Heima að Snýtukoti var Skjóna gamla að leggja lokahönd á það verk sem hún hafði tekið að sér fyrir gömlu hjónin á Snauðustöðum. Jesper sat við eldhúsborðið hennar og hámaði í sig nýbakaðar skonsur með heimatilbúnum osti á.
Gamla konan horfði á drenginn og vonaði að þetta mundi ekki breyta honum of mikið.
,,Þú verður sennilega aldrei aftur við gamla eldhúsborðið mitt að borða skonsur, ef þú þá nokkurn tíman borðar skonsur aftur” sagði hún annars hugar og strauk yfir kinn drengsins.
Jesper leit upp til gömlu konunnar og honum brá þegar hann sá að það voru tár sem runnu niður kinnar hennar.
Hann hafði fundið á sér síðustu daga að eitthvað var meira um að vera en bara hátíðardansleikurinn.
,,Já en Skjóna mín, ertu að gráta?” spurði drengurinn og tók í hendi gömlu kerlingarinnar, en hún var fljót að draga hana til sín og þurrka tárin.
,,Það eru bara gleðitár vegna þess að við erum öll að fara í ný ævintýri” sagði Skjóna aðeins hressari í bragði og settist hjá Jesper. Hún varð að segja honum aðeins meira um það sem framundan var en hún vissi ekki alveg hvernig hún átti að byrja.
Hún skýrði út fyrir drengnum að hann stæði á krossgötum í lífinu og það væri alveg undir honum sjálfum komið hvernig allt færi.
Jesper hlustaði á allt sem Skjóna sagði og öðru hvoru skaut hann inn spurningu eða orði.
,,Þú sérð að eftir hátíðardansleikinn verður ekkert samt aftur, þú munt þurfa að flytja frá Snauðustöðum en þú getur alltaf komið hingað til að eyða tíma ef þú vilt” sagði gamla kerlingin og varð áhyggjufull þegar hún sá svipinn sem kom á andlit drengsins.
,,Já en þú sagðir um daginn að ég ætti Snauðustaði og enginn gæti rekið mig í burtu þaðan,, sagði drengurinn undrandi og æstur.
Skjóna gamla sagði Jesper að hann ætti staðinn en hann mundi samt þurfa að flytja. Hún sagði að það væri kominn tími til breytinga og að það væri konungurinn sem ætlaðist til þessarra breytinga, það væri hann sem réði.
Síðan skýrði sú gamla frá því hvers vegna konungurinn ætlaðist til að Jesper flytti.
,,Þú ert skyldur konungi og þarft að takast á við ýmsar skyldur samkvæmt því, en hversu miklar skyldurnar eru veit ég ekki alveg” sagði hún og brosti að undrunarsvip drengsins.
,,Ha? Er ég skyldur kónginum?” spurði Jesper undrandi.
Skjóna sagði Jesper frá þeim tíma er hún sjálf og móðir hans voru í Kaupmannahöfn. Einnig sagði hún frá því að móðir hans hafði ekki viljað vera í sviðsljósinu við hirðina á þeim tíma, þess vegna hefðu þær flutt hingað. Hún bað drenginn um að vera viðbúinn því að þurfa jafnvel að flytja til Kaupmannahafnar, ef konungurinn mundi krefjast þess.
Jesper varð afar leiður yfir þessu öllu og honum dauðlangaði til að fara til Ebbu og biðja hana um að hlaupast á brott með sér, en hann vissi hversu mikið hana hlakkaði dansleiksins svo hann hætti að hugsa um þetta.
Þegar kvöldaði bjó gamla kerlingin um drenginn og lét hann fara að sofa.
,,Það er betra að þú sért hér í nótt því að það er styttra yfir að Ríkabæ frá mér” sagði hún og drengurinn samþykkti það. Sú gamla vakti lengi frameftir og hún undi sér við upprifjun á gömlum hefðum og hirðvenjum.
,,Mikið verður þetta gaman” hugsaði hún með sjálfri sér. Það hillti undir morgun þegar hún loks lagðist til hvílu og sofnaði laust.
Stóri dagurinn rann upp og það var fagurt um að litast í Nýríkusveit. Sólin skein bjart, eins og eftir sérpöntun og allt var glaðlegt. Allt hafði verið skreytt og undirbúningurinn stóð sem hæst.
Búbú átti von á fyrstu gestunum strax uppúr hádeginu. Hann vissi að Skjóna hans kæmi á undan hinum og hann hlakkaði mikið til að hitta hana. Sendiboði konungsins hafði komið árla morguns og borið þau tíðindi að Kristján konungur yrði væntanlegur seinni partinn ásamt fríðu föruneyti.
Alla hlakkaði til að sjá konunginn því að þetta var hans fyrsta ferð til landsins, og sennilega sú eina því hann var orðinn ansi gamall. Gamli ráðsmaðurinn gekk út á hlaðið til að athuga enn einu sinni hvort ekki væri allt á sínum stað.
Hann hrökk við þegar hann kom út á hlað og hjartað missti úr slag, hann starði vantrúa á konuna sem sat á bekk út við aðalinnganginn í garðinn.
Heima í Ráðríkusveit var allt á fullu á öllum bæjum. Sólin hafði einnig heilsað nýjum degi hér og allir voru ákaflega spenntir.
Í Snýtukoti Skjóna gamla hafði búið Jesper eftir bestu getu og hún varð undrandi þegar hann var tilbúinn.
,,Alveg vissi ég að það leyndist alger draumaprins undir þeirri þykku skel sem foreldrar þínir höfðu látið vaxa utan um þig” sagði hún við drenginn sem bara hló glaður.
,,Ég held að það hafi aldrei verið nein skel utan um mig, aðeins gömlu fötin mín og hárlubbinn minn” sagði hann og virti sjálfan sig fyrir sér í litla speglinum sem sú gamla hélt uppi fyrir hann. Hann ætlaði varla að trúa því að þetta væri hann sjálfur sem hann sá í speglinum.
Þarna blasti við stórglæsilegur ungur maður sem gæti þess vegna verið hefðarmaður. Þau ræddu aðeins meira saman og síðan sendi sú gamla drenginn af stað að Ríkabæ. Sjálf hafði hún séð um að hún yrði sótt í tíma og ætlaði hún að leggja af stað á undan öðrum. Þannig fengi hún smá stund til að ræða við Búbú gamla áður en allt yrði vitlaust, þau þyrftu að leggja á ráðin með ýmislegt.
,,Einhverjir munu fá á trýnið og ekki skal neinn óverðugur sleppa við refsivönd Skjónu gömlu” tautaði sú gamla og það hlakkaði í henni. Hún stóð á dyrapallinum og horfði á eftir augasteininum sínum sem hún hafði nú loks getað fengið að stússa aðeins við. Enn einu sinni kveið hún áframhaldinu en samt var hún fegin því að nú loks fengi drengurinn að njóta þess hver hann í raun og veru var, og það var ekki neitt til að skammast sín fyrir.
Á Ríkabæ var einnig mikið um að vera.
Heimilisfólkið var í óðaönn við að ljúka undirbúningi og flest var komið út í vagna sem áttu að flytja fólkið yfir að Voldugustöðum í Nýríkusveit. Einráður stórbóndi hafði ekki enn fengið forvitni sinn svalað um hver hinn mikli Jóakim E. S. Per óðalseigandi væri og hann var óánægður með það.
Einráður hafði aðeins skotist yfir í Nýríkusveit fyrr í mánuðinum en þar vissi heldur enginn neitt, eða allavega sagði honum enginn neitt sem hann ekki þegar vissi. Það var að einhver hafði keypt óðalið á sínum tíma og að það hafði það verið í uppbyggingu síðustu þrjú árin. Hann hafði séð að Voldugustaðir voru orðnir það fallegasta setur sem hann hafði augum litið og auðvitað var hann sáröfundsjúkur út í nýja óðalseigandan.
,,Þetta hefðarsetur hefði sómt sér vel í minni ætt og hér hefðu foreldrar mínir líka getað búið með okkur,, tuðaði hann með sjálfum sér á leið út á hlað.
Hann ætlaði að athuga hvort ekki væri allt til reiðu og tilbúið til brottfarar.
Stórbóndinn var svo niðursokkinn í drauma um Voldugustaði að hann tók ekki eftir unga manninum sem stóð við vagninn og beið komu hans.
Jesper hafði komið aðeins áður en þorði ekki að trufla neinn er hann sá hversu allir voru uppteknir við frágang alls. Hann sá hvar herra Einráður kom hugsandi út og gekk í áttina að vagninum sem Jesper hafði stoppað við.
Þegar stórbóndinn kom að vagninum bauð drengurinn hræðslunni byrginn og heilsaði tilvonandi tengdaföður sínum, ef unga fólkið fengi að ráða.
Herra Einráður hrökk uppúr hugsunum sínum og leit á drenginn. Hann starði á Jesper og undrunarsvipurinn var greinilegur, stórbóndinn sjálfur var orðlaus.
,,Góðan daginn” endurtók Jesper og brosti til Einráðs sem flýtti sér að loka munninum. Stórbóndinn á Ríkabæ horfði á þann glæsilegasta svein sem hann hafði í langan tíma séð, ekki síðan við hirð konungs í Kaupmannahöfn.
Hann horfði viðurkenningaraugum á drenginn, heilsaði honum og rétt augnablik gleymdi hann að þetta mundi auðvitað ekki skipta neinu um það að drengurinn var nánast allslaus og hentaði því ekki sem tengdasonur. Þeir litu við þegar þeir heyrðu í heimasætunum sem komu út og heilsuðu.
Stúlkurnar horfðu hrifnar á þá breytingu sem á Jesper hafði orðið. Meira segja Gunna starði heillandi á drenginn sem hún hafði eitt sinn hryggbrotið.
Ebba gekk til hans og tók undir hendina á honum.
,,Þú ert stórglæsilegur! Enginn jafnast á við þig” sagði hún hrifin og kyssti Jesper á kinnina.
Herra Einráður mundi allt í einu eftir hlutverki sínu og ræskti sig. Hann var ekki hrifinn af því sem hann sá og flýtti sér að reka heimasæturnar til að klæða sig upp, þau þyrftu að fara að leggja af stað.
Brátt var allt tilbúið og vagnarnir lögðu af stað. Til stóð að hitta fleiri úr sveitinni á leiðinni og svo mundu vagnar frá borginni bætast við þegar þau nálguðust Nýríkusveit, meðal annars herra og frú Ríkisdal foreldrar Einráðs.
Framhald seinna.