Núna hlýtur að fara að koma að þessu. Það hlýtur að fara að koma. Í níu mánuði hef ég beðið eftir því. Ég hef beðið og á meðan hef ég fylgst með maga mínu stækka. Fundið fyrir þessu litla lífi inní mér, lifna og dafna. Þessi tilfinning er ótrúleg.
Fyrstu mánuðina, þá finnuru í rauninni ekki neitt fyrir barninu. Þú veist af því og finnur kannski einhverjar smábreytingar á sjálfri þér. En það er allt og sumt. Þú getur ekki séð það í spegli og enginn tekur eftir því. Ekki fyrr en maginn stækkar og matarlystin eykst. Þvert á móti það sem maður hefur heyrt, þá er alls ekki erfitt að ganga með barn, allavega ekki svo erfitt. Maður er aðeins þreyttari og kúlan á það til að þvælast bara fyrir, hvað svo sem þú gerir, jafnvel þótt þú reynir bara að sofa.
En nú hef ég beðið og beðið sérstaklega mikið síðustu tvær vikurnar. Loksins ertu að koma. Hríðarnar eru nú heldur ekki eins slæmar og sagt er, það finnst mér ekki en ljósmóðirin segir mér að bíða bara þetta eigi eftir að versna. Ég trúi því ekki.
23 tímum seinna - Þetta var alveg rétt hjá henni, verkirnir hafa versnað svo um munar. Ég næ varla andanum fyrir verkjum. Loksins er þetta að verða búið, loksins komin 10 í útvíkkun.
5 tímum seinna - Ég ligg uppí rúmi, og held á þér í fanginu. Allur sársaukinn við að koma þér í heiminn er gleymdur. Það eina sem ég sé er hvað þú ert ótrúlega fallegur. Ég velti því fyrir mér hvernig í ósköpunum er hægt að geyma lítið barn í maganum allan þennan tíma, hvað þá að koma því út úr sér á þennan hátt.
En þetta er víst hægt. Þó það sé erfitt, þá eru launin fyrir allt erfiðið svo mikið betri, að maður gleymir þessu öllu saman. Öllu erfiðinu og sársaukanum.
Já, ég get alveg sagt þér það litli strákurinn minn, að fyrir þig myndi ég ganga í gegnum þetta allt saman aftur 100 sinnum í viðbót.
Þetta litla barn, er það yndislegasta sem ég hef séð.
Og það besta er að ég fæ að sjá þig vaxa og dafna. Ég mun sjá þig taka fyrstu skrefin og tala fyrstu orðin. Og það eina sem ég get sagt er það að ég get ekki beðið…