Hann er einn inni í eldhúsi. Hann er nefnilega svolítið svangur og honum langar í smáköku og mjólk. Mamma hans situr frammi í stofu með Lóu vinkonu sinni og þær tala saman. Mamma sagði að hann ætti að fara inn í herbergi að leika en hann er orðinn leiður á því.
Hann fer inn í reykmettaða stofuna og gengur að mömmu sinni, þar sem hún situr og spáir í hvort að hún eigi að líta ljóst hár sitt dökkt. Stendur svo bara og horfir um stund á hana.
-Mamma, segir hann biðjandi.
-Æi, Kristinn, ekki hanga svona yfir okkur, farðu inn til þín að leika, svarar mamma.
-En mamma, ég eð þvangur.
-Þú ert nýbúinn að borða. Farðu nú inn til þín, segi ég og hlýddu, segir mamma ákveðið.
Hann fer út úr stofunni og aftur inn í herbergi. En hann langar svo í smáköku. Hann veit að mamma ætlar að geyma smákökurnar fyrir afmælið hans pabba. Hann á lika afmæli bráðum, þá verður hann fjögurra. Hann fer inn í eldhús.
Marglitt smákökuboxið er upp á efstu hillu eldhússkáparins. Hann þarf að ná sér í stól til að standa á svo að hann geti náð alla leið. Hann togar pabbastól alveg að eldhússkápnum. Klifrar síðan upp á stólinn, en nær ekki alla leið. Hann stígur upp á eina hilluna og teygir sig. Sko, nú náði hann því. Hann fer niður af stólnum og lætur síðan smákökuboxið á hann. Kristinn opnar boxið og við blasa ábyggilega mörg hundruð smákökur. Hann er lengi að velja sér eina en finnur loks þá réttu.
Í sama mund kemur mamma hans inn í eldhús.
-Hvað ertu að gera? Ertu að stela smákökunum mínum? Það er ljótt að stela, segir hún reið við hann og tekur af honum boxið. Hann lítur upp til hennar, stór blá saklaus augun tindra og tár koma fram.
-Já, það er ljótt að stela. Ég á þessar smákökur og þú verður að biðja um leyfi. Ég hef margoft sagt þér þetta, Kristinn Örn. Þú ert orðinn svo stór að þú átt að vita þetta, heldur hún áfram. Hann þurrkar tár af kinninni.
-Méð langað í þmáköku, segir hann mjóróma.
-Nei þýðir nei og það hjálpar ekkert að fara grenja. Svona, hunskastu inn til þín og skammastu þín! Hún er reið við hann. Hann veit það því að hún hvessir augun á hann og er með vondu röddina. Hann hleypur inn til sín og lokar á eftir sér hurðinni. Kastar sér síðan upp í rúm og grætur sáran. Ef bara pabbi væri heima, þá myndi hann leyfa honum að fá smáköku.
Þegar hann hefur grátið nóg sest hann upp í rúminu. Horfir í kringum sig á allt dótið í herberginu. Þar er allt í drasli. Hímen karlarnir ekki í kassanum sínum og fótboltaspilin dreifð um gólfið. Kannski ef hann tekur til, þá verður mamma góð aftur og leyfir honum að fá smáköku.
Hann gleymir sér í tiltektinni. Mamma opnar hurðinni nokkru seinna og segir að hann eigi að koma fram. Lóa stendur inni í andyri og er að klæða sig í.
-Svona nú, Kristinn, við erum að fara að versla. Geturðu ekki klætt þig sjálfur í úlpuna og skóna? Ég skal reima fyrir þig, segir mamma og ýtir honum á undan sér inn til Lóu.
Kristinn kinkar kolli og teygir sig í grænu úlpuna sína. Þegar hann er kominn í úlpuna sest hann á góflið og klæðir sig í skóna. Síðan stendur hann upp og biður mömmu sína að reima.
-Ertu í krummafót? Þú ert nú ekki í lagi, barn. Hvenær ætlarðu að læra þetta, segir mamma og honum heyrist hún vera enn reið.
Mamma er ekki lengi að laga skóna. Síðan leiðir hún hann út á bílastæði í litla, rauða bílinn hennar Lóu. Hún bendir honum að setjast í aftursætið og segir honum að vera kyrrum á meðan hún spennir beltið. Síðan sest hún frammí.
Þær kveikja sér báðar í sígarettu og tala saman um einhverja stelpu sem hann veit ekki hver er. Það er vond lykt í bílnum. Hann horfir bara út um gluggann, á öll húsin sem þjóta hjá og alla hina bílana. Kannski kemur pabbi um helgina af sjónum, hugsar hann.
-Mamma, hvenæð kemuð pabbi heim?
-Á þriðjudaginn, svarar mamma og heldur síðan áfram að tala við Lóu.
Kannski er mamma enn reið út hann. Hann vill ekki að mamma sé reið. Mamma á að vera góð. Pabbi er alltaf góður. Hann var búinn að lofa honum að fara með hann í bæinn að kaupa nýjan Hímen kall handa honum. Það er gaman að vera með pabba því hann er alltaf svo glaður.
-Mamma, eðtu enn ðeið? Ég ætlaði ekki að þtela, mig langaði baða….
-Nei, nei, ég er ekkert reið, horfðu nú út um gluggann á bílana, ég er að tala við Lóu, svarar mamma.
Loksins koma þau í búðina. Mamma losar beltið hans og tekur í hönd hans og leggur í sína. Hún segir honum að leiða sig á meðan þau eru að ganga inn.
Það er gaman í búðinni. Þar er margt að sjá og skoða. Mamma leyfir honum stundum að velja morgunkorn og hann hleypur inn í þann gang þegar þau koma þangað. En mamma vill ekki leyfa honum að ráða núna.
-En ég vil þeðíóþ.
-Nei, ég ætla kaupa korn fleks.
-Æ, geðu það, þeðíóþ. Þá þkal ég veða voða góður?
-Nei, segi ég og hættu þessu suði.
-Pabbi vill boða þeðíóþ.
-Já, en pabbi er ekki hér, er það nokkuð? Hættu nú eins og skot, annars hendi ég þér út í bíl.
-Ég vil fá þeðíóþ, segir hann lágt en mamma heyrir það ekki.
Þegar þau koma að kassanum þar sem maður þarf að borga, þá er fullt af fólki sem bíður þar í röð. Þar er gamall karl sem brosir til hans og gerir sig skrýtinn í framan þegar mamma og Lóa sjá ekki til. Hann getur meira að segja hreyft í sér tennurnar. Kristinn verður svolítið feiminn og felur sig fyrir aftan mömmu en stelst til að kíkja á karlinn. En síðan kemur röðin að karlinum og hann fer að tala við stelpuna á kassanum.
Altt í einu man Kristinn eftir því sem mamma sagði fyrr í dag, þegar hann var að fá sér smáköku. Það er ljótt að stela. Pabbi sagði einu sinni að ef að maður stæli þá færi maður í fangelsi og það væri slæmt.
-Mamma, segir hann hátt og skýrt.
-Já, hvað nú, Kristinn Örn?
-Við þurfum ekkert að stela núna, er það nokkuð?
Mamma verður rauð í framan og opnar munninn en ekkert kemur út úr henni. Lóa fer að hlæja en allt fólkið í röðinni horfir á mömmu.
-Já, mamma, við þurfum ekkert að stela núna, endurtekur hann og brosir.
Allt í einu er rifið í handlegg hans og hann dreginn út í bíl. Mamma er reið, en hann veit ekki af hverju. Hún opnar bílinn með látum og togar hann inn í bílinn. Hún festir beltið fyrir hann en hvæsir síðan á hann.
-Ég er alveg búinn að fá nóg af þér í dag, Kristinn Örn Gunnarsson. Þú ert eilífur höfuðverkur, ég fæ aldrei stundarfrið fyrir þér. Nei, ég er alveg búinn að fá nóg af þér.
Síðan skellir hún á eftir sér hurðinni og gengur hratt inn í búð. Hann situr einn eftir og veit ekki af hverju mamma er svona reið. Hann veit ekki af hverju hann er að gráta.