Tíminn leið hratt og fyrr en varði var beðið um hljóð í salnum. Búbú gamli hafði slegið stórum staf niður í gólfið á salnum og við það þögnuðu allir og horfðu til hans.
Skjóna stóð við hlið hans og þau voru afar tignarleg á að líta.

,,Heiðruðu gestir, við viljum biðja ykkur öll um að fara yfir í stóra hátíðarsalinn hér við hliðina.
Við munum halda dansleikinn sjálfan þar og einnig er að koma að hátindinum, konungurinn er á leiðinni og er væntanlegur innan skamms” sagði hann hástöfum og það komst ókyrrð á hópinn við að heyra það að konungurinn væri rétt ókominn.
Fólkið byrjaði að tínast yfir í fallega hátíðarsalinn, sem var stórkostlega skreyttur og um helmingi stærri en sá sem þau höfðu verið í áður.
Á leiðinni inn greip Gráðugur sveitastjóri í handlegg Jespers svo lítið bar á og kippti í hann.

,,Hvað er svona sveitalubbi eins og þú að gera á svona fínum stað” sagði hann hryssingslega og hristi aumingja drenginn sem næstum fékk hjartaáfall af hræðslu við risastórann karlinn sem var mjög ógnandi yfir honum.
Jesper byrjaði að stama og vissi ekkert hvað hann átti að gera. Skjóna sem stóð álengdar sá hvað var um að vera og ætlaði að hlaupa til og í þetta skiptið sá hún rautt af reiði, sá skildi fá fyrir ferðina.
En áður en hún náði til þeirra varð einhver á undan henni til þess feita og skakkaði leikinn.
Stórbóndinn á Ríkabæ hafði illan bifur á gráðuga sveitastjóranum og hafði fylgst með öllu.
Þegar sveitastjórinn greip í drenginn var Einráði nóg boðið.

,,Það á enginn skilið að þannig sé tekið á honum, jafnvel ekki sveitalúðinn!” hugsaði herra Einráður um leið og hann greip fast í hendi sveitastjórans og kippti henni af drengnum.
Gráðugur hrökk við og leit upp á stórbóndann sem var höfðinu stærri en hann sjálfur.
Hann varð eldrauður af reiði en sagði ekki neitt heldur kvæsti bara.

,,Það er óþarfi að láta svona á þessari stundu, hér eiga allir að skemmta sér og enginn þarf að vera með fúlmennsku” sagði Einráður valdmannslega við sveitastjórann sem urraði bara en sleppti strax takinu á Jesper.
,,Því skildir þú hafa áhyggjur af þessum sveitalúða sem ekkert er nema fátæktin uppmáluð?” kvæsti Gráðugur og lagaði sig til.
Frú Rudda var líka komin og hún kvæsti líka á stórbóndann.

,,Já, ég segi það. Svona sveitaómagar eiga ekkert erindi á svona samkomur” sagði Rudda hneyksluð og burstaði ósýnilegt ryk af feita kærastanum sínum.
Herra Einráður hristi bara höfuðið vegna fúlmennsku þeirra og tók í axlir Jespers sem var enn nokkuð miður sín eftir lætin í sveitastjóranum.

,,Jesper er með mér og það þýðir að hann er undir mínum verndarvæng, svo ef þið ætlið að nýðast á honum þá verðið þið að gera það í gegnum mig!” sagði Einráður reiðilega og virtist enn hærri og valdmannslegri en áður.
Hann hjálpaði Jesper að laga sig og rak hann áfram inn ásamt Ebbu sem var líka komin til þeirra.


Skjóna, sem næstum hafði misst stjórn á sjálfri sér, sá að stórbóndinn reddaði drengnum og var honum þakklát.
Hún sá að þegar þeir voru aftur lagðir af stað inn var sveitastjórinn afar illilegur og ákvað að fylgjast enn betur með þessum skelfilega manni.
Allt í einu kom hún auga á eitthvað sem lá á gólfinu. Hún tók það upp, þetta var innsiglismerkið sem Jesper hafði verið með í barminum.
Hún opnaði næluna og gekk hratt á eftir vonda sveitastjóranum.

Gráðugur var niðursokkinn í hefndaráætlun.
Hann var ákveðinn í að ná sér niðri á stórbóndanum, hvað sem það kostaði.
Allt í einu fann hann sáran sting í risastórum botninum. Hann hrökk áfram beint á sína elskuðu ráðskonu og saman duttu þau með miklum tilþrifum framfyrir sig, feiti sveitastjórinn lá ofan á horaðri ráðskonunni fyrir framan allt fína fólkið á landinu.

Skjóna lét sig hverfa í fjöldan, hún lokaði nælunni aftur glottandi.
,,Þetta var bara smjörþefurinn af því sem koma skal” hvíslaði hún með sjálfri sér.
Það var mikið hlegið af þeim er á gólfinu lágu en þegar þeim hafði verið hjálpað á fætur hélt fólkið áfram inn í hátíðarsalinn. Gráðugur nuddaði sárauman bossann en skildi ekkert í því hvað þetta hafði verið, auðvitað vissi hann ekkert um að það hafði verið næla Jespers sem hafði stungist á kaf í bossan á honum.

,,Hvað í ósköpunum gekk á hjá þér að hoppa svona á mig fyrir framan alla?” spurði Rudda önug þegar hún hafði jafnað sig á látunum. Hún hafði næstum sprungið undan þunga sveitastjórans og hún hugsaði með sér að þetta mætti aldrei endurtaka sig.
Þvílíkt og annað eins, að gera sig að athlægi fyrir framan allt fínasta fólkið á landinu.
En gráðugi sveitastjórinn hristi bara höfuðið, honum var heldur ekki skemmt yfir því að vera aðhlátursefni fína fólksins.

Skjóna náði fljótt stórbóndanum og tók létt í hendina á honum. Herra Einráður leit hissa á þessa virðulegu konu en þó hann væri viss um að hafa séð hana áður, þá þekkti hann ekki gömlu frúna í Snýtukoti. Hún brosti til hans.

,,Þakka þér fyrir að gæta drengsins, það máttu vita að þér verður launað góðverkið þrátt fyrir allt” sagði hún hlýlega og klappaði á hendi stórbóndans eins og hann væri lítill drengur.
Einráður brosti bara á móti en átti í mestu erfiðleikum með að átta sig á gömlu konunni.
,,Þó það nú væri að maður láti einhvern komast upp með að vera með svona yfirgang á þetta hátíðlegri stundu.
Jafnvel sveitastjórinn sjálfur er ekki heilagur og hann þarf ekki að láta svona” sagði hann og horfði rannsakandi á konuna sem hann kannaðist við en þekkti ekki.

,,Má ég spyrja frúna um það hverra manna hún er?” spurði Einráður svo og brosti viðkunnanlega við Skjónu, sem ákvað að segja stórbóndanum strax sannleikann um það hver hún væri.

,,Ég er Sigrid Kjelle Ónasen og er af Ónasenættinni í kóngsins Kaupmannahöfn” sagði gamla kerlingin frá Snýtukoti stolt.
Mikið fannst henni dásamlegt að kynna sjálfa sig á þennan hátt aftur eftir svona langan tíma.
Hún sá á stórbóndanum að hann kannaðist við ættarnafn hennar og hún varð hrifin af því hve mikilli þekkingu hann bjó yfir.

,,En þú mátt gjarnan kalla mig Skjónu eins og ég er venjulega kölluð, Skjóna í Snýtukoti,, hélt hún áfram og skellti uppúr þegar hún sá undrunarsvipinn á herra Einráði.
Stórbóndinn starði á tignarlega konuna og hélt að honum hefði misheyrst, Skjóna í Snýtukoti.
Gat það verið að þessi hefðarfrú væri gamla kerlingin sem bjó sem einsetukerling í litla kotinu í Ráðríkusveit.
Einráður áttaði sig á að hann starði með opinn munn á gömlu konuna og flýtti sér að loka honum.

,,Ég skil, mér fannst sem ég kannaðist við þig frú Skjóna” sagði hann til að fela undrun sína.
Þegar hann velti fyrir sér nafni hennar tók hann eftir því að hún hefur tekið fyrsta stafinn af Sigrid, fyrstu tvo af Kjelle og þrjá fyrstu af Ónasen til að fá út nafnið Skjóna.
Hann brosti þegar hann hugsaði um hversu vel hún hafði falið sig, í Snýtukoti.

Hann hafði heyrt um Sigrid Kjelle Ónasen því móðir hans, frú Ríkey, hafði fylgst með hirðinni af miklum áhuga í gegnum árin.
Sigrid (Skjóna)hafði verið dásamleg og eftirsótt og af einni þekktusu ætt í Kaupmannahafnar, fyrir utan konungsættina.
En eitthvað hafði gerst og hún hafði horfið frá hirðinni ásamt annarri tiginni konu, þær hreinlega gufuðu upp.

,,Ég veit að hún móðir mín mun verða himinlifandi yfir því að heyra þetta” sagði Einráður við Skjónu. Hann skýrði því næst fyrir henni hversu mikinn áhuga frú Ríkey hafði á hirðinni og að hún hefði haft sérstakan áhuga á einmitt þeim tveim konum sem hvað mest bar á.
Skjóna skellihló og sagði að hún skildi tala við móður hans.
Þau röbbuðu saman á leiðinni inní stóran danssalinn og hlógu af og til þrátt fyrir munin sem hafði verið á þeim áður, stórbóndinn í Ríkabæ og kerlingin í Snýtukoti.

Jesper, Ebba, Gunna og Stjáni höfðu fylgst með og voru ánægð þegar þau sáu að Einráður og Skjóna virtust ætla að verða hinir mestu mátar.
Kannski að þetta mundi allt saman blessast.
,,Fyrst Skjóna getur fengið hann föður okkar til að hlæja og gantast, þá er möguleiki á að hann sé að mildast og leyfi okkur að eiga hvert annað” sagði Ebba brosandi við þau hin.
Þau skelltu upp úr og lífið virtist loksins ætla að brosa við unga fólkinu.


Stóri hátíðarsalurinn var glæsilegur í alla staði og það glitraði á allt þar inni. Við endan á salnum hafði verið komið upp stórum palli og ofan á pallinum var fagurskreyttur stóll, greinilega ætlaður konunginum.
Fæstir höfðu áður séð svona fagran danssal, hvað þá komið inn í slíkan.
Skjóna og Búbú voru afar stolt af því hve framúrskarandi vinnufólkinu hafði tekist með að undirbúa allt og þau létu það óspart í ljós.

,,Háttvirtu gestir” þrumaði Búbú gamli virðulega yfir salinn þegar allir voru komnir inn fyrir.
,,Það er okkur mikil ánægja að bjóða ykkur öll velkomin hingað til þessa hátíðar og kynningardansleiks” hélt hann áfram og tók í hendi sinnar heittelskuðu.
Þau brostu til hvors annars og síðan leit gamli maðurinn aftur á mannfjöldann.

,,Það er von okkar að þið getið skemmt ykkur hér og endilega dansið þar til ég tilkynni komu hans hátignar, Kristjáns konungs” sagði hann og gaf hljómsveitinni merki um að byrja spila. Tónlistin ómaði og fólkið tíndist smá saman á gólfið.
Allir voru í hátíðarskapi, nema ruddalega fólkið frá Grobbstöðum.

Gráðugur sveitastjóri og Rudda ráðskona voru óánægð, þau stungu illileg saman nefjum.
,,Við þurfum að hefna okkar á herra Einráði og hans hyski” tautaði Rudda reiðilega.
,,Að voga sér að grípa svona í þig elskan mín” sagði hún svo og brosti til feita unnustans.
Gráðugur kinnkaði annars hugar kolli, hann hafði meiri áhuga á að taka strákhvolpinn, Jesper frá Snauðustöðum, í gegn.
,,Svona sveitalýður á ekki heima innan um allt þetta merkisfólk” tuðaði hann og ylgdi sig.
Þau héldu áfram að væla utan í hvort annað á meðan þau fylgdust með fólkinu dansa.

Auðvitað vildi akfeitur sveitastjórinn ekki fara á gólfið.
Hann ætlaði sér ekki að verða enn og aftur að athlægi, hann kunni ekki að dansa en það kom alls engum við.
Að sjálfsögðu hafði hann tekið aðeins meira af fé úr sveitasjóðinum til að borga rándýra danskennslu sem hann fór í til borgarinnar, án árangurs.
,,Þér verðið að léttast til að geta orðið góður dansherra” hafði danskennarinn, sem var lítil og nett kona, sagt oft og mörgu sinnum við Gráðugan.
Á endanum hafði hún gefist upp á að kenna honum og hætt, hún var orðin afar hölt eftir að hafa margsinnis verið troðin undir feita karlinn.
,,Verður að léttast, hvað heldur kerlingarbeinagrindin að hún sé” tautaði Gráðugur eitt sinnið er hann fór frá borginni.
Hann hló bara því honum fannst það mjög valdmannslegt að vera aðeins þybbinn, og hann var jú glæsilegur maður fannst honum sjálfum.


Allt í einu kom hann auga á þau Jesper og Ebbu á dansgólfinu, hann urraði af gremju. Þau voru stórglæsileg á gólfinu og voru það margir sem horfðu á þau með blendnum huga. Gráðugur og Rudda með illilegu augnráði, herra Féráður Ríkisdal ríkisfjárhirðir og kona hans frú Ríkey með væntumþykju og hlýju og auðvitað herra Einráður með áhyggjusvip.
Svo var það líka Skjóna og Búbú gamli.
Þau voru afar hrifin af því hve glæsilegt unga fólkið var og sú gamla var að rifna af stolti.
,,Þau eiga eftir að standa sig vel” sagði Skjóna með hlýlegu brosi við Búbú.
Gömlu ástarfuglarnir stungu saman nefjum og þeim leið vel þar til þau voru trufluð af einum vinnumanninum sem gaf sig á tal við þau.
,,Já ég sá vagnana á hæðinni og þeir verða hér eftir augnablik” sagði vinnumaðurinn sem var spenntur á svip.

Skjóna og Búbú flýttu sér á eftir vinnumanninum inn í viðhafnarstofu óðalsins til að taka á móti hans hátign og fylgdarliði hans.
Allt var tilbúið til að taka á móti aðalsfólkinu og auðvitað þurftu þau gömlu líka að ræða við konunginn áður en þau færu inn í stóra danssalinn. Margt þurfti að skipuleggja og að ýmsu að hyggja áður en konungurinn afhjúpaði leyndardóminn um hinn þekkta, en samt óþekkta, óðalseiganda Joakim E. S. Per.

Skjóna var harðákveðin í að láta feita sveitastjórann finna til tevatnsins, hann skildi ekki komast upp með að vaða á skítugum bomsunum yfir drenginn hennar.
Gamla kerlingin hafði látið fara yfir reikninga sveitarinnar með leynd og fengið að vita hversu óhreint mjöl Gráðugur hafði í pokahorninu.
Einnig þurfti hún að ræða ýmis önnur mál við konunginn sem og við fylgdarliðið, til dæmis systur sína.
Hún hlakkaði mikið til að hitta aftur fjölskyldu sína eftir öll þessi ár sem hún hafði búið í hálfgerðri einangrun í Snýtukoti. Að sjálfsögðu hlakkaði hana mest til að geta byrjað nýja lífið sem framundan var með elsku Búbú sínum.

Framhald seinna.