Hann stöðvar bílinn á gatnamótum. Það er rautt ljós. Úti er myrkur og það rignir. Inni í bílnum óma ljúfir tónar Tom Waits úr lélegum hátölurum. Hrjúfur og hugljúfur á sama tíma þar sem hann syngur um brotna drauma og brostin hjörtu minnipokamanna og –kvenna. Glott færist yfir andlit bílstjórans þar sem hann dregur að sér reykinn úr Viceroy og lætur líða úr sér í bílnum. Teygir sig síðan í viskýpela í farþegasætinu, fær sér sopa og hugsar með sér að tónlistin eigi vel við. Hann hlustar mikið á Tom Waits þessa dagana. Bæði finnst honum tónlistin frábær og svo ná textarnir beint til hans, hann skilur alveg hvað maðurinn meinar. Í dag er tónlist Tom Waits líka það eina sem færir einhverja ánægju inn í líf hans, það er að segja það eina sem færir ánægju án þess að veita óhamingju í staðinn. Eins og áfengið gerir.

Skyndilega er hann truflaður frá eigin hugsunum þegar bílflauta gellur fyrir aftan hann. Það er komið grænt ljós. Hann fær sér annan viskísopa og keyrir svo rólega af stað. Ferðinni er heitið á barinn.

Hann fær stæði nálægt barnum, enda er þetta ekki einn af vinsælustu börum borgarinnar. Auk þess eru ekki margir á djamminu á þessum tíma.

Hann situr dálitla stund í bílnum eftir að hann hefur lagt, klárar lagið og pelann. Svo stígur hann út og röltir í rólegheitum að barnum, lætur rigninguna ekkert trufla sig. Þegar hann er kominn alveg að barnum stoppar hann í smá stund og dregur djúpt andann.

- „Í kvöld skal mér takast það.”

Inni á barnum er margt að sjá, þótt staðurinn sé lítill. Í loftinu liggur þung lykt af gömlum tóbaksreyk liðinna vikna í bland við álíka gamla áfengislykt. Í gegnum reykmettað herbergið má sjá billiardborð í hinum endanum. Það er greinilega gamalt og mikið notað, rifið á stöku stað. Á veggnum við billiardborðið er líka dart-spjald, en engar pílur. Nokkur borð og stólar eru líka á staðnum, allt úr tré og ber flest vott um að hafa orðið fyrir einhverju hnjaski. Veggirnir eru líka úr tré og bera einnig þess merki að hafa staðið lengi og þolað margt.

Barborðið er ekki stórt en það rúmar það sem það þarf að rúma. Tvær bjórdælur, ein fyrir dökkan og ein fyrir ljósan. Á borðinu eru líka öskubakkar, flestir fullir af ösku og stubbum. Fyrir aftan barborðið stendur maður á miðjum aldri með mikla bjórvömb og þurrkar glös. Þetta er eigandinn og aðal starfskrafturinn á barnum. Svipurinn, sem er orðinn fastur á andliti þessa manns, ber vott um að þetta var ekki það sem hann ætlaði að fá út úr lífinu. Á veggnum fyrir aftan eigandann eru hillur sem geyma sterka áfengið.

Fyrir neðan hillurnar, við gólfið, er kælir. Í honum eru geymdar gosflöskur, bæði áfengt gos og óáfengt. Hrímið á flöskunum gefur til kynna að ekki er mikil eftirspurn eftir slíku á þessum stað. Við hliðina á barborðinu er lítið svið. Það ber þess merki að hafa til lengri tíma ekki verið notað í neinum öðrum tilgangi en að geyma ýmsa hluti, aðallega brotin húsgögn. Þar má þó einnig sjá gamlar græjur og tvo hátalara. Aðeins annar þeirra virkar og úr honum streyma rólegir djasstónar.

Hann staldrar aðeins við í dyragættinni og skimar yfir salinn. Hann athugar hverjir eru komnir. Hann þekkir þá flesta, allt fastagestir hér. Hann röltir inn að barborðinu, kastar kveðju á kunningjana. Brosir til þeirra tómu brosi. Fær kveðjur til baka og álíka tóm bros. Þetta eru hans bestu vinir.

Hann sest á sinn stól og pantar fyrsta drykk kvöldsins.

- „Einn Daniel í klaka, takk,” segir hann í sömu mund og hann hagræðir sér aðeins á stólnum og fiskar Viceroy pakkann uppúr vasanum. Bareigandinn var þegar tilbúinn með drykkinn og réttir honum.

Eftir að hafa kveikt sér í sígarettu leggur hann Zippo kveikjarann sinn frá sér á borðið við hliðina á sígarettupakkanum. Þetta er gylltur kveikjari. Á lokið er búið að grafa nafnið hans. Fyrir neðan það stendur „Þú og ég,” og fyrir neðan það stendur „ að eilífu!” Neðst er svo nafnið á elskunni hans.

Honum verður starsýnt á kveikjarann. Yfirleitt horfir hann í gegnum það sem stendur á honum af gömlum vana en nú vekur það athygli hans. Þessi kveikjari er það eina sem hann á eftir frá henni. Öllu öðru hefur hann týnt frá sér. Eins og henni sjálfri.

Líkt og með marga aðra eilífðina þá entist þessi ekki lengi.

Hann hristir hugsanirnar frá sér og tæmir snöggt úr glasinu. Pantar nýjan drykk.

Hann er að bíða. Eftir annarri konu. Hann bíður eftir henni á hverju kvöldi. Stundum kemur hún og stundum kemur hún ekki. En hann bíður alltaf eftir henni.
——-
Eftir rúman klukkutíma er reykurinn inni á barnum orðinn þykkari. Áfengis- og tóbakslyktin er að sama skapi orðin sterkari. Það er þó merkilegt hversu fljótt hægt er að venjast þessari lykt, sérstaklega ef heimsóknir þangað eru tíðar. Aðeins hefur bæst í hóp fastakúnnanna.

Þegar hér er komið við sögu er hann einnig búinn að klára um það bil þriðjung úr flösku af Danielsvatni og hin ljúfa gervigleði vímunnar byrjuð að færast yfir hann.

Nú tekur hann eftir henni þar sem hún gengur inn. Hún er ekki ein, hún er með manni. Hann þekkir ekki manninn. Enda er hún vön að koma reglulega með nýjum mönnum. Nú koma þau inn hlæjandi, hún og nýjasti maðurinn hennar. Hún kastar kveðju á nokkra þarna inni og svo fá þau sér sæti. Þau eru hávær og með mikil læti þegar þau panta sér bjór.

Hann fylgist aðeins með þeim en snýr sér svo aftur að glasinu.

- „ Í kvöld! Það skal gerast í kvöld.”