Ég vakna hálfníu, búin að sofa í tvo klukkutíma. Ég er vafin innaní sængurfötin, böðuð í svita, lyktin er ógeðsleg. Of mikið áfengi í gær. Ég sest upp, mig svimar.
Er ég enn í vímu?
Í gær reykti ég hass. Mikið hass. Og ég var búin að drekka mikið. Oj, hvað mér líður illa. Aldrei, aldrei aftur.
Ég fer inn í eldhús á nærbuxunum. Tek skál, skeið, kókópuffspakka og mjólk. Fer inn í stofu og kveiki á sjónvarpinu, borða morgunmat. Ég er enn í vímu. Skrítin í hausnum.
Sjónvarpsmarkaðurinn. Þeir eru að selja hasspípur. Gæðapípur, á sérstöku tilboðsverði, eins og allt annað sem þeir selja. Kauptu tvær og fáðu bút með. Tilvalin gjöf fyrir hasshausinn. Alltaf sama sagan. Hver fellur eiginlega fyrir svona auglýsingum?
Hasspípur?
Heyrðu, hvað er á seiði… sjónvarpsmarkaðurinn selur ekki hass.
“Hvaða… af hverju missti ég?” styn ég upphátt.
“Uss, litla stelpa, vertu bara hljóð og hlustaðu. Ef þú hringir innan fimm mínútna færðu 2000 króna afslátt. Hvað segirðu um það?”
“Nei takk, ég hef ekki áhuga.”
“Ekki áhuga? Síðan hvenær hefur hasshaus eins og þú ekki áhuga? Láttu ekki svona, þig vantar pípu. Gengur ekki að nota bara kókflöskur. Svoleiðis gera bara dópistar.”
“Heyrðu mig… Ég er sko ekkert hasshaus. Og hvað ert þú að tala við mig? Síðan hvenær var hægt að tala gegnum sjónvarp, ha? Þú hefur sko engan rétt til þess.”
“Ókei, hringdu núna og þú færð þetta ókeipis.”
“Nei!”
“Kommon.”
“Nei!”
“Jú, kommon.”
“Drullaðu þér í burtu hálvitinn þinn!”
“Drulla mér í burtu? Hvað meinaru? Ég á heima í sjónvarpinu. Og ég er sko enginn hálviti. Ekki var ég að reykja hass í gær. Ég sver það, þú átt eftir að enda einsog mamma þín.”
“Hvað veist þú um mömmu mína?”
“Að hún er dópisti.”
“Ókei, nú er komið nóg.”
Ég stend upp og slekk á sjónvarpinu. Nei. Það slökknar ekki.
“Hvaða helvítis…”
“Sæt brjóst!”
“HVAÐA??!”
Ég er svo reið. Ég hamast á OFF takkanum. Tek sjónvarpið úr sambandi.
“Ertu að reyna að losna við mig? Hahaha! Þú losnar ekki við samviskubitið með því að taka úr sambandi. Þú átt sko eftir að enda eins og mamma þín. Synd. Sæt stelpa einsog þú, eyðileggur þig með dópi. Með flott brjóst meiraðsegja.”
Ég sparka í sjónvarpið, öskra af sársauka, hrindi sjónvarpinu á gólfið, lem og sparka, nú er hann loksins þagnaður helvítis sölumaðurinn.