Fólk var enn að tala saman og það var mikið hlegið í salnum þegar enn einu sinni hvað við þessi mikli skellur þegar Búbú sló niður stafnum.
Allra augu beindust að pallinum þar sem konungurinn sat með gömlu hjónaleysin sitt hvoru meginn við sig.
,,Þá er komið að því að heiðra mann sem hefur verið í fararbroddi í ýmsum málum hér á landi um árabil” byrjaði Búbú hárri röddu.
,,Þetta mikilmenni er með þeim duglegri sem starfað hafa hér á landi fyrir hönd konungs og er svona stórhuga maður vandfundinn” hélt hann áfram og það kom kliður í hópinn því enginn vissi um hvern var talað þó að marga grunaði að um stórbóndann í Ríkabæ væri að ræða.
Gráðugur sveitastjóri spratt á fætur og var spikið ekki til trafala í þetta skiptið.
,,Hann er að meina mig, hann er að meina mig!” sagði hann við Ruddu sem einnig stökk á fætur.
Gráðugur byrjaði á að færa sig nær pallinum og þegar hann var um það bil að koma að honum heyrðist hlátur sem honum geðjaðist ekki beint af. Hann leit upp og sá beint framan í brosgrettið andlit Skjónu.
Skjóna hafði séð karlinn spretta á fætur með allt sitt hold og síðan færa sig nær og nær hásætinu.
Það hlakkaði í henni því hún vissi nákvæmlega hvað hann var að hugsa, auðvitað hélt hann að hann væri langt yfir aðra hafinn. Næstu orð Búbús voru þeim gráðuga áfall.
,,Og viljum við nú biðja stórbóndann frá Ríkabæ í Ráðríkusveit um að koma hér upp” kallaði sá gamli og það byrjuðu allir að klappa því allir vissu hve mikið Einráður hafði gert fyrir sveitina, og þó víðar væri leitað.
Einráður varð feiminn eins og smástrákur en hann gekk samt upp að hásætinu. Fólk fylgdist spennt með á meðan konungurinn, sem hafði staðið upp, veitti stórbóndanum aðalsnafnbót og sæmdi hann með orðu.
Það var stoltur maður sem hneigði fyrir konungi sínum eftir að hafa tekið við öllu hrósinu.
Þegar Einráður hafði þakkað fyrir sig snéri hann sér við og ætlaði að ganga til baka til foreldra sinna en fann að einhver greip í handlegg hans og stöðvaði hann.
Skjóna hafði náð að stoppa Einráð áður en nokkur tók eftir því og hún blikkaði hann.
,,Það er ekki alveg búið herra Einráður” sagði hún og bendi honum á að konungurinn hafði eitthvað meira að segja við hann.
Hún leiddi hann aftur framfyrir Hans Hátign og sleppti hendinni á honum, því næst hvíslaði hún einhverju að konunginum.
Konungurinn gekk brosandi að Einráði og tók báðum höndum um hægri hendi hans.
,,Kæri vinur” sagði Hátignin, en þó það lágt að enginn viðstaddra heyrði hvað á milli þeirra fór.
,,Mér hefur borist það til eyrna að dætur þínar hafi ákveðið sig hvað mannsefni varðar” hélt konungurinn áfram og brosti góðlátlega.
Herra Einráður varð undrandi á svipinn og velti því fyrir sér hvers vegna sjálfur konungurinn hafði áhuga á þvílíkum smámunum.
,,Það er nú reyndar bara smáskot, að ég held, og ekkert sem kemur til með að verða neitt úr” svaraði stórbóndinn og brosti til baka, honum var órótt vegna þess að hann var ekki svo viss í sinni sök.
Kristján konungur hló létt og klappaði á öxl Einráðs um leið og hann snéri sér að gömlu frúnni í Snýtukoti.
,,Annað heldur þessi virðulega vinkona mín, hún vill halda því fram að betri pör sé vart að finna” sagði hann svo og Skjóna brosti og kinnkaði kolli.
Einráður var kominn í klípu, hann vildi ekki móðga neinn en hvað var til bragðs að taka.
Hann ákvað að segja nákvæmlega hvað honum fannst um þennan ráðahag og draga ekkert undan, þetta voru jú dætur hans.
,,Ég hafði nú reyndar ákveðið að dætur mínar skildu giftast inn í góðar efnafjölskyldur til að geta haft það eins gott og þær eru vanar frá mér” sagði hann og honum leið afar illa yfir góðlátlegu glotti konungsins og Skjónu.
,,Ég held að hvorugur þessara ungu manna hæfi þeim hvað auð og ættir varðar, hversu góðir þeir annars eru að mannkostum” hélt stórbóndinn frá Ríkabæ áfram og reyndi að bera sig mannalega.
,,Mig langar til að þú veltir þessu vel fyrir þér herra Einráður og mig langar til að biðja þig um að bíða með allar ákvarðanir þar til seinna” hélt konungurinn áfram og sú gamla leit biðjandi augum á stórbóndann.
Herra Einráður vissi varla hvaðan á sig veðrið stóð en ákvað að láta eftir í þessu máli, að sinni.
,,Ég get að sjálfsögðu hugsað málið, en það kemur samt ekki til með að breyta ákvörðun minni í sambandi við dætur mínar” svaraði hann.
Hann var öruggur með að Ebba mundi ætíð eiga í fátækt og basli með sveitalúðanum en hann var ekki alveg viss með Stjána og Gunnu. Þau voru eldri og þar að auki virtist Stjáni vera ríkari en Jesper, einnig voru foreldrar Stjána afar ríkmannleg.
Herra Einráður hrökk við þegar hann áttaði sig á hugsunargangi sínum.
,,Er ég virkilega svona mikill snobbhani” hugsaði hann og skammaðist sín.
,,Ég skal taka þetta til alvarlegrar athugunnar og ekki ákveða neitt að svo stöddu” sagði hann við konunginn og Skjónu sem brostu ánægð með svarið.
Þar með vísaði Skjóna stórbóndanum aftur til fjölskyldu sinnar, nú var komið af svikula sveitastjóranum sem virtist vera að kafna af spenningi.
Gráðugur og Rudda höfðu fært sig nær alveg að pallinum og þau reyndu eftir fremsta megni að heyra hvað á milli konungsins og herra Einráðs hafði farið, en þau heyrðu ekkert.
Gráðugi sveitastjórinn urraði af gremju og hann kleip í handlegg horuðu ráðskonunnar sem kveinkaði sér.
,,Ætla þeir að vera í allan dag að þessu kjaftæði” fussaði hann lágt. Rudda sleit sig lausa og gretti sig, hún nuddaði auman handlegginn.
,,Þú átt eftir að ganga af mér dauðri áður en yfir líkur með öllu þessu trampi og poti, þú verður að læra að slaka á keppurinn minn” hvíslaði hún á móti.
Sveitastjórinn áttaði sig á að hann hafði sennilega klipið of fast, þessar kerlingar eru alltaf svo viðkvæmar.
Hann fylgdist með þeim er á pallinum voru og hann var orðinn afar óþolinmóður.
,,Getur karlinn ekki komið sér aftur niður af pallinum, það er búið að heiðra hann” urraði hann að ráðskonunni sem var orðin áhyggjufull vegna æsta kærastans.
,,Þú verður að gæta þín Gráðugur, annars gæti einhver heyrt til þín” hvíslaði hún að sveitastjóranum.
Honum var nú nokkuð sama þó að allir heyrðu til hans. Það eina sem hann vildi var að kóngurinn færi að haska þessu af og að hann kallaði sig upp á pall.
,,Að láta sjálfan sveitastjóra Ráðríkusveitar bíða svona lengi eftir að fara upp til að taka við aðalsnafnbót og heiðursmerki, þvílík skömm af kónginum” tuðaði Gráðugur sjálfumglaður, Rudda samþykkti það umsvifalaust.
Allt í einu sáu þau hvar Einráður gekk til baka þangað sem fjölskylda hans stóð.
Gráðugur færði sig að pallinum og ætlaði að fara að klöngrast upp á hann en var stöðvaður.
Skjóna sá að feiti karlinn ætlaði að koma upp á pallinn án þess að bíða eftir kalli frá Búbú, hún rumdi af ánægju og gekk í veg fyrir hann.
,,Hvaða læti eru þetta eiginlega? Kanntu enga mannasiði mannkerti? spurði hún um leið og hún kom í veg fyrir að sveitastjórinn kæmist á pallinn.
Gráðugur blóðroðnaði af reiði, enn var þessi kerlingarálft að skipta sér af.
Helst hefði hann viljað grípa í kerlinguna og henda henni frá en það gat hann auðvitað ekki gert.
,,Það er löngu tímabært að þú fáir það sem þú átt skilið manngrey” sagði Skjóna og gaf Búbú merki um að byrja.
,,Og þú færð meira til ef ég fæ að ráða einhverju þar um” fussaði hún að ráðvilltum sveitastjóranum sem ekkert skildi í tuði kerlingarinnar.
Enn einu sinni barði Búbú stafnum niður í gólfið og enn einu sinni brast á þögn í salnum. Allir fylgdust með þegar gamli maðurinn gekk fremst á pallinn og gerði sig líklegan til að ávarpa samkomuna enn einu sinni.
Búbú leit brosandi yfir spenntan hópinn, sem var samansettur af bæði háttsettum sem og lægra settum stéttum þjóðfélagsins.
Allt hafði gengið vel hingað til og fáir árekstrar, að frátöldum ruddaskap Gráðugs.
,,Ágætu gestir” byrjaði hann og leit til sinnar kæru Skjónu sem bara brosti.
,,Þá er komið að því sem allir hafa beðið eftir og er aðalástæða þessa dansleiks” kallaði hann hátt svo öruggt væri að fólk aftan til heyrði örugglega.
Gráðugi sveitastjórinn hafði fylgst með hverri hreyfingu gamla karlsins og nú steig hann eitt skref áfram.
Hann var öruggur um að nú væri hans stund komin og það hlakkaði í honum, hann skildi sýna þessu pakki hver væri bestur.
,,Það er kominn tími til að kynna sjálfan óðalseigandann sem örugglega flest ykkar ef ekki öll hafa beðið eftir að sjá og hitta” hélt Búbú áfram og það fór kliður um salinn, engin hafði enn fengið að hitta dularfulla eiganda þessarar hallar sem Voldugustaðir sannarlega voru.
Einráður og foreldrar hans höfðu reynt að finna það út en ekki fengið neitt að vita, það virtist enginn vita hver hann var.
Fólk byrjaði að færa sig nær hásætispallinum og það þrengdi að feita sveitastjóranum sem stóð fast við hann, tilbúinn til að stökkva upp.
,,Svona, svona engan æsing, það er ég sem á að heiðra núna en ekki þið sagði hann fúll og reyndi að ýta fólkinu frá pallinum.
Skjóna hló að tilstandinu, allt í einu fékk hún snilldarhugmynd. Hún gekk til konungs og talaði lágum hljóðum við hann á meðan Búbú róaði fólkið niður, þar næst útskýrði hún hugmyndina fyrir Búbú og þau hlógu dátt.
Gamli maðurinn sló stafnum aftur niður í pallinn og enn varð allt kyrrt. Hann brosti með sjálfum sér og tók í hendi sinnar heittelskuðu.
,,Hugdetta þín er einstaklega heppileg sem refsing á feita karlinn frá Grobbstöðum Skjóna mín” sagði hann og dáðist að hugmyndaríkri unnustu sinni, þessari dásamlegu konu að hans mati.
,,Mikið er ég lánsamur að verða ástar þinnar aðnjótandi, og það í annað sinn á sömu ævinni” hélt hann áfram og augu hans sendu ástarneysta yfir til gömlu konunnar.
Allt í einu hrökk hann við, einhver var að kippa í buxnaskálmarnar hjá honum.
Gráðugur var orðinn óþolinmóður og hann hafði næstum hrópað hástöfum af gremju þegar hann heyrði ástarjátningar gömlu hróanna á pallinum.
Sveitastjórinn hallaði sér yfir á pallinn og greip í buxnaskálm Búbús og kippti í.
,,Á ekki að fara að kalla mig upp?” urraði hann um leið og hann sendi illilegt augnráð til Búbús og Skjónu.
Búbú brosti hæðnislega en sagði ekkert.
Hann horfði aftur yfir hópinn sem nú stóð þétt saman og fylgdist með öllu sem fram fór á pallinum.
,,Ágætu gestir” sagði hann aftur.
,,Eins og ég sagði áðan er kominn tími til að kynna óðalseigandann, en fyrst vill hans hátign fá síðasta manninn sem tilnefndur var til að ganga fyrir konung upp á svið” hélt Búbú áfram og glotti þegar hann heyrði sigurópið í karlinum sem stóð beint fyrir neðan hann.
,,Hér á ég auðvitað við sveitastjóra Ráðríkusveitar, herra Gráðugan frá Grobbstöðum” sagði gamli maðurinn og færði sig um set til að verða ekki fyrir feita manninum sem ruddist upp á pallinn.
Gráðugur beið ekki boðanna þegar hann heyrði nafn sitt nefnt heldur óð upp á sviðið, hann var hrokafullur og sigri hrósandi að sjá, hann glotti dramblátur og rak út úr sér tunguna til Skjónu.
,,Áður en konungur snýr sér að yður, herra Gráðugur, mun hans hátign kynna eiganda Voldugustaða” sagði Búbú hátt svo allir heyrðu.
Gráðugur glotti, honum var alveg nákvæmlega sama fyrst hann var kominn upp á sama pall og sjálfur kóngurinn.
,,Yðar hátign” hélt Búbú áfram og snéri sér að konungi sínum.
,,Þér eigið orðið og getið nú byrjað” sagði hann og gekk til Skjónu sem var að springa af spenningi og tilhlökkun.
Framhald seinna.