DAUTT SVÍN
Stundum velti ég því fyrir mér hvort að ég hafi nokkurn tíma þekkt þig eða þú mig? Þennan grimma, vonda og miskunnarlausa úlf þekki ég ekki.
Hvar er riddarinn sem eitt sinn rétti mér hendina og bauð út að ganga í hellirigningu? Manstu, og ég talaði og talaði á meðan þú starðir út um gluggann og beiðst.
Einusinni las ég að myrkrið væri alltaf mest rétt fyrir dögun, hvenær er okkar dögun? Myrkrið er meira en nokkru sinni fyrr núna og það tjaldar í hjartanu og grillar pulsur á meðan það bíður, kannski er það þess vegna sem mig verkjar svona mikið.
Hvaða litur af M&M værir þú eiginlega? Það fyrsta sem mér dettur í hug er rauður en það passar bara stundum, þú skiptir svo oft um lit (inn í þér). Grænn fyrir rósemi, gulur fyrir hræðslu, rauður fyrir kærleik og brúnn fyrir óstöðugleika.
Allar minningar um þig raðast fyrir framan augun á mér og ég man allt, öll svipbrigði, orðin og hve góð lyktin var af þér. Klisjukennda litla ég.
Það er svo margt sem ég á eftir að segja þér, ef þú vildir bara meðtaka! Fíflið ég að læra aldrei.
Nýjasta minningin sú allra versta. Ég sem var vopnuð öllu því allra besta, stríðsmálningu, shockup, pushup og skyrtunni sem þú elskar - með hreinskilni í veskinu og tíu putta til að telja upp allar ástæðurnar fyrir því að þú eigir að vera góður. Orðin þín stungu á mig gat og ég var eins og gamalt sigti sem lak orðum. Móðan settist á gluggana og Grafarvogurinn var svo friðsæll, skip í fjarska og Gullinbrú iðandi - löggubílar með blikkandi ljós og skýin eins og þeyttur rjómi. Sólin rauðbleik eins og hún skammaðist sín fyrir að ég væri þarna komin með sálina að veði.
Herramennskan er útdauð. Eða nei… ég sá þig halda hurðinni fyrir henni í gær og þú labbaðir áfram í þínum gulu strigaskóm, hugsandi um það af hverju stelpur hefðu áhuga á að versla og hitta mömmur og pabba. Þér er bara slétt sama því þú ert spakur. Hvað sem það nú þýðir þú tilfinningasljóa karlvera frá Mars.
Og litli ráðgjafinn sem situr á öxlinni minni hvíslar að mér að ósigur er það sama og sigur á Venus (þaðan sem ég kem) og að sá sem er vondur líði oftast verr en sá sem verður fyrir barðinu á honum.
Við tekur biðin, vonin magnast að þér snúist hugur og að við getum í vináttu ristað okkur brauð.
:Þ