Það urðu miklir fagnaðarfundir þegar Hans Hátign Kristján og fylgdarlið hans kom loks inn í viðhafnarstofuna á Voldugustöðum. Konungurinn var hinn hressasti og gerði að gamni sínu við alla og virtist hann hafa skemmt sér vel á leiðinni.
Skjóna og Búbú voru himinlifandi yfir því að sjá hann sem og alla sem komu með honum og það var mikið hlegið og skrafað.
,,Það er allt svo glæsilegt hér hjá ykkur að ég á bara ekki orð” sagði konungurinn og brosti til vina sinna, Búbú og Skjónu.
Þau ræddu saman um stund en því næst byrjuðu hinar alvarlegu samræður um hvernig ætti að láta málin ganga.
Ákveðið var að byrja á að heiðra nokkra gamla stórbændur sem höfðu látið gott af sér leiða en taka svo til við að taka á móti gjöfum sem fólk hafði komið með til að gefa konungi sínum.
Eitt og annað var ákveðið að stinga inn í dagskránna en þau gátu ekki ákveðið hvenær best væri að kynna óðalseigandann á Voldugustöðum.
,,Við verðum bara að láta það ráðast og sjá til hvenær það hentar best” sagði Skjóna og allir voru því samþykkir.
,,En það eru nokkur smámál sem brenna líka á mér” sagði hún svo og leit á konunginn. Hann brosti til konunnar sem hafði verið honum svo mikilvæg á undanförnum árum, betri milliliður var vandfundinn.
,,Nefndu þau bara kæra vinkona og við skulum athuga hvort ekki sé hægt að gera eitthvað í þeim málum” sagði Hans Hátign og tók í hendur gömlu kerlingarinnar.
Hún leit á Kristján konung og andaði djúpt síðan ákvað hún að segja það hreint út hvað hvíldi svo þungt á henni.
,,Það er hann Jesper litli. Hann er ástfanginn af yngri heimasætunni á Ríkabæ í Ráðríkusveit, henni Ebbu Einráðsdóttur” sagði hún og beið eftir viðbrögðum aðalsins.
Það mátti heyra saumnál detta því það var svo hljótt.
Konungurinn leit hugsandi á þá gömlu og andvarpaði.
,,Ég veit að þú hafðir eitthvað annað í huga í sambandi við þetta en unga stúlkan er hjartahrein og allrar virðingar verð” sagði sú gamla með ákveðni í röddinni, ákveðni sem aðeins Skjóna mundi þora að nota við sjálfan konunginn.
,,Ég skil” sagði Hátignin og brosti aftur.
,,En svo er það feiti sveitastjórinn í Ráðríkusveit, herra Gráðugur” sagði Skjóna með æsingi í röddinni og auðséð var að henni féll ekki við þann feita.
Þau ræddu þessi tvö mál fram og aftur og loks var tekin ákvörðun sem allir gátu sætt sig við.
Ákveðið var að konungurinn mundi tala fyrir hönd unga fólksins við stórbóndann á Ríkabæ þegar tækifæri gæfist, þau áttu ekki von á að það yrði mikið vandamál.
Mál sveitastjórans var hið spaugilegasta og voru allir vissir um að það mundi verða kátlegt að eiga við hann, sérstaklega hlakkaði þeirri gömlu til uppgjörsins. Þau ræddu þessi mál ásamt öllu öðru í dágóða stund í viðbót en síðan var ákveðið að fara af stað með allt inn í stóra hátíðarsalinn.
Búbú og Skjóna létu sig hverfa inn í danssalinn á undan öllum til að undirbúa komu konungsins.
Í hátíðarsalnum var ýmislegt í gangi, misjafnlega göfugt. Stórbóndinn á Ríkabæ horfði áhyggjufullur á dætur sínar dansa við þá frændur. Hann vissi ekki hvernig hann átti að fara að því að stýja þeim í sundur án þess að skemma hátíðarstundina fyrir stúlkunum.
,,Það er best að leyfa þeim að njóta dansleiksins en svo verð ég að láta þeim stólinn fyrir dyrnar” hugsaði hann og sagði foreldrum sínum frá áhyggjum sínum.
Herra Féráður og frú Ríkey brostu af syni sínum og bentu honum á að það væri kannski ekki gott að stinga nefinu of mikið ofan í mál ungu stúlknanna þar sem þær voru jú ekki nein börn lengur og ekki voru ungu mennirnir neinir glæpamenn.
,,Þú verður að fara varlega annars áttu á hættu að þær fari hreinlega að heiman. Þær eru greinilega báðar búnar að týna hjarta sínu til ungu mannanna og þau eru nú afar glæsileg saman, ekki satt?” sagði frú Ríkey sem var orðin afar hrifin af því hve glæsileg mannsefni sonardætur hennar höfðu valið sér, hvað sem öllu ríkdæmi leið.
Einráður var sammála því að unga fólkið var mjög glæsilegt á dansgólfinu og hann var mjög stoltur af dætrum sínum.
En það sem hann hafði áhyggjur af var að þær yrðu að hafa það eins gott í framtíðinni og þær voru vanar hingað til, sem sagt ríkmannlegt og áhyggjulaust líf sem að minnsta kosti Jesper gat ekki veitt henni Ebbu.
Hinu meginn í salnum var fúla parið frá Grobbstöðum enn að stinga saman nefjum. Gráðugur fylgdist stanslaust með Jesper og Ebbu þar sem þau voru á dansgólfinu, hann var fúll á svip.
,,Það nær engri átt að þessi lúði sé hér innan um okkur, fína fólkið, að skemmta sér” tautaði hann og fékk sér stóran bita af fuglakjöti sem hann hafði látið Ruddu sækja handa sér.
Frú Rudda var sammála stóra sveitastjóranum og hún var reið yfir því að Jesper skildi vera hér því það truflaði dásamlega bóndann hennar.
,,Kannski ég geti komið honum út og jafnvel í burtu” sagði hún og glotti, það mátti alltaf búast við einhverjum svikum og vondum ráðabruggum frá þessari slægu kerlingu.
Gráðugi sveitastjórinn brosti með fullan munn af kjöti og kinnkaði kolli.
,,Jájá, endilega reyndu að koma honum burt” frussaði hann og það flugu kjötagnir yfir á ráðskonuna sem flýtti sér að beygja sig til að forðast stóran bita sem flaug frá þeim feita.
Rudda ætlaði að fara af stað til að reyna eitthvað til að losa húsbóndann á Gorbbstöðum við sveitalúðann þegar háir skellir trufluðu þau.
Allir litu þangað sem hávaðinn kom frá, það voru þau Búbú og Skjóna. Sá gamli hafði tekið stóran tréstaf og nú sló hann stafnum niður í gólfið við hlið stóra stólsins sem var upp á pallinum.
,,Ágætu gestir” kallaði hann og fékk óskipta athygli allra viðstaddra því allir voru orðnir spenntir og biðu eftir því að hirðin kæmi.
,,Þá er komið að stóru stundinni. Ég ætla að biðja ykkur vinsamlegast um að færa ykkur til þannig að það myndist pláss fyrir miðju gólfinu frá hurðinni og hingað að hásætinu!” kallaði hann.
Um leið byrjuðu allir að færa sig þannig að það mynduðust tvær raðir fólks, sitthvoru megin við aðalinnganginn og alveg að pallinum sem bar fallega skreytta stólinn.
Þegar það var gert gengu Búbú og Skjóna saman eftir ganginum sem hafði myndast á milli fólksins til aðalinngangsins.
Þau stilltu sér upp við dyrnar, Búbú öðru megin en Skjóna hinu megin.
Gamli maðurinn barði aftur niður stafnum og um leið og hljóð kom á mannfjöldann aftur tóku þau í sitt handfangið hvort á innganginum.
,,Það er okkur heiður og ánægja að bjóða Hans Hátign Kristján konung vorn og verndara velkominn ásamt öllu fylgdarliði!” kallaði Búbú hátt og því næst opnuðu þau báða dyravængina.
Það heyrðist mikill kliður í hópnum því fyrir utan stóð sjálfur konungurinn ásamt fjöldanum öllum af prúðbúnu fólki.
Hans Hátign gekk af stað inn í salinn og fylgdi aðallinn fast á eftir, fólkið klappaði af hrifningu við að sjá loks konunginn. Allir vildu sjá hann og sumir tróðu sér fram fyrir og ýttu öðrum til hliðar til að sjá betur, sumir óþarflega harkalega.
Þegar Kristján konungur kom fyrir miðjan salinn sá hann útundan sér hvar stór og feitur kall tróð sér í gegnum hópinn framundan. Þegar sá feiti var kominn næstum fremst staðnæmdist hann fyrir aftan ungt par sem stóð fremst og fylgdist spennt með öllu. Kristján fylgdist í laumi með feita karlinum því hann grunaði að þar færi feiti sveitastjórinn úr Ráðríkusveit.
Þegar Hans Hátign nálgaðist staðinn sem sá feiti var á þá sá hann hvar stóri karlinn hrinti unga drengnum fram á gólfið fyrir framan sjálfan konunginn.
Jesper og Ebba stóðu fremst við gólfið og sáu vel frá þeim stað sem þau voru á. Aftur á móti var feiti sveitastjórinn, ásamt Ruddu, aftarlega og sá ekki neitt, mikið var hann reiður.
Hann hafði ætlað sér að standa þannig að konungurinn myndi örugglega taka eftir honum, jafnvel heilsa honum, sjálfum sveitastjóra Ráðríkusveitar.
Gráðugur og Rudda reyndu að troða sér framfyrir hina og í miðjum troðningunum sáu þau unga fólkið, Jesper, Ebbu, Stjána og Gunnu standa á besta stað og njóta útsýnisins.
,,Ég veit hvernig við getum gert þau að athlægi fyrir framan konunginn og um leið látið kónginn sjá hvað þú ert góður” hvíslaði vonda ráðskonan að kalli sínum.
Síðan útskýrði Rudda fyrir Gráðugum hvað gera skildi.
Það hlakkaði í þeim gráðuga við þessa útsmognu tillögu og hann ruddi sér leið að unga fólkinu með kerlinguna á eftir sér, bæði jafn grimmileg á svipinn.
Þegar þau komu að baki Jespers biðu þau eftir því að konungurinn kæmi nær. Um leið og hátignin var um það bil að ganga framhjá hrinti illi sveitastjórinn Jesper harkalega út á gólfið beint fyrir framan konunginn.
Jesper datt kylliflatur við fætur konungsins, hann þorði ekki að hreyfa sig og lá kyrr.
,,Nú verð ég rekinn út og fæ aldrei aftur að koma í svona fallega veislu aftur” hugsaði Jesper þar sem hann lá í gólfinu.
Gráðugur flýtti sér að troða sér út á gólfið fyrir framan konunginn og brosti smeðjulega.
,,Alltaf er unga fólkið sér til minnkunnar og auðvitað kann það enga mannasiði" sagði hann eins smeðjulega og hann gat.
Því næst ætlaði hann að beygja sig niður til að tosa drenginn á fætur og sýna aðlinum þar með hve hjálpsamur og góður hann var, en það vildi ekki betur til en að hann rak afturendann beint í horuðu ráðskonuna sem hafði elt hann út á gólfið.
Rudda greip í jakka Gráðugs og flaug aftur á bak. Það skipti engum togum að hún dró karlinn með sér og enn einusinni þennan dag skall feiti sveitastjórinn með látum og ópum ofan á ráðskonuna sína fyrir framan alla helstu ráðamenn landsins, sem og konunginn sjálfan í þetta skiptið.
Það var dauðaþögn í salnum, fólk hélt í sér andanum á meðan það beið eftir viðbrögðum konungsins. Það eina sem heyrðist voru stunurnar í ráðskonunni sem lá undir feita karlinum og eitthvað smánarvæl í Gráðugum sveitastjóra.
Framhald seinna.