Heill her. Heill her af hugsunum réðist inn í hausinn á mér. Inn um allar æðar í enninu flæddu þær og til augna minna komu myndir og í eyrum mínum léku hljóðfæri á meðan sundurlausar setningar, byrjanir á smásögum, byrjanir á bálki af vel ortum vísum um nútímahetjur og samtímaskáld dundu í takt við tennurnar á mér sem glömruðu af hræðslu við það að vera byrjaður að hugsa. Eina smáhugsun þoli ég, eða auðvelda skipun, en nú leið mér illa, því þetta var heill her.
Algjörlega óstöðvandi. Algjörlega óstöðvandi fjandi reyndi að bæra varir mínar og ljóstra upp þessum sannleik, að ég væri hugsandi maður. Ég reyndi allt hvað ég gat, ég gekk svo langt að ég kveikti á sjónvarpinu, tuggði tyggjó og á augnabliki fannst mér ég geta varist. En áður en varði fór rafmagnið af. Kannski voru bældar hugsanir mínar að hefna sín. Heill her hélt áfram, algjörlega óstöðvandi.
Tilgangslaus, titrandi. Ég hljóp út. Himinninn grár, göturnar gráar, en ég er ekki grár þó ég sé gráti næst. Ég öskraði á gamla konu útá götu. Vorkenndu mér, sýndu mér samúð! En hún horfði bara á mig og kallaði mig ógeð. Ég hneig niður upp við vegg og grét. Heill her, algjörlega óstöðvandi, skildi mig eftir tilgangslausan, titrandi.
Urmull. Urmull af heiladeyðum löbbuðu framhjá mér, sáu ekki tárin, sáu mig ekki standa upp, sáu mig ekki heldur liggjandi á götunni. Ég labba frá sjálfum mér. Get ekki meitt mig, finn ekki fyrir neinu. Nema urmul af hugsunum. Heilum her sem hleypur í kringum mig, óstöðvandi, tilgangslaus.
Rónni raskað. Ró minni var raskað og nú er ég dauður. Það fyllir mig hatri. Hatur á fólki. Hatur á menningu. En mest samt hatur á eigin heimsku. Því þegar þessi urmull óð inn á mig, raskaði ró minni, algjörlega óstöðvandi, heill her af hugsunum, varð ég tilgangslaus, titrandi.
En nú veit ég að þetta var ekki óvinveittur her,
nú veit ég að hann vildi mér vel.