Ég skrifa þessa grein beint inn á Huga því ég hef ekki tíma til að bíða eftir að Word opnist, tölvan mín er svo hæg.
Ég vissi eiginlega ekki hvað ég ætti að setja söguna mína undir þannig að hún fer bara undir smásagna flokkinn, þó það sé aldrei hægt að skilgreina neitt til hins ítrasta. En ég hef eiginlega ekki tíma í fleiri málalengingar þannig að ég byrja strax að segja það sem ég ætla að segja.
Svo að ég byrji alveg á byrjuninni þá tók fæðingin mín ekki langan tíma, mamma mín fékk hríðirnar og þremur og hálfri mínútu seinna var ég kominn í heiminn, ásamt öllu blóðinu og gumsinu sem fylgir gjarnan með manni. Meðgangan var einnig mjög stutt, rétt tæpar tuttugu og fimm vikur og ég fæddist tuttugusta og annan desember, á stysta degi ársins.
Barnæskan mín var líka mjög stutt. Á fimm ára afmælisdegi mínu létust foreldrar mínir í bílslysi, þau voru aðeins tuttugu og sex ára gömul og ég varð að verja uppvaxtarárum mínum hjá langömmu minni, sem var á þeim tíma sextíu og sex ára gömul. Hún var eina fjölskyldan sem ég átti og ég var eina fjölskyldan hennar. Á fimm ára afmælisdeginum mínum, einum versta degi lífs míns, voru örlög mín ákveðin. Ég komst að því að lífið væri stutt og hef lifað með það í huga upp frá því.
Allir ættingjar mínir, að langömmu frátalinni, hafa dáið ungir. Afi minn fékk hjartaáfall tuttugu og þriggja ára gamall, amma mín dó skömmu eftir það en enginn vissi dánarorsökina, ég hef alltaf haldið að hún hafi dáið úr ástarsorg. Hinn afi minn hvarf sporlaust þegar hann var í veiðiferð á Norðurlandi, aðeins tuttugu og eins árs og hin amma mín dó við barnsburð móður minnar en þá var hún tuttugu og fjögurra ára. Þegar foreldrar mínir létust þá fór hugsunin mín af stað. Ég gat ekki gleymt dauðanum, sérstaklega þar sem ég átti stutt eftir ólifað, það hafði sagan sannað og ég trúði á fortíðina. Fyrst allir ættingjar mínir létust svo ungir að árum, af hverju ætti ég að sleppa við snemmbúinn dauðdag? Þetta var óskiljanleg bölvun sem hvíldi á forsögu minni og ég ákvað það þegar í stað að ég myndi verða sá sem bitti enda á hana. Ég var staðráðinn í því að eignast aldrei barn.
Lífið mitt hefur liðið hratt og nú er farið að draga í seinni endann á því, það hefur ekki mikið gerst í því og fátt sem ég hef til að lifa fyrir. Það sem á alla mína ástríðu eru skeiðklukkurnar mínar. Ég á eina fyrir hvern dag vikunnar og held þeim í fullkomnu ástandi, þ.e.a.s. þegar ég hef tíma til að halda þeim við. Ég tek tímann á öllu sem ég geri, en aðallega þó svefninum mínum. Ég sef aldrei lengur en þrjá tíma á nóttu en þegar ég sef lengur en það þá bæti ég það upp næstu nætur. Ég tek tímann á ferðum mínum, hvað það tekur langan tíma að komast í vinnuna, í matvörubúðina, til langömmu minnar (sem ég er loksins fluttur frá), og í kvikmyndahúsið.
Ástæðan fyrir því að ég fer í bíó er ekki sú að ég hafi gaman af leik og tæknibrellum. Síður en svo, mig hryllir við flestum leikurum, þeir eru allir svo tilgerðarlegir. Ástæðan er sú að ég hef aldrei tíma til að lesa bækur. Ég elska bækur og sögur, ásamt þeim eru skeiðklukkurnar það eina sem ég lifi fyrir. Ég les eina bók á ári og það geri ég á afmælisdeginum mínum. En ég les samt alltaf dagblöðin á hverjum degi, að vísu les ég aðeins forsíðuna á dagblöðunum, það er of tímafrekt að fletta, en ég hef engan áhuga á litlum atburðum sem gerast. Aðeins þeim stóru, náttúruhamförum og stríðum. Suma daga les ég aðeins fyrirsagnirnar því eftir ákveðinn tíma gerast hlutirnir aftur. Jarðskjálftar hljóma eins hvort sem þeir eru í Indlandi eða á Blönduósi.
En því miður þá hef ég ekki tíma til að skrifa meira um líf mitt að svo stöddu. Ég mun halda áfram þegar ég finn tíma til þess. Verið þið sæl að sinni.