Ég hef fylgst með þeim í bráðum fjóra mánuði. Hjón á þrítugsaldri, búa í einbýlishúsi, ekki langt frá mér. Karlinn fer í vinnuna um átta leytið og konan stundvíslega, fimmtán mínútur í níu um morguninn. Þau eru frekar aðskilin, tala lítið við hvort annað og þegar ég læðist að þeim að nóttu, til að fylgjast með þeim, sofa þau bein sitt hvorum megin í rúminu. Kannski eru vandamál í sambandinu, en þau rífast ekkert.
Klukkan er fimm um morgun og ég ligg í rúminu og hugsa um hjónin. Eiga þau það skilið? Hver veit, en þetta verður gert og því getur enginn breytt. Ég fer á fætur og hef mig til. Les blaðið og hef það rólegt. Konan sem býr við hliðina á mér veit að ég fer snemma á fætur og hefur því sagt mér að hafa það rólegt, hún vill sofa.
Ég keyri í ljósbláa bílnum mínum framhjá húsinu þeirra. Klukkan er hálf átta. Ljós eru kveikt inni á baði og í eldhúsinu. Ég sé konuna hafa til mat. Maðurinn kemur að nokkrum mínútum liðnum og borðar. Ég legg bílnum nokkrum metrum frá húsinu sem er við hliðina á þeirra húsi. Þau þekkja engan hér svo ekkert mun líta grunsamlega út.
Klukkan er átta. Maðurinn er farinn í vinnuna og konan hefur það rólegt, gengur á nokkurra mínútna fresti framhjá eldhúshurðinni. Hún er sjálfsagt að laga til. Áhyggjusvipur sést á henni. Veit hún kannski? Nei, það er ekki smuga, ég hef farið mjög varlega. Ekki eins og síðast. Þá var næstum því náð mér og ég slapp vegna heppni minnar og reynslu. Mér mun ekki mistakast í þetta skiptið. Þetta verður fullkomið.
Konan keyrir í vinnuna á réttum tíma, fimmtán mínútur í níu og ég fylgi fast á eftir henni. Ég held mig samt í venjulegri fjarlægð. Elti hana, eins og hundur á eftir húsbónda sínum. Hún stoppar fyrir framan stóra og háa byggingu. Allir vinna í svona byggingum hér. Ég legg aðeins frá henni. Bíð eftir að hún er komin inn í húsið. Ég lít á skilti sem er á vegg hússins, þar stendur: „Skrifstofur.“ Kannski er hún ritari, hver veit, hún gæti verið allt í heiminum. En það er ekki það sem skiptir máli.
Dagurinn er rólegur og ég bíð í bílnum, fer stundum út til að fá mér að borða. Best finnst mér að sitja og fylgjast með fólki. Ímynda mér hvernig líf þeirra er, hvernig væri hægt að rústa því. „Maður á þrítugsaldri var myrtur í nótt um þrjúleytið. Ekki má greina nafn hins látna að svo stöddu.“ Ég naut þess að búa til fréttatilkynningar um morð, glæpi, slys. Þær yljuðu mér um hjartarætur. Ég var furðulegur. Skepna. Viðundur. Fólk hafði sagt mér það allt mitt líf og ég trúði því. Ég varð verri og verri, og á endanum hætti fólk að botna í mér. Mér var sama.
Kvöld var komið. Klukkan var um átta. Konan fór úr vinnunni, þreytt. Ég fór á undan, lét hana elta mig. Nú var ég húsbóndinn. Þegar ég kom að heimili hennar keyrði ég áfram en hún stoppaði. Hún fór inn í hús sitt án vitundar að þetta væru síðustu klukkutímar lífs hennar. Maðurinn hennar var kominn heim. Þau heilsuðust en snertust ekki. Þessi eilífa fjarlægð.
Nóttin skall á. Myrkrið var mitt heimili. Ég sá í myrkrinu. Klukkan var tvö og ég byrjaði að undirbúa mig. Hafði hljótt. Tók byssuna, klút og segulbandstækið. Ætlaði að nota sömu setningu og síðast. Fékk mér vatn og reyndi að hugsa góðar hugsanir. Englar, ský, himnaríki, gleði. Ég er aðeins að setja fólk frjálst úr þessum heimi. Ég er ekki að gera neitt vont.
Ég gekk niður stigann í blokkinni minni. Enginn heyrði í mér. Ég keyrði að húsinu. Byssan var fyrir innan sótsvartan jakkann minn. Ég læddist bak við húsið. Heyrði aðeins í vindinum, eins og síðast. Glugginn að svefnherberginu var opinn. Ég fór inn um hann og stoppaði fyrir framan rúmið þeirra. Ég settist á gólfið og starði á þau. Lengi. Klukkan var 5 mínútur í þrjú. Ég læddist vinstra megin að rúminu, þar sem maðurinn svaf. Tók upp byssuna og benti henni á eyrað á honum. Beið. Titraði ekki, ekki eins og síðast. Andardráttur hans var með jöfnu millibili. Ég hlustaði. Maðurinn opnaði augun og ég skaut. Blóðið lak. Konan hans vaknaði og öskraði. Hún sagði samt ekkert því ég horfði á hana og beindi að henni byssunni. Ljúfir tónar sungu í eyrum mínum. Skotið reið af. Beint í brjóstið á henni. Þau voru bæði farin. Undarleg tilfinning en góð. Þurrkaði segulbandstækið með klútnum og lét það á náttborðið. Forðaði mér. Klukkan var þrjú.
Ég fylgdist með lögreglunni mæta á staðinn. Heyrði blæ segulbandstækisins segja: „Þau voru ekki síðust.“