Svona. Rólega nú. Bara eitt skref í einu. Opna bílhurðina. Sest inn. Svona, þetta var nú ekki svo erfitt. Anda léttar og horfi í kringum mig. Gírstöng og stýri. Spenni svo beltið. Tek um stýrið.
Ég skelf. Hendurnar titra og nötra. Af hverju er ég svona? Ég loka augunum og reyni að ná tökum á andardrættinum. Opna þau aftur og anda frá mér. Ég finn að nokkrar ískaldar svitaperlur renna niður af enni. Ég tek af mér gleraugun og þurrka þau.
Stíg aftur út. Ég bara get þetta ekki. Ég horfi yfir götuna. Þarna stendur Páll, nágranni minn, og horfir á mig, eins og það sé eitthvað að mér. Ég brosi til hans. Hann heilsar mér og gengur síðan inn. Djöfulsins fíflið, alveg er ég viss um að fer að kjafta við kellinguna um mig. Heldur alltaf að hann sé svo æðislegur, á sínum fjögurra milljón króna jeppa og tjaldvagn. O, það var svo æðislegt í Skaftafelli…bla,bla,bla….veistu hvað Páll, kellingin þín er svo ljót að mig langar til að gubba þegar ég mæti henni út í búð. Helvítis hálfviti, alveg er ég viss um að hann standi út í glugga og glápi á mig. Hann hefur alltaf litið svo niður á mig.
Ég opna hurðina. Sest inn. Loka hurðinni. Finn hvernig andardrátturinn verður örari og örari. Svitna. Loka augunum. Reyni að sjá fyrir mér engi. Vítt og grænt, sólin skin og kannski er þarna á. Já, þarna er á, sem rennur hægt til sjávar. Svo kemur bill og keyrir á mig. Ég opna augun.
Helvítis, djöfulsins andskoti. Dauði og djöfull, ég hata að keyra. Hvaða hálfvita datt í hug að finna upp bíla? Og hver ber ábyrgð á því að láta mann mæta í vinnuna klukkan níu á sunnudagsmorgni þegar strætó er ekki farinn að ganga? Jú, Hannes, heimurinn hægir ekkert á sér þó svo að strætó sé ekki farinn að ganga. Alveg get ég séð fyrir mér andlitið á henni Sigríði, með fölbleika varalitinn og svona ógeðslega glansandi í framan, eflaust vegna þess að hún borðar franskar kartölur með öllum mat. Djöfull hata ég helvítis tíkina.
Helvítis, djöfulsins andskoti. Ég lem í stýrið og ræsi drusluna. Ég er búinn að koma mér í svo vont skap að öll skelfingin sem fyrir augnabliki slökkti á heilastarfsemi minni er horfin. Bíllinn rennur af stæðinu og niður götuna.
Sko, þetta er ekkert mál. En tíkin skal sko fá að heyra það þegar ég kem í vinnuna. Djöfull skal hún fá að heyra það.”Heimurinn hægir ekkert á sér…”, hverjum er ekki skítsama um heiminn? Ekki sýnist mér að neinn sé að skipta sér að því hvað Heiminum finnst. Ekki veit ég til þess að nokkur spurði Heiminn þegar þeir sprengdu Atómsprengjuna í Kawasaki, Nawasaki eða hvað nú þessar japönsku pappírsborgir heita.
Kem að Bústaðaveginum. Lít til beggja hliða, enginn bíll. Legg af stað. Allt í einu kemur bíll. Nauðhemla svo að dekkin væla undan álaginu. Kemur ekki einhver svartur BMW á 190 kílómetra hraða. Ábyggilega einhver dópsali á leið til dópistanna sinna. Þessir dópsalar, drepa allt þetta lið, halda að þeir geti bara átt göturnar á sínum BMW með skyggðar rúður og einhverja eyrnakremjandi trommutónlist, sem er svo hátt stillt að heilinn, það litla sem er eftir af honum, lekur út um eyrun.
Finn andardráttin verða örari. Nei, ekki núna, ekki fyrst að ég er kominn af stað. Ég einbeiti mér að því að ná tökum á sjálfum mér. Lít aftur til beggja hliða, enginn bíll. Lít aftur, til að vera viss. Legg af stað. Anda léttar, þetta tókst.
Sem betur fer eru ekki margir á ferli, enda snemma á sunnudegi. Hver nennir svo sem að vakna? Sunnudag eftir sunnudag eru kirkjur landsins tómar, það nennir enginn að vakna. Ég hrekk upp úr þessum hugsunum þegar það er flautað á mig. Bíllinn fyrir aftan mig orðinn eitthvað pirraður á mér. Það er grænt ljós fyrir framan mig. Hann flautar aftur. Í flýtinum drep ég á bílnum. Djöfulsins, andskotans helvíti, ég hata að keyra. Flaut. Slappaðu af, þarna stressaða fífl, ég er að reyna að flýta mér.
Loksins fer bíldruslan í gang. Ég stíg á bensínið og legg af stað yfir gatnamótin. Allt í einu heyri ég bíl nelga niður og lít til hægri. Sé dauða minn í formi vörubíls koma nær og nær, en sem betur fer ekki alla leið. Ég öskra. Öskra aftur. Ég hata að keyra. Djöfulsins asninn þarna fyrir aftan mig, þetta er allt honum að kenna. Hann gerði mig svo stressaðan að ég tók ekki eftir að það var komið rautt aftur.
Ég læt bílinn renna út af gatnamótunum. Keyri inn á bílastæði og drep á bílnum. Fer út og sparka í hann. Djöfull skal ég aldrei keyra þig aftur, helvítis drusla. Þú ferð beint á bílakirkjugarð og ef að ég fæ einhverju ráðið þá mun ég brenna þig líka.
Ég lít í kringum mig. Sem betur fer er ekki langt í vinnuna. Ég geng restina af leiðinni. Veðrið er ekki svo slæmt, reyndar rigning. Ég verð þá bara blautur, þó svo að það sé gjörsamlega óþolandi þá er það skárra en að keyra. Helvítis fíflið, djöfull ætti ég að kæra hann.
Eftir svona fimm mínútna göngutúr kemst ég loks í vinnuna. Opna hurðina og geng inn. Fer úr skónum og geng inn á kaffistofu. Stendur ekki hin yndislega Sigríður þar, með fölbleika varalitinn og sína glansandi húð. Það er meira að segja varalitur á tönnunum á henni.
-Góðan daginn, Sigríður mín.
-Nei, sæll, séra Hannes.
-Hvað segirðu þá?
-Bara allt hið besta. Er allt klárt fyrir þjónustuna?
-Allt klárt.
-Fínt.
Djöfull langar mig til að benda henni á varalitinn á tönnunum á henni en ákveð frekar að gera það eftir guðsþjónustuna, svo að ég geti séð hana roðna og skammast sín. Þá er bara að líta yfir stólræðuna.