Þetta fyrsta kvöld fórum við Palli og töluðum við strákana tvo sem uppgötvuðu líkið. Fyrst fórum við heim til Páls Jónssonar, fjórtán ára. Pabbi hans hringdi fyrstur og talaði við Pétur.
Jón og Snædís, foreldrar, mættu okkur í dyrunum. “Komið inn, setjist niður, Palli er hérna, hann kemur eftir smá stund.”
“Ég heiti Björgúlfur og þetta er Páll, líka kallaður Palli.” Palli kinkaði kolli, reyndi að létta andrúmsloftið.
Palli yngri kom inn. Þetta var laglegur unglingur, meðalhæð, dökkhærður og snöggklipptur, langlimaður, íþróttamannslega vaxinn, með stór dökk augu. Hrædd augu.
“Sæll, Páll. Ég heiti Björgúlfur, kallaður Bjöggi, þetta er Páll lögregluþjónn, kallaður Palli. Má ég kalla þig Palla?” Drengurinn leit á mig eins og ég væri fífl. Góð byrjun.
“Segðu okkur hvað gerðist,” sagði ég og hallaði mér aftur. Palli eldri hallaði sér líka aftur, saman gáfum við foreldrunum óneitanleg skilaboð um að halda sig róleg.
“Ég veit ekki … hvar á ég að byrja … “
“Fórstu oft þarna uppeftir?” spurði Palli eldri, rólegur. Hann veit hvað hann er að gera, hugsaði ég.
“Já, næstum því á hverju kvöldi, ef var veður,” sagði Palli yngri. “Síðasta sumar vorum við þarna næstum því alltaf á kvöldin og nóttinni, fullt af krökkum.”
“Okkur fannst það vera öruggt,” sagði Jón og leit til Snædísar sem kinkaði kolli. “Það er mikið af unglingum hérna á hans reiki en engin vandræði, okkur fannst öruggara að hann væri með í hópnum en að hann væri einn að þvælast.”
Palli yngri leit á foreldrana með … hvað? … fyrirlitningu? … eins og hann vissi eitthvað sem þau gætu aldrei vitað?
“Í kvöld, hvað gerðist í kvöld, geturðu sagt okkur hvað gerðist í kvöld?” sagði Palli eldri.
“Ég fór á hjólinu uppí Hálsa eftir kvöldmat, við Svenni ætluðum að hittast þar. Þegar ég kom uppeftir sá ég hann hvergi. Ég labbaði um og beið eftir honum í smá stund. Svo kom hann, með vasaljós og einhverjar myndabækur, hann sagðist vera með nammi og að við ættum að skríða einhvers staðar í felur og skoða myndabækur og éta nammi.”
Snædís, móðir Palla yngra, hélt fast í hendi hans á meðan á frásögninni stóð. Jón, faðirinn, sat hinu megin við drenginn og horfði föðurlega niður á afkvæmið og eiginkonuna.
“Má ég tala við Pál einan aðeins?” spurði ég en lét spurninguna hljóma eins og skipun. Palli eldri skildi strax og sagði við Jón, ættarhöfðingjann, “ef við gætum fengið á hreint tímasetningar, hvenær Palli kom heim, hvenær þú hringdir, allt svoleiðis.”
Ég stóð upp og benti Palla yngri að fylgja mér. Við fórum fram á gang, við annan endann á ganginum var stofan, við hinn endann anddyrið. Nokkrar dyr gengu inn af ganginum og Palli opnaði einar dyr og benti mér inn. Þetta var svefnherbergið hans, lítið og þröngt, skrifborð og stóll, mjótt rúm, plaggöt á veggnum af poppgoðum og kynstjörnum, skólataska. Hann settist á stólinn og benti mér að setjast á rúmið.
“Ég veit hvað þú varst að gera,” byrjaði ég. Drengurinn leit á mig flóttalega, laglegt andlitið sýndi allt í einu tilfinningar. “Þú hjólaðir ekki í hálftíma út fyrir byggðina um miðjan vetur til að éta nammi. Kannski í sumar, þegar allir hinir krakkarnir voru hjólandi um allt. Þið voruð að fela eitthvað. Þú og þessi Svenni. Ég veit hvað það var, en mér er sama. Það eina sem ég vil er að finnan morðingja. Ef þú getur hjálpað mér, segðu mér það þá núna.”
“Ég veit ekki,” byrjaði hann. “Ég fór fyrstur að byrginu, við vorum búnir að fara þangað oft, þegar við komum að opinu fann ég undarlega lykt en ég hugsaði ekki út í það þá. Ég var með vasaljós og fór niður fyrst. Og þá sá ég …” Hann hristist eins og eikarlauf í vindi, það er ekki hægt að lýsa því öðruvísi. Ég, fullorðinn maðurinn, var búinn að sjá það sem þessi ungi drengur, þetta barn, sá fyrstur allra – fyrstur að undanslepptum morðingjanum sjálfum.
“Ég öskraði og Svenni teygði sig niður og dróg mig upp. Ég hefði ekki trúað að hann væri svona sterkur. Hann bara togaði mig upp og svo hlupum við niður að hjólunum og hjóluðum eins hratt og við gátum heim.”
“Vildi hann ekki vita hvað það var sem þú sást?”
“Ég man það ekki. Við sögðum eitthvað, eftir að ég kom upp, eitthvað sem hefði vel getað verið spurningar, kannski líka svör. Ég man það ekki.”
Drengurinn beygði sig fram og byrjaði að gráta. Ég stóð upp, ég gat sjálfsagt ekki fengið meira út úr honum í bili enda vissi ég varla hvar ég átti að byrja. Ósjálfrátt teygði ég fram höndina til að klappa honum á öxlina, hugga hann. En um leið og ég snerti hann kipptist hann við, eins og eiturslanga hefði bitið hann.
“Farðu!” öskraði hann, röddin brotin milli barndóms og bassa. “Láttu mig vera!” og enn var hann barn og fullorðinn í senn, hvort tveggja en þó hvorugt.
Þegar við Palli eldri vorum komnir niður hringdi ég í félagsmálafulltrúann. Hér þarf að lappa upp á tilfinningar, sagði ég. En ekki tala of mikið.