“Góðan daginn og velkominn í vagninn minn” segir vagnstjórinn blíðlegum róm þegar ég geng inn í strætisvagninn. Hvað útskýrir þessa unaðslegu útgeislun sem strætóbílstjórar hafa? Kannski er það eitthvað sem þeir læra áður en þeim er hleypt út á götuna. Svona fágun og kurteisi mættu aðrar starfsstéttir taka sér til fyrirmyndar.
Það er alltaf svo gaman í strætó. Maður flakkar um borgina í þessum vinalegu gulu bílum meðan maður horfir út um stóra gluggana og sér niður á fólkið sem gengur eða hjólar í kuldanum. Í strætó eru allir vinir manns. Allir eru svo hressir í strætó. Það er hægt að tala endalaust við fólkið sem situr næst manni. Það er eins og það séu örlög, var mér ætlað að sitja hjá gömlu konunni í morgun eða fatlaða manninum þar áður? Í strætó er enginn að flýta sér. Það er ekki hægt að flýta sér í strætó, það væri eins og að flýta sér í baði fullu af allskonar olíum og söltum.
Ég veit fátt skemmtilegra en að sitja í nýlegum strætisvagni númer 5 og spjalla við eldri konur sem setjast gjarnan nálægt mér. Það er eins og ég sé gamall í mér, eða gamla fólkið ungt í sér, vegna þess að við getum spjallað um allt. Það gætum við ekki ef við hittumst úti á götu. Nei, í strætó má allt. Þú mátt tala við ömmu vinar þíns um hip-hop án þess að hún fái flog og skilji hvorki upp né niður. Því í strætó þykistu bara skilja ef einhver segir þér eitthvað.
Ég sit og hugsa þegar vagnstjórinn öskrar á mig:
“Þú ert kominn heilan hring litla afstyrmið þitt. Ertu eitthvað heimskur?”