Fröken Braun stóð upp frá borðinu og fékk sér annan tebolla.
“Prýðis veður í dag, ekki satt Sir Alfreð?” sagði hún með kaldhæðnislegum þjósti í röddinni og leit út yfir herragarðinn. Farið var að húma að þótt klukkan væri ekki nema rétt rúmlega gengin 5.
Sir Alfreð var í þungu skapi þennan dag. Fröken Braun hafði einsetið sér að koma Arthúri litla í tónlistarskólann, sem var þvert á vilja hans. Sir Alfreð hafði alla tíð ætlast til að hann yrði verkfræðingur, og fetaði þar með í fótspor föður síns.
Fröken Braun reisti sig upp frá borðinu og gekk að slaghörpunni. Arthúr litli var ekki búinn að æfa sig þann daginn, og hún beið óþreyjufull eftir að hann kæmi úr bogfimitíma.
“Hann Arthúr minn á vafalaust eftir að verða mikið tónskáld og listamaður. Ef ég kæmi honum í tónlistarskólann…”
Fröken Braun komst ekki lengra því Sir Alfreð hafði sprottið á fætur. Augabrýr hans voru komnar í ískyggilega parabólu sem teygði sig þvert yfir ennið.
“Hoppið upp í rassgatið á yður fröken Braun, eða ég hegg af þér hausinn og skít ofan í gatið sem þar verður eftir!”
Sir Alfreð teygði sig í sverðið sitt sem hann geymdi ávallt í slíðri um mittið. Hann hélt svo áfram að þruma yfir hausamótunum á fröken Braun.
“Ég skal ekki senda Arthúr litla í þessar þrælabúðir þar sem einungis kenna aumingjar og ghettódriverar! Fyrr skal ég dauður liggja!”
Sir Alfreð reyndi að róa sig niður og leit aftur út yfir herragarðinn, þegar hann sá Arthúr litla koma í humátt að stórbýlinu í hestvagninum sínum. Kannski væri gott að fá hans álit á málunum áður en hann hyggi hausinn af fröken Braun.
“Arthúr minn, hvað finnst þér um málið” spurði Sir Alfreð Arthúr litla eftir að hún hafði útskýrt fyrir honum hvernig á stæði.
“Mér finnst að þú ættir að minnsta kosti að senda mig í tónlistarskólann áður en þú heggur hausinn af fröken Braun.” sagði Arthúr.
“Gott og vel. En farðu nú að æfa þig á slaghörpuna.” sagði fröken Braun með alvöruþunga í röddinni.
Arthúr litli dæsti við. Þessi gamla kona sem hafði skyndilega ruðst inn á heimilið (og spillt öllu með ofur-hreinlæti, skipanir um að kreista tannkremstúpuna neðst og snýta sér a.m.k. 4 sinnum á dag), hafði lagt heimilislífið smám saman í rúst.
Brytinn kom inn með blaðsnepil á slifurfati.
“Símskeyti til þín, frú” sagði hann og flýtti sér út úr setustofunni.
“Þakka þér fyrir Albert minn”, sagði fröken Braun og leit á hann augnaráði sem hefði getað drepið fíl.
Fröken Braun las símskeytið, bögglaði því síðan saman og henti því í arininn sem logaði glatt. Andlit hennar var náfölt.
“Þeir,- þeir höfnuðu umsókninni!” sagði hún, og hné síðan niður í yfirlið. Enginn hafði áhuga á að hjálpa henni, enda komin ærleg ástæða fyrir Arthúr litla og Sir Alfreð að losa sig við gömlu konuna.
—
Ruslavagninn kom í sinni vikulegri ferð. Að þessu sinni fylgdi óvenjustór svartur poki með hinu sorpinu, en ruslakarlarnir kipptu sér ekkert upp við það.
Arthúr litli og Sir Alfreð fylgdust með þegar ruslakarlarnir tóku pokann, og settu hann í tætarann á ruslavagninum. Sælubros hafði færst á andlit feðganna, enda ekki á hverjum degi sem maður getur losað til við tengdó.