Ég sit við tölvuna og er ekki að gera neitt sérstakt. Aðallega að horfa útum gluggann, hlusta á tónlist og pikka niður hugsanir mínar. Ég hef nefninlega eeendalausan tíma. Og hef ekki hugmynd um hvað ég á að gera við hann.
Úti er sól og blankalogn, vantar bara fuglasönginn uppá sumarstemninguna. Það er komið kvöld og skuggarnir orðnir langir, birtan einhvernvegin appelsínugul.
Stóra tréð í bakgarðinum á númer tuttuguogsex hreyfist ekki í vindleysinu.
Grábröndóttur köttur horfir á mig ofanaf bílskúrsþakinu sem er ekki nema í umþaðbil eins metra fjarlægð frá herbergisglugganum mínum. Hann gengur ofaní ryðgaðri þakrennunni ánþessað missa jafnvægið. Ef maður nú gæti þetta!
Ég brosi óvart til hans, alveg einsog hálfviti. Eins gott að enginn sér mig hérna, enginn nema kötturinn allavega. Og kannski nágrannarnir, þaðeraðsegja ef þeim þóknaðist nú svona einusinni að draga gluggatjöldin frá. Sjálfur geri ég það nánast aldrei, dagurinn í dag er alveg sérstakur að því leiti. (Það er reyndar alveg ágætt að sjá svona útum gluggann.)
Svona er þjóðfélagið í dag, felur sig fyrir öðrum, hangir inni í góða veðrinu og fær útrás á lyklaborði tölvunnar. Sorglegt. (Jájá, segi ég!)
Ég ímynda mér hvernig heimurinn væri ef fólk væri nú líflegra, kannski krakkarnir léku sér ennþá úti, stóra fólkið færi í gönguferðir eða bara sólböð í garðinum. (Reyndar enginn sólbaðstími núna, en ég err svona meira að hugsa um sumarið.)
Stundum klifraði ég í trjám þegar ég var yngri. Þá steig ég oftast uppá grindverk eða bað félaga mína umað hjálpa mér uppá neðstu greinarnar. Ég er nefninlega frekar smávaxinn, ekki nema einnkommasextíuogfimm. Þaðan fikraði ég mig svo alveg uppá toppinn, þarsem ég gat séð allan heiminn.
Afhverju hætti ég að klifra í trjám? Það var svo notalegt að standa þarna efst uppi á mjórri grein sem gat brotnað á hverri stundu, en vera samt svo öruggur. Eiga heiminn. Finnast maður hafa völd. (Almáttugur, ég er farinn að hljóma einsog einhver geðsjúklingur sem stefnir á heimsyfirráð!)
Nú geri ég ekkert dagsdaglega, sit bara við tölvuna eða tefli við sjálfan mig. Ég er vonlaust tilfelli, hinn eini sanni Íslendingur. Þjóðin á sér ekki viðreisnar von.
Sólin er farin að glampa á glugganum á húsi nágrannana hinumegin við bílskúrinnfyrir framan nefið á mér og blindar mig. Ég er að hugsa um að draga fyrir, en nenni því eiginlega ekki. Ég sit í svo notalegri stellingu. Svo fer sólin bráðum að setjast. Það tekur því varla að standa upp.
Mamma kallar á mig í kvöldmatinn. Ég þykist ekki vera svangur, því ég nenni eiginlega ekki að fara að éta. Langar helst að fara bara að sofa.
Það er ekkert í sjónvarpinu í kvöld.
Þegar ég var ennþá bara krakki fór ég oft með vinum mínum í langa leiðangra á kvöldin. Við heimsóttum yfirgefin hús og brunarústir ef það bauðst, og héngum þar langt frammá nótt. Við rannsökuðum kjallara of háaloft, veiddum rottur og kakkalakka, siflurskottur og önnur ógeðsleg kvikindi. Við klifruðum endalaust uppá spýtnabrak og bárujárnsplötur og skylmdumst með tréprikum.
Stundum hjóluðum við um borgina í flokkum og hrelldum gamalmenni.
Við hnupluðum frá kaupmanninum á horninu, en bættum fyrir það meðþvíað sendast ókeypis fyrir hann í fríum. Kannski ég ætti að banka uppá hjá honum og bjóða fram starfskrafta mína núna? Nei, ég er orðinn of gamall fyrir svonalagað.
Mamma kallar aftur. Ætla ég ekki að koma, það er kjúklingur, uppáhaldið mitt? Ég svara henni að ég sé kominn með ógeð á fiðurlausu fiðurfé, og held áfram því sem ég er að gera núna, eða ekkineitt.
En svona svo maður fari nú útí pínulítið barnalegar pælingar, þá er í rauninni ekki hægt að gera ekkert. Ég er tildæmis að anda, skrifa, hugsa, horfa, hreyfa fingurna, lifa, melta hádegismatinn og klóra mér á vinstri ökklanum akkúrat núna. Og ef ég væri dauður (og þarafleiðandi ekki að gera neitt af þessu) þá væri ég dauður. Þá væri ég AÐ VERA dauður. Semsagt…
Ahh, þetta er æðislegt lag. (No Surprises, Radiohead.)
Ég er, einsog ég skrifaði áðan, vonlaust tilfelli. Ég á mér ekkert líf. Ég er svo latur að ef það væri ekki orðinn kækur myndi ég ekki nenna að anda. (Það er reyndar ekkert víst að ég myndi nenna að hætta því.) Ég lifi af gömlum vana, á mér engin takmörk og geri aldrei neitt mikilvægt. Ég skipti engu máli, hvorki fyrir mig né aðra.
Afhverju í andskotanum hætti ég eiginlega að klifra í trjám???