Veðurblíðan virtist ætla að halda velli, sólin heilsaði nýjum degi brosandi og fuglarnir sungu glaðlega út um allt.

Í eldhúsinu hjá Gráðugum á Grobbstöðum réð frú Rudda ríkjum.
Hún var ráðskona herra Gráðugs sveitastjóra og hafði verið það um árabil.
Ruddu fannst ekkert eins gott eins og að ráðskast með starfsfólkið á Grobbstöðum, og henni leyfðist það vegna stöðu sinnar.
Hún bar mikla umhyggju fyrir herra Gráðugum og var alltaf með nefið niðri í öllu.
Það hafði verið hún sem benti herra Gráðugum á að hann gæti náð til sín Snauðustöðum af Jesper án erfiðleika.
Reyndar virtist Rudda vera dálítið ástfangin í húsbónda sínum. Hún vann að því hörðum höndum að allt væri eins og Gráðugur vildi hafa það, en líka eins og hún vildi hafa það.
Hún ætlaði sér að verða húsmóðir á Grobbstöðum seinna meir.

Þó að langt væri liðið á morguninn var herra Gráðugur enn í rúminu og svaf. Frú Rudda vissi nákvæmlega hvenær átti að vekja húsbóndann. Hún hafði lagað dýrðlegan morgunverð og beið aðeins eftir póstinum sem kom yfirleitt um það bil sem húsbóndanum þóknaðist að fá morgunverðinn í rúmið.
Frú Rudda heyrði þegar póstmanninn bar að garði og flýtti sér út á hlað til að geta skammast dálítið í honum.

,,Það var mikið að þér komið með póstinn strákhvolpur“ kallaði Rudda frekjulega til unga póstberans sem hún hafði aldrei séð áður.
,,Dagurinn er næstum liðinn og húsbóndinn hefur beðið eftir póstinum sínum” hélt Rudda áfram í sama frekjutóninum.

Ungi maðurinn, sem var úr borginni, var nýbyrjaður að bera út póstinn í sveitinni og var þetta sumarvinna hjá honum. Hann hafði verið varaður við ráðskonunni á Grobbstöðum og var því tilbúinn þegar Rudda hrópaði frekjulega á hann.
,,Ó, þér hljótið að vera frú Rudda ráðskona hér“ sagði drengurinn og brosti sínu blíðasta til skapstyggu konunnar á hlaðinu.
,,Huh” heyrðist í Ruddu og hún gekk til drengsins sem bar höfuð hátt þar sem hann sat á þeim fallegasta gæðing sem Rudda hafði nokkurn tímann séð.

,,Þér eruð jafnvel enn fegurri en sögur fara af“ hélt drengurinn áfram án þess að gefa Ruddu tækifæri til að byrja aftur.
,,Ég var búinn að heyra að þér væruð bæði fögur og vitur og að þér stýrðuð Grobbstöðum af mikilli prýði” skrökvaði drengurinn.

Honum fannst mikið betra að nota dálítið af hvítri lygi en að rífast ráðskonuna freku.
,,Ég vona að þér getið fyrirgefið mér hversu seint ég kem með póstinn, en ég tafðist vegna þess að ég þurfti að læra leiðina þar sem ég er nýr í þessu starfi“ hélt drengurinn áfram þegar hann sá að honum hafði greinilega tekist að bræða ráðskonuna.

Frú Rudda hafði aldrei áður heyrt annan eins fagurgala. Hún vissi auðvitað að hún var nokkuð hugguleg, þrátt fyrir nokkrar hrukkur, og auðvitað var hún vitur og það fór ekki á milli mála að það var hún sem rak Grobbstaði.
Hún drakk í sig hrósyrðin og naut þess að hlusta.
,,Já það er kannski ekki svo áliðið, og herra Gráðugur er enn í rúminu svo þetta ætti að vera í lagi í þetta skipti” sagði Rudda talsvert blíðlegri en í upphafi og það kom einhver gretta á andlitið á henni, einhvers konar brosgretta.

,,Úff“ hugsaði drengurinn með sér.
,,Ef þetta er góða hliðin hennar, þá langar mig ekki til að sjá vondu hliðina” hugsaði ungi póstberinn með sér og brosti til Ruddu sem byrjuð var að klappa Mosa, en svo hét gæðingur drengsins.
,,Þetta er glæsilegur hestur sem þú ert á“ sagði Rudda þó nokkuð vingjarnlegri en áður.
,,Hvað heitir folinn?” spurði frú Rudda og sendi frá sér nýja brosgrettu.
,,Hann heitir Mosi“ svaraði drengurinn, honum leist ekkert á græðgiblikið í augum frúarinnar.

,,Hvað segir þú? Mosi!” hrópaði Rudda og fórnaði höndum.
,,það var undarlegt nafn á svo fallegum fola“ sagði Rudda aðeins rólegri. Henni fannst það ekki ná nokkurri átt að skýra svona gæðing Mosa.
,,Það hefði verið nær að kalla hann til dæmis Demant eða Glæsir eða eitthvað álíka sem hæfir svona augnayndi” hélt Rudda áfram og glotti lymskuleg á svip.
,,Þú mundir kannski vilja selja hann?“ hélt ráðskonan áfram. Henni fannst þetta einmitt vera gæðingur sem mundi passa vel undir stóran húsbóndann.
,,Glæsilegur maður á glæsilegum hesti” hugsaði Rudda með sér og sá fyrir sér herra Gráðugan á Mosa.
,,Því miður get ég ekki selt gæðinginn þar sem ég á hann ekki sjálfur“ svaraði drengurinn spurningu konunnar.
,,Ég fékk hann að láni frá Voldugustöðum í Nýríkusveit, þetta er einn af gæðingum stórbóndans þar” hélt bréfberinn áfram og hló þegar hann sá smjaðursvipinn sem kom á andlit Ruddu ráðskonu.

,,Hvað segir þú!?“ kallaði Rudda hátt.
,,Voldugustöðum í Nýríkusveit!!!” hrópaði hún enn hærra.
,,Ert þú kannski skyldur óðalseigandanum nýja?“ spurði Rudda talsvert lægra þegar hún áttaði sig á því að hún hafði hrópað svo hátt að allir í sýslunni hljóta að hafa heyrt í henni.
Auðvitað vissi hún allt um hátíðardansleikinn og það að konungurinn yrði viðstaddur, en henni gramdist það að vita ekki neitt um stórbóndann sjálfan.
,,Nei nei, ég er ekkert skyldur stórbóndanum svo ég viti til” sagði drengurinn og brosti að snobbaðri ráðskonunni.
,,Ég er skyldur ráðsmanninum á Voldugustöðum, honum Búbú frænda“ hélt ungi bréfberinn áfram og rótaði í töskunni sinni í leit að pósti herra Gráðugs.

,,Fuss” hreytti Rudda út úr sér.
,,Ráðsmanninum“ sagði ráðskonan í niðrandi tón. Hún áttaði sig greinilega ekki á því að hún var jú sjálf nokkurs konar ráðsmaður á Grobbstöðum vegna þess að enginn fastráðinn ráðsmaður var til staðar.
,,Hérna er pósturinn sem herra Gráðugur á frú Rudda” sagði drengurinn. Hann ákvað að drífa sig af stað áður en frúin færi aftur í fýlu.
,,Það var indælt að tala við yður og ég fullvissa yður um að ég mun bera yður allar nýjustu fréttirnar úr sveitunum í kring næst þegar ég verð á ferðinni“ flýtti ungi póstberinn sér að segja og snéri folanum við.

Frú Rudda tók við stórum bunka af pósti og leit á unga manninn. Það var augljóst að hann kæmi til með að geta sagt henni allt sem gerist í sveitinni. Rudda ákvað í flýti að smjaðra dálítið til að vera örugg með að fá alltaf nýjustu kjaftasögurnar um alla.
,,Heyrðu drengur minn” byrjaði hún og sendi frá sér brosgrettu sem hefði sómað sér mjög vel á skelfilegri persónu í draugasögu.
,,Hvar eru eiginlega mannasiðirnir mínir? Má ekki bjóða þér eitthvað í svanginn áður en þú heldur áfram?“ spurði Rudda um leið og hún flýtti sér inn í eldhús. Þar tíndi hún til ýmislegt góðgæti og fór aftur út til póstberans sem hafði ekki náð að afþakka boðið.
,,Hérna hefur þú dágott nesti og svo ertu velkominn aftur í eldhúsið mitt hvenær sem er” sagði hún hróðug og rétti unga drengnum nestispinkil.

,,Þetta var nú alveg óþarfa fyrirhöfn“ sagði ungi maðurinn vandræðalega. Hann hafði eiginlega ekki ætlað að lenda í skuld við þessa frekjulegu ráðskonu.
Og allra síst ætlaði hann að bera í hana einhverjar kjaftasögur úr sveitinni.
Ungi póstberinn tók við góðgætinu og þakkaði fyrir, því næst lagði hann af stað.
Rudda var sannfærð um að nú fengi hún fyrst allra fréttir um það sem gerðist á hverjum tíma. Ráðskonan glotti lymskulega þegar hún horfði á eftir unga manninum þeysa í burtu.
,,Verst að geta ekki náð þessum glæsilega fola af drengstaulanum” sagði Rudda við sjálfa sig um leið og hún gekk aftur inn.

Frú Rudda flokkaði niður póstinn eins og húsbóndinn vildi hafa hann. Því næst lagði hún af stað með póstinn ásamt morgunverðinum til herra Gráðugs. Hún bankaði létt á svefnherbergisdyrnar hjá húsbónda sínum og gekk inn þegar hún heyrði eitthvað þrusk fyrir innan. Þarna á miðju gólfinu stóð herra Gráðugur fullklæddur og kominn á ról.
Hann var reiðilegur, reiðilegri en venjulega.

,,Stendur eitthvað til í dag?“ spurði Rudda varlega og horfði á húsbóndann sem átti í erfiðleikum með að komast í skóna vegna ístrunnar. Hún var vön því að herra Gráðugur væri enn sofandi þegar hún færði honum morgunverðinn.
,,Nei, það stendur ekkert til” hreytti Gráðugur fúll út úr sér, það var greinilegt að hann var úrillur.
,,Ég vaknaði við einhver hróp og skræki hérna áðan og leit út til að athuga það og sá þig tala við póstaulann“ hélt spikfeitur sveitastjórinn áfram og leit reiðilega á ráðskonuna sína.

Hann var nú svo sem ekkert sérstaklega reiður við ráðskonuna, honum þótti bara svo gott að hafa alla undirgefna og hálfhrædda við sig.
,,Ég gat ekki heyrt betur en að þú værir að væla eitthvað um Voldugustaði í Nýríkusveit” hélt Gráðugur áfram og skapið batnaði aðeins við tilhugsunina um að verða boðinn í veisluhald þar.
Hann vissi auðvitað um hátíðina og háttsettu gestina sem þar myndu verða. Hann var líka alveg öruggur um að sér yrði boðið.
,,Var eitthvað spennandi með póstinum í dag“ sagði Gráðugur og lét sem hann væri ekkert spenntur, auðvitað var hann búinn að bíða eftir boðskorti í hátíðarveisluna alveg frá því að hann hafði heyrt af öllu tilstandinu.
Honum datt það auðvitað aldrei í hug að honum yrði ekki boðið.
,,Sjálfum sveitastjóranum í Ráðríkusveit, háttsettari verða menn varla” hugsaði Gráðugur sveitastjóri um leið og hann tók við póstinum sínum.
Hann flétti í gegnum bréfin á meðan frú Rudda lagðist á hnén til að klára að klæða húsbóndann í skóna. Allt í einu hrökk Rudda við og stökk á fætur. Ógurlegt hróp bergmálaði í svefnherberginu.

,,JÁ, JÁ, JÁÁ!“ hrópaði Gráðugur eins og sjö ára gutti og hann svitnaði af áreynslunni.
,,Ég vissi að mér yrði boðið í veisluna” hrópaði hann og greip utan um Ruddu ráðskonu sem sökk í stóra ístru húsbóndans.
,,Hjálp“ æpti ráðskonan skelkuð og var mjög brugðið. Hún ýtti við húsbóndanum.
,,Ætlar þú að láta mig drukkna í spikinu á þér” æpti Rudda reiðilega á Gráðugan húsbónda sinn og ýtti harkalega á hann.

Hún ýtti helst til of fast á þungan sveitastjórann.
Herra Gráðugur hrökk undrandi undan reiðri ráðskonunni.
,,Hvaða æsingur er þetta eiginlega?“ hrópaði Gráðugur reiðilega um leið og hann hrökklaðist aftur á bak. En um leið og hann hafði bakkað örlítið varð eitthvað fyrir honum. Herra Gráðugur féll með miklum tilþrifum og látum beint á rúmið sem hafði verið beint fyrir aftan hann. Það skipti engum togum að rúmið mölbrotnaði með miklum hávaða og stórskorinn sveitastjórinn lá kindarlegur í miðri ruslahrúgunni.

Frú Rudda horfði dauðskelkuð á sjálfan húsbóndann á Grobbstöðum lenda með látum á rúminu sem brotnaði, síðan lá hann grafkyrr í öllu brakinu. Hún æddi að honum og henti sér niður á hnén við hlið hans.
,,Ertu í lagi elsku Gráðugur minn?” hrópaði hún og rogaðist við að reyna að lyfta risastórum manninum á fætur.
,,Svaraðu mér elskan mín!“ kallaði ráðskonan upphátt og leit skelkuð á húsbónda sinn sem allt í einu byrjaði að skellihlæja.
,,Hvað er að tarna!” hló feiti karlinn í rúmbrakinu.
,,Þú ert þó ekki að játa mér ást þína“ hló Gráðugur frekjulega um leið og hann reisti sig upp.

Herra Gráðugur var svo montinn af því að hafa loksins fengið boðskortið á hátíðardansleikinn, sem hann vissi auðvitað alltaf að hann fengi, að hann gat ekki reiðst þessari uppákomu. Þar að auki fannst honum ráðskonan bara sæmilega vel útlítandi svo að hann var alveg til í að bjóða henni aðeins hærri stöðu á Grobbstöðum.
,,Þú vilt kannski að við ruglum saman reitunum okkar fiskibollan mín” sagði Gráðugur sjálfsánægður og hélt áfram að hlæja.

Rudda ráðskona horfði undrandi á alveg nýja hlið á húsbónda sínum. Aldrei fyrr hafði hann gantast svona og gert að gamni sínu á þennan hátt, hún sótroðnaði og flýtti sér að standa á fætur.
,,Þú ættir ekki að vera með þennan fíflagang við mig“ sagði hún til að fela uppnám sitt.
,,Hvaða læti voru þetta eiginlega líka að öskra svona og hræða næstum úr manni líftóruna?” hélt Rudda áfram því hún hafði ekki tekið eftir boðskortinu í póstinum.

Herra Gráðugur brölti á fætur með talsverðum erfiðleikum og hann blés eins og hvalur þegar honum loksins tókst að standa upp.
,,Litla stranga og ruddalega Rudda mín“ hló Gráðugur og setti stút á munninn. Hann þóttist ekkert taka eftir hneykslissvip ráðskonu sinnar.
,,Ég var ekki að fíflast neitt með þig” sagði sveitastjórinn og teygði fram sveittar hendurnar og ætlaði að grípa í ráðskonuna.
,,Hvað hefur eiginlega komið yfir þig?“ spurði stórhneyksluð ráðskonan um leið og hún hopaði undan höndum Gráðugs. Hún hafði þó gaman af því að Gráðugur skildi nú loksins reyna eitthvað við hana.
,,Ég held að við ættum bara að láta pússa okkur saman” sagði húsbóndinn hryssingslega og náði loksins taki á myndarlegri en allt of horaðri ráðskonunni.
,,Ég fékk boðskort á hátíðardansleikinn á Voldugustöðum í Nýríkusveit og við skulum fara þangað saman sem hjón“ hvíslaði Gráðugur hrannalega í eyra Ruddu.

Ráðskonan greip andann á lofti og hrópaði upp yfir sig.
,,Ert þú að biðja mín Gráðugur?” spurði Rudda og þorði varla að draga andann.
,,Allir draumar mínir ætla þá að rætast“ hugsaði ráðskonan með sér og það kom græðgiblik í augun á henni.
,,Auðvitað er ég að biðja þín, bollan mín” hló sveitastjórinn og sló ruddalega í bossann á Ruddu.
,,Við pössum svo vel saman, bæði gráðug og ruddaleg“ hélt Gráðugur hlægjandi áfram þegar hann sá að ráðskonunni virtist líka vel þessi uppástunga.
,,Við eigum eftir að verða þau allra ríkustu og flottustu á landinu” hélt Gráðugur áfram og belgdi sig allan.

Ruddu fannst þetta glæsilegt.
,,Já og svo á jörðin undir Grobbstöðum eftir að verða sú allra stærsta þegar við erum búin að ná landareigninni undir Snauðustöðum frá sveitalúðanum" bætti Rudda við ill áform tilvonandi eiginmanns síns.
Gráðugur og Rudda héldu áfram að ræða skammarlega útsmogin ráðabrugg sín og gleymdu sér alveg.

Framhald: