4. kafli

Skálinn á Grund var mikill og forn. Það var gamalla manna mál, að Sighvatur Sturluson hefði látið byrja á honum, en Þórður kakali, sonur hans, byggt hann að fullu. En síðan hinn síðarnefndi var uppi voru nú um hundrað ár. Skálinn var gríðarlegt gímald. Tvö hundruð manns gátu hæglega setið þar að borðum, lokrekkjur voru þar fjörutíu og þess utan allmörg legurúm óbyrgð. Enginn mundi svo langt, að hafa séð hann fullsetinn mönnum.

Lokrekkjurnar voru inn með báðum veggjum, á bak við sætin, og voru þær allar gerðar af þiljum. Þær voru stórar og rúmgóðar, eiginlega ofurlitlir svefnklefar. Á skálagólfinu endilöngu hafði staðið stó fyrir langelda, en hún hafði verið tekin burtu og öskunni jafnað út yfir gólfið, og var hún nú orðin að harðtroðinni skán. Bitar afar miklir, af brúnhöggnum stórviðum, lágu um þveran skálann, meira en seilingarhæð frá gólfi. Hvíldu þeir á gildum stoðum, sem stóðu í tvöfaldri röð inn eftir gólfinu, beggja megin þar við, sem langeldastóin hafði staðið. Uppreftið var allt úr tegldum viðum. Hafði það verið hið vandaðasta og prýðilegasta, en var nú orðið mjög blakkt af gömlu sóti. Uppi yfir lokrekkjunum voru hælar með öllum syllum til að hengja á tjöld og refla. Gluggar voru hvergi, nema hátt uppi á rjáfrinu; voru það vindaugu, sem lokað var með hlemmum, og lagði úr þeim litla birtu niður í skálann, þótt opnir stæðu. Á öllum stoðum var umbúnaður fyrir blys og kerti, og hafði sýnilega verið við því búist, að skálinn yrði fremur notaður á nóttu en degi. Yfir dyrum lokrekkjanna voru alls staðar snagar fyrir skildi manna og vopn.

Skálinn sneri út og suður, eftir stefnu dalsins. Á austurvegg nærri norðurgafli voru aðaldyr; voru þær nefndar karldyr og ramlega um þær búið. Fremst var skálinn minnst þiljaður, og engar voru þar lokrekkjur; þar hafði þeim einum verið ætlað rúm, sem minnstir voru að mannvirðingum. Innar en við miðju skálans, hægra megin, stóð gamalt öndvegi, svo rúmgott, að þar gátu þrír menn setið samsíða, án þess að þröngt væri um þá. Gagnvart því hafði verið annað öndvegi minna, sem nú var þar ekki lengur.

Innst var skálinn þiljaður sundur upp að bitum, en rjáfrið óskipt. Var þar öðrum megin mjólkurbúr húsfreyjunnar, en hinum megin stúka heimilisprestsins. Milli þessara klefa lágu göng inn í dyngju húsfreyjunnar og nokkur fleiri bæjarhús. Framan við skilrúm þetta voru dyr á vesturvegg skálans, þeim er til fjalls vissi. Var þar afhús lítið og á því útidyr, sem nefndar voru bakdyr. Úr afhúsi þessu voru einnig dyr inn í mjólkurbúrið og eldaskálann, og þar lá timburrenna út gegnum vegginn, sem notuð var til að hella þar út um skolavatni, og kölluðu menn það í skopi “kamaraugað”.

Í afhúsi þessu stóð fiskasteinninn. Þar var Skreiðar-Steinn jafnan að verki sínu, og þar var flet hans í einu horninu.

- Um langan aldur hafði skáli þessi sama sem ekkert verið notaður. Ormar höfðu spunnið vefi sína í næði uppi undir rjáfrinu, og þykkt lag af ryki hafði setst á alla bita. Gluggar höfðu sjaldan verið opnaðir, og loftið var svalt og súrt, fullt af mygluþef. Járnin á hurðunum voru ryðguð, og setustokkarnir farnir að fúna.

En nú var gengið að því röggsamlega að fága þar allt og fegra í einni svipan. Gluggarnir voru opnaðir og nýju lífslofti veitt um allan skálann. Allur var hann sópaður, hátt og lágt, hengt upp það, sem enn var til af tjöldum og reflum, langborði slegið upp á miðju gólfi og bekkjum meðfram því og breiddar glitofnar ábreiður á öndvegið. Sængurföt voru borin í allar lokrekkjurnar og tjöld hengd fyrir dyrnar, þar sem ekki voru hurðir fyrir. Það var sem hinn forni, æruverðugi öldungur, sem staðið hafði af sér stórviðburði Sturlungaaldarinnar, yngdist upp við alla þessa búningsbót. Það var sem brosti hann íbyggilega og segði við sjálfan sig: Þetta átti ég eftir að lifa og - ekki víst, að allt sé búið enn.

Helga gekk sjálf að verkinu með griðkonum sínum og skipaði þeim fyrir. Verkið gekk eins og í sögu. Og þegar búnaði skálans var að mestu lokið, festi hún skjaldarmerki Lofts Hálfdánarsonar, afa síns, og Eiríks riddara Sveinbjarnarsonar, tengdaföður síns, á vegginn uppi yfir öndveginu. Þeir, sem inn kæmu, skyldu sjá, að hér byggju engir kotungar.