Gamla konan gekk hægum skrefum um miðbæinn – hún var illa til fara, berleggjuð og án yfirhafnar – hún grét hljóðlátlega og saug af og til upp í nefið, það var kalt í veðri.
Það mátti vel sjá á henni að hún hafði einhvern tíman verið ákaflega falleg því útlínur og fas hennar var allt mjög þokkafullt – þrátt fyrir háan aldur og hálftannlausan munn, skælt og hrukkótt andlitið og mjög flókinn gráan hárlubbann!
Hún leitaði uppi alla þá sem hún taldi vera ferðamenn og rétti fram skjálfandi hendur í von um smá ölmusu eða örlítinn matarbita – flestir hristu höfuð og bönduðu henni burt með fyrirlitningu en einn og einn ferðalangur fann greinilega til með henni og rétti henni smáaur eða sígarettu – nú eða jafnvel matarbita!
Skelfilegast af öllu var að oft neyddist hún til að gera hluti sem hún greinilega kunni orðið nokkuð vel – hafði augljóslega stundað lengi en hafði greinilega andúð á – hún hitti einstaka sinnum karlmenn – drukkna sjómenn eða ferðamenn - sem greinilega voru á þörfinni því þeir voru tilbúnir að greiða henni smáaura gegn kynlífsgreiða! Hún hafði þó sjaldan mikið að gera á því sviðinu því það voru ekki beint margir sem voru til í svona gamalt hrak – eins og sagði, aðallega drukknir menn sem sáu bara tækifæri til að fá sér einn stuttan án þess að sitja uppi með ástsjúkan kvennmann í eftirdragi.
Allir þekktu þessa gömlu betlarakonu því hún setti svip sinn á miðbæinn, hún hafði verið þarna um árabil – en sárafáir kærðu sig um að rétta henni hjálparhönd því ef maður hænir að sér þá sem eru verr settir – þá sem ekkert eiga og eru ekki uppá marga fiska – þá situr maður uppi með skrílinn sem verður til þess að á endanum kærir sig engin um að versla þar.
Flestir fundu til með henni – en engin var tilbúin til þess að veita henni hjálparhendi – hvað þá vinnu eða aðra aðstoð – samt voru flestir til í að tala um hana við aðra – aumingja konan – hvað hún átti bágt – hvar ætli hún sofi á nóttunni – á hún enga skó og þar fram eftir götunum – en hjálp fékk hún hvergi!
Sumarið hafði verið henni ákaflega erfitt og kuldar ráðið ríkjum – hún fann illilega fyrir því og hafði fengið slæmt kvef en einnig hafði veikburða líkami hennar fengið í sig einhverja óværu sem dró úr henni allan mátt – næturnar voru henni langerfiðastar vegna kulda og vosbúðar.
Á daginn gat hún aftur á móti læðst inn í verslunnarmiðstöðvar og ýmsa matsölustaði þar sem hún gat sótt sér örlítinn il og hvílst áður en ný nótt skall á – stundum var henni þó vísað með harðri hendi á dyr og skellt á eftir henni með hrópum og köllum – reyna að eyðileggja viðskiptin fyrir mönnum – var oftast kallað á eftir henni.
Sumarið var komið á enda – ákaflega mikill kuldi sótti á og gerði það að verkum að kvef og aðrar pestar sóttu að þeirri gömlu úr öllum áttum – hún gekk enn um bæinn – raulandi og tautandi um óréttlæti heimsins og stanslaust saug hún upp í nefið – hún skalf af kulda!
Útlimir hennar voru dofnir og enn voru fætur hennar skólausir – garmarnir sem hún klæddist veittu enga vörn gegn nýstandi kulda og vetur konungur beit grimmilega í allt það bera hold sem hún gat ekki hulið – mikið var hún orðin veikburða og þreytt. Hún þráði að komast einhversstaðar inn til að ná sér í hlýju og matarbita en alls staðar var henni meinaður aðgangur – óvenju fáir á ferli vegna kuldans og því auðvelt fyrir verslunnareigendur að koma auga á hana og loka á hana hurðum, engin vildi svona betlarakerlingu inn hjá sér og fáir kærðu sig um að horfa á hana meðan þeir gæddu sér á ýmsum kræsingum sem og heitum drykkjum – fólk hristi bara höfuðið þegar það sá hana – helst væri best ef hún yrði tekin af götunni og sett á elliheimili eða lokuð á geðdeild – best væri ef miðbærinn gæti losnað við þennan ljóta blett sem sett hafði svona sterkan svip á allt undanfarin ár.
Um miðjan Desember tóku nokkrir kaupmenn og athafnafólk í miðbænum eftir því að eitthvað var öðruvísi en vant var – eitthvað sem vantaði – áður en langt leið fóru menn að stinga saman nefnum og komust þeir þá að þeirri niðurstöðu að bærinn var ekki samur og venjulega – samt gátu þeir ekki sett fingur á það hvað vantaði – en eitthvað var að – öðruvísi og greinilegt var að fastakúnnar og fáeinir túristar sem komu ár eftir ár í jólamánuðinum urðu varir við að eitthvað vantaði í miðbæinn – engin áttaði sig samt.
Óvenjumikið hafði snjóað og hafði snjórinn skafið í skafla í öllum húsasundum – óteljandi snjóbingir söfnuðust saman og talsvert frost fylgdi í kjölfarið – kuldabolinn beit og reif í allt sem fyrir varð – og flestir héldu sig innandyra – nema lítil og samanskorpin mannvera sem lá í hnipri í einu horni miðbæjargarðsins – hún var þegar hulin snjó og kuldinn hafði þegar haft illileg áhrif á auman og lasburða líkaman – hún var látin!
Það var ekki fyrr en undir vorbyrjun að hún fannst – fólk var byrjað að hreinsa til eftir ákaflega erfiðan og kaldan vetur. Einhverjir bæjarstarfsmenn fundu lík hennar undir bráðnandi snjónum – flestum var brugðið – allir töluðu í lágu hljóði um hve vesalings konan hafði átt bágt – sumir sögðu jafnvel að hún hefði átt betra skilið en svona dauðdaga.
Allir voru á einu um það að reisa ætti styttu um gömlu betlarakonuna – nákvæmlega á þeim stað sem hún hafði lagst til hinstu hvílu – fólk talaði mikið um hve mikið vantaði nú þegar sú gamla var horfin af sjónarsviðinu – allir vildu sýna hve góðir þeir væru og vildu leggja sitt af mörkum til að reisa minningarstyttu um betlarakerlinguna og einnig til að gera útför hennar sem flottasta – engin hugsaði til þess að ef þeir hefðu tekið sig saman á meðan sú gamla var á ferli meðal þeirra væri hún enn á lífi og jafnvel hamingjusöm – þúsundir manna komu saman við útför hennar og allir töluðu um hve mikilfengleg sú útför var – dýrindis veitingar, hvergi var til sparað í mat og drykk – eitthvað sem hin látna hafði af svo skornum skammti fengið í lifanda lífi.
“Klippa” heyrðist hástöfum kallað – fólkið andaði léttar og hár kliður fór um fjöldann.
Gamla betlarakerlingin steig uppúr kistunni og reif af sér grámyglulegan hárlubbann – hún tók út úr sér góminn sem var hálftannlaus og í staðinn birtust hvítar fallegar tennur í brosgrettu – hún greip fallegu kápuna sem henni var rétt og skellti henni utanum sig því næst tók hún við freyðandi kampavínsglasi sem rétt var að henni.
Hjálpi mér allir heilagir – ég er viss um að þessi þvæla verður aldrei sýnd á kvikmyndahátíðinni – hvað þá sjónvarpi – kallaði hún til tökuliðsins og gretti sig alla – leikstjórinn gekk til hennar og hrósaði henni fyrir vel unnið verk – engar eftirtökur og lítið sem þurfti að klippa til – allt hafði gengið eins og í sögu – sögu um gamla betlarakerlingu sem dáið hafði úr vosbúð vegna þess að samferðamenn hennar höfðu ekki gert neitt til að létta henni róðurinn – myndin fékk litla athygli og var aðeins sýnd tvisvar.
:::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::
Engin veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur – oft eigum við erfitt með að átta okkur á því fyrr en eftirá – fyrr en um seinan!
Einnig er oft ekki allt sem það virðist eða sýnist…
Oft eru fáir tilbúnir að leggja hönd á plóg til að hjálpa til og fáir láta sig málin varða fyrr en um seinan – lífið í hnotskurn – látum okkur málin varða og verum lifandi.
::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::
Úff, þvílíkt bull sem maður getur látið frá sér – greinilega er ég kominn með ritstíflu eða eitthvað álíka, reyni að bæta ykkur það upp seinna – kveðja:
Tigercop.