Rigning
Eftir að hafa staðið úti í rigningunni í u.þ.b. hálftíma, annað hvort kyrr, horfandi upp í loftið eða að hoppa í stórum polli, ákvað hún að fara inn. Hún hafði bara setið inni og látið sér leiðast, látið þunga vetrarins leika um sig, þegar það byrjaði að rigna. Rigning hafði verið hennar uppáhald frá því að hún var bara barn. Þegar hún var fimm ára höfðu þau þrjú, hún og amma hennar og afi, keyrt hringveginn. Í Skaftafelli hafði gert svo mikla úrkomu að það var hægt að synda í grasinu. Allir á tjaldstæðinu hurfu inn í tjöldin, tjaldvagnana eða bara inn í þjónustumiðstöðina, en hún var sú eina sem varð eftir úti, í bleikum vaðstígvélum og skræpóttri regnkápu. Og þar stóð hún, eins og prinsessa. Hún gerði ekki margt, gekk um og lét dropana falla á sig. Rétt eins og hún væri í sturtu. Og þegar það stytti upp fór hún aftur inn í tjaldið, klæddi sig úr blautu fötunum, hengdi þau upp eins og hún hefði aldrei gert neitt annað, og prílaði öfug inn í svefnpokann sinn með vasaljós og kex. Þetta voru góðu tímarnir. Þegar hún rifjaði þá upp fékk hún hroll niður bakið, blendnar tilfinningar flutu upp á yfirborðið. En núna var hún eldri og allt breytt. Hún fór inn á bað og sótti sér lítið handklæði og þurkaði mesta bleytuna framan úr sér og úr hárinu. Í eldhúsinu hitaði hún sér kakó og setti sama kex á disk og hún hafði borðað svo mikið í ferðalögunum með þeim tveim, gömlu skötuhjúunum. Fór svo í gamla stólinn hans afa með myndaalbúm sem hún tók úr einni hillunni í stofunni. Gamalt prjónateppi sem amma hennar hafði prjónað þegar hún fæddist lá yfir stólbakið og hún dró það til sín og kuðlaði það upp við sig. Hún dýfði kexinu í kakóið og naut þess að finna súkkulaðibragðið. Bragði fortíðarinnar, gömlu góðu daganna. Svo horfði hún í kringum sig, rétt eins og hún væri að athuga hvort einhver vær að fylgjast með sér. Þar var enginn. Ekki að það kæmi henni á óvart. Hún lagði bollann frá sér, opnaði myndaalbúmið og byrjaði að fletta. Fyrir miðju albúmi var mynd af afa hennar og ömmu og henni sjálfri í bleiku stígvélunum. Þau voru öll brosandi. Hún brosti. Tár lak niður kinn hennar. Ætli rigningin myndi ekki fylgja henni allt hennar líf?s