Konungurinn brosti að þessu en varð svo aftur alvarlegur þegar hann hugsaði um hvað það var sem kom þessu öllu af stað.
Hann horfði á feita karlinn og unga drenginn sem lágu á gólfinu og svo á ungu stúlkuna sem hafði staðið við hlið drengsins.
Ebba flýtti sér að hjálpa Jesper á fætur og síðan hneigði hún sig fyrir konunginum og bakkaði.
,,Þér verðið að fyrirgefa okkur klaufaskapinn yðar hátign” afsakaði hún þau og vonaði að þeim yrði ekki hent út.
Skjóna sem hafði fylgst með öllu kom til konungsins og hvíslaði einhverju að honum.
Hann hló og fólk andaði léttar en allir fylgdust spenntir með.
Ráðskonunni var bjargað undan feita sveitastjóranum, sem var rauður af áreynslu og skömm, síðan var honum sjálfum hjálpað á fætur.
,,Þér hljótið að vera herra Gráðugur sveitastjóri, og þér frú Rudda, ráðskona sveitastjórans” sagði konungurinn við skrítna parið sem stóð vandræðalegt og hjákátlegt á miðju gólfinu.
Gráðugur var fljótur að gleyma vandræðunum við þetta ávarp.
,,Fyrst kóngurinn segir herra við mig þýðir það að honum finnst ég mikilvægur” hugsaði sá feiti og gerði sig allan til.
Hann flýtti sér að beygja sig til að sýna hve mjög hann kunni sig en var næstum búinn að reka botninn aftur í ráðskonuna sem flýtti sér að færa sig við hlið kærastans.
,,Vonandi fyrirgefur hátignin klaufaskapinn í strákaulanum” sagði Gráðugur ákveðinn í að láta eins og allt væri Jesper að kenna.
Skjóna, sem hafði staðið við hlið konungsins, æstist öll upp við að heyra þetta.
,,Stattu ekki þarna eins og klettur í veginum fyrir hans hátign!” kvæsti Skjóna til feita karlsins sem hrökk við við að heyra talað til sín eins og stráklings.
,,Eða öllu heldur eins og fjall ætti ég frekar að segja” tautaði sú gamla svo aðeins konungurinn og sá feiti heyrðu.
Konungurinn hristist af innbyrgðum hlátri því hann vissi hve illa Skjónu var við sveitastjórann sem virtist ætla að springa.
Gráðugur roðnaði af gremju en þorði ekki annað en að færa sig frá og dró kerlinguna, hana Ruddu, með sér úr veginum.
,,Ég skal launa kerlingunni lambið gráa þegar ég verð heiðraður eins og stóð á boðskortinu” tautaði sveitastjórinn við ráðskonuna sem kinnkaði kolli til hans.
Konungurinn komst það sem eftir var leiðarinnar án frekari vandræða og var ekki annað að sjá en hann væri hinn hressasti þrátt fyrir allt.
Allt var til reiðu og ekkert að vanbúnaði svo Búbú skellti niður stafnum og bað um hljóð.
Mannfjöldinn horfði til hásætisins og fylgdist með þegar Skjóna afhenti konunginum skjal sem fólk vissi að innihélt nöfn þeirra sem heiðra átti, það fór kurr um salinn.
Það tók langan tíma fyrir konunginn og hjálparlið hans að fara yfir allan listann og veita öllum sem við sögu komu heiðursnafnbót, en að lokum var listinn tæmdur.
Allir voru búnir að fylgjast spenntir með og nú byrjaði fólk að tala saman og óska hvert öðru til hamingju.
,,Ég hélt að þú yrðir heiðraður sonur sæll” sagði herra Féráður við son sinn sem ekki hafði verið á þessum lista.
Einráður var sammála því hann hafði verið öðrum fremri í mannúðarmálum á undanförnum árum og einnig í öllum helstu nefndum landsins.
Skjóna kom til þeirra og tók undir hendi stórbóndans og leiddi hann aðeins afsíðis.
,,Ég vildi bara láta þig vita af því að þú þarft að ganga fyrir konung á eftir vegna ýmissa mála” sagði hún við Einráð sem varð heldur undrandi á svip.
Hann hafði átt von á að verða kallaður fyrir hans hátign með öðrum en ekki á þennan hátt.
Honum varð hugsað til að kannski hafi hann ekki staðið sig nógu vel í störfum, en það fannst honum samt fráleitt.
,,Hvers vegna var ég ekki kallaður upp ásamt hinum?” spurði hann og leit á gömlu frúna sem áður hafði verið lítil skrukka í litlu koti en var nú stórglæsileg heimskona sem sómdi sér afar vel meðal aðalsins. Skjóna brosti og sagði að það kæmi í ljós en að hann þyrfti ekki að hafa neinar áhyggjur.
Því næst fór sú gamla að leita af Jesper og Ebbu, það var áríðandi mál sem hún þyrfti að ræða við þau.
Gráðugur var öskuillur vegna þess að hann hafði ekki verið kallaður upp á pallinn og Rudda var einnig sárreið.
Þau höfðu verið svo örugg um að sjálfur sveitastjórinn yrði heiðraður fyrir allt það sem hann hafði gert fyrir sveitina sem auðvitað var ekki neitt, en það fannst þeim ekkert vandamál.
,,Ég gæti klórað augun úr þessari kerlingu sem greinilega stjórnaði listanum” urraði ráðskonan og gretti sig í áttina að Skjónu gömlu sem gekk um og leitaði af Jesper og Ebbu.
Unga fólkið sat við borð í einu horni salarinns og þeim leið ekki vel.
,,En ég segi ykkur alveg satt! Hann hrinti þér víst!” sagði Stjáni sem, eins og konungurinn, hafði séð þegar sveitastjórinn hrinti Jesper framfyrir hans hátign.
Þau voru niðursokkin í að ræða þetta þegar Skjóna fann þau og fékk sú gamla auðvitað að heyra allt því hún hafði ekki séð þetta sjálf.
,,Ég var einmitt að velta því fyrir mér hvernig það kom til að þú flaugst í veg fyrir Kristján en þessu átti ég ekki von á!” þeytti kerlingin útúr sér og var að rifna af reiði.
Hún vildi helst hlaupa til og ráðast á feita karlinn en sat á sér til að skemma ekki það sem koma mundi.
Skjóna bað Jesper og Ebbu um að koma með sér því hún ætlaði að ræða aðeins við þau. Síðan útskýrði hún fyrir þeim að konungurinn væri samþykkur ráðahag þeirra og að hann mundi tala við herra Einráð.
Unga fólkið varð himinlifandi og þökkuðu gömlu konunni hjálpina.
Þessu næst gekk Skjóna að borðinu þar sem Gráðugur og Rudda sátu og stungu saman nefjum. Þau voru enn niðursokkin í að nýða alla niður og tóku ekki eftir Skjónu sem nálgaðist.
,,Ég skal sko aldeilis taka af honum jörðina þegar við komum aftur heim” sagði sveitastjórinn meinfýsinn og glotti.
Ráðskonan brosti ljótu brosi á móti og klappaði á herðar bónda sínum.
,,Já og þú skalt bara reka hann úr sveitinni og ef hægt verður að þá væri best að reyna að niðurlægja hann svolítið í leiðinni” sagði Rudda og glotti eins og sveitastjórinn hafði gert rétt áður.
Allt í einu hrukku þau við, það stóð einhver fyrir aftan þau. Skjóna hafði heyrt það sem þau sögðu og vissi strax að þau voru að tala um Jesper, það sauð í henni reiðin en hún sat á sér.
,,Hérna passar kjaftur skel heyri ég!” sagði hún dálítið kvöss en sendi samt bros til þeirra, ískalt bros.
Gráðugur reyndi að rísa á fætur en þungi hans varð til þess að það gekk illa, hann brosti smeðjulega til konunnar sem greinilega var innundir hjá aðlinum.
,,Nú eruð það þér frú mín góð” sagði hann og bandaði frá sér hjálparhönd Ruddu sem ætlaði að hjálpa honum á fætur.
Frú Rudda ákvað að smjaðra líka til vonar og vara.
,,Þér berið af öðrum konum hér inni hvað klæðnað varðar” sagði hún og sendi frá sér brosgrettu sem hefði getað kálað hverjum þeim sem það lenti á.
Skjónu var skemmt yfir því að sjá þetta pakk skríða svona fyrir henni, þau mundu fá launað lambið gráa.
Hún hneygði höfuðið lítilega og þóttist uppi með sér um leið og hún tísti aðeins eins og skólastelpa.
,,Kærar þakkir, en ég kom ekki til að hlusta á einhvert smjaður. Ég kom til að láta yður vita, herra Gráðugur, að þér verðið kallaðir fyrir konung á eftir ásamt stórbóndanum í Ríkabæ” sagði Skjóna og skellihló innra með sér þegar hún sá sigrihrósandi svipinn á feita sveitastjóranum, sem auðvitað vissi ekki hvað var í vændum.
Það var greinilegt að honum fannst mikið til sín og hann var ekki í neinum vafa að hann fengi það sem hann verðskuldaði.
Skjóna lét sig hverfa og skildi vonda parið frá Grobbstöðum eftir við borðið, það var augljóst að þau áttuðu sig ekki á neinu.
Skjóna fann fljótt Búbú gamla og sagði honum frá öllu sem hún hafði heyrt og saman fóru þau á fund konungsins til að leyfa honum að fylgjast með.
,,Það verður ánægjulegt að rífa karlugluna ofan af stallinum sem hann hefur byggt sér, og það fyrir fé sveitarinnar” sagði sú gamla og klappaði saman höndum af tilhlökkun.
Hans hátign var þeim sammála um að eitthvað yrði að gera í málum gráðuga sveitastjórans, en hann vildi samt ekki niðurlægja hann eins mikið og Skjóna vildi að gert yrði.
,,Nóg verður skömm hans samt” sagði Hans Hátign Kristján við vini sína og brosti. Þau samþykktu þetta og ákveðið var að fara að byrja á lokauppgjörinu þannig að hægt væri að halda áfram með dansleikinn.
Framhald seinna.