ sagði Gumma. Mattí klemmdi saman augunum. Allt í einu fannst henni eins og hún svifi upp. ‘Þú mátt opna augun.’ Mattí opnaði og við henni blasti ótrúleg sjón. Hún var í svörtum heimi. Í kringum hana svifu allskonar litaræmur, litlir punktar og regnbogar. Allt var mjög litríkt. ‘Lokaðu aftur,’ sagði Gumma. Mattí lokaði augunum aftur og áður en hún vissi af fann hún jörðina aftur undir sér. ‘Velkomin til Banndesask, höfuðborgar Barnalands,’ sagði Gumma. Allt í kringum þær voru krakkar, engir fullorðnir. Húsin voru alveg eins og við þekkjum þau nema bara miklu litríkari. Öll börnin voru klædd í ljós föt. Gumma gekk af stað. Mattí fylgdi furðu lostin á eftir. Þegar þær gengu fram hjá veifuðu öll börnin. Gumma leiddi hana inn í stóra byggingu. ‘Upp,’ sagði Gumma og allt í einu voru þær komnar efst í turninn. ‘Velkomin,’ sagði Gumma, ‘á skrifstofu bæjarstjórans. Ég er bæjarstjórinn.’
‘En… hvað… hver…?’ stamaði Mattí. Hún var ekki enn búin að átta sig á aðstæðunum.