Heima að Ríkabæ voru allir löngu komnir á fætur og á stjá.
Veðrið hafði breyst til muna og virtist sólin ætla að ná í gegnum skýin.
Ákveðið var að fara í smá lautarferð með gestina úr borginni og taka með nesti.
Herra Einráður bað ráðskonu sína um að útbúa stóra körfu fulla af gómsætum kræsingum.
Síðan fór hann sjálfur niður í kjallarann og náði í úrvals ávaxtasafa sem hann hafði sjálfur búið til.
Þegar hann kom aftur upp mætti hann móður sinni sem var að koma inn.
,,Ég náði í dálítið af safanum mínum, þeim sem þú kenndir mér að brugga mamma“ sagði hann og brosti til hennar. Frú Ríkey leit á son sinn og brosti til baka, henni þótti vænt um að hann skildi notast við uppskrift hennar.
,,Já hann er einmitt svo góður” sagði hún og hlakkaði til að fara í lautarferðina.
Þau gengu saman inn í eldhúsið þar sem Gunna var ásamt afa sínum.
,,Hvar í ósköpunum er hún Ebba?“ spurði Einráður og leit á Gunnu.
,,Ekki spyrja mig um það” svaraði Gunna og horfði beint á ömmu sína sem glotti.
Auðvitað vissu þær báðar hvar hún var, en Ebba hafði beðið um að faðir hennar fengi ekki að heyra það að hún hafði farið til Jespers.
,,Hún var þarna úti á hlaði rétt í þessu með ljósrauðu hryssuna, hún fór með hryssuna inn í hesthús“ sagði herra Féráður við son sinn. Hann hafði séð Ebbu út um gluggann koma ríðandi á fleygiferð yfir hlaðið og snarast inn í hesthúsið.
Stuttu síðar birtist Ebba í eldhúsdyrunum.
,,Hvar í ósköpunum varst þú?” spurði faðir hennar. Ebba leit á ömmu sína sem bara brosti, blikkaði auganu og hristi höfuðið.
,,Ég var úti að viðra Lady“ svaraði hún föður sínum og bauð svo öllum góðan daginn.
,,Stendur eitthvað til, er verið að fara eitthvað?” spurði Ebba þegar hún sá nestiskörfuna og ýmsan annan útilegubúnað á gólfinu.
,,Við erum öll að fara í dálitla lautarferð og ef veðrið verður skaplegt munum við snæða síðdegisverð í ferðinni“ sagði stórbóndinn. Frú Ríkey leit á Ebbu og gekk til hennar.
,,Hvernig gekk” hvíslaði sú eldri að þeirri yngri.
Ebba brosti eins og raunverulega ástfangin ung kona.
Hún tók undir handlegg ömmu sinnar.
,,Komdu aðeins og talaðu við mig“ sagði Ebba við ömmu sína og dró hana með sér út úr eldhúsinu og inn í viðhafnarstofu föður síns. Þegar þangað var komið lokaði Ebba dyrunum á eftir þeim.
,,Ó amma, hann var næstum því farinn til borgarinnar, og það án þess að tala við mig” sagði Ebba og varð dálítið æst á svipinn.
Síðan sagði Ebba ömmu sinni hvað hafði gerst. Hún sagði líka ömmu sinni frá því að þau ætluðu að giftast og að enginn skildi stoppa þau af. Ebba trúði ömmu sinni fyrir öllu sem hafði gerst og síðan leit hún á ömmu sína og beið eftir viðbrögðum hennar.
Frú Ríkey brosti og faðmaði sonardóttur sína.
Henni fannst lautarferðin einmitt rétta tækifærið til að geta athugað þennan Jesper án þess að mikið bæri á.
,,Hvers vegna ferðu bara ekki aftur til hans og býður honum að koma með í lautarferðina?“ spurði sú eldri og brosti að kjánalegum svipnum sem kom á Ebbu.
,,Á ég að bjóða honum með í nestisferðina, með pabba?” spurði Ebba og hló við tilhugsunina um þá tvo saman.
,,Ég veit ekki betur en að hann faðir þinn skuldi þessum dreng afsökun, svo því skildi hann ekki fá að koma með“ sagði frú Ríkey.
,,Þetta væri kjörið tækifæri fyrir okkur afa þinn til að fá að kynnast þessum dreng, sérstaklega ef hann á nú eftir að verða eiginmaður þinn” hélt amma hennar Ebbu áfram.
Ebbu fannst þetta stórkostleg hugmynd, en það var bara eitt smá vandamál, stórbóndinn sjálfur.
,,Hvað með pabba? Hann vill helst ekki sjá Jesper hvað þá hafa hann nálægt sér“ sagði Ebba við ömmu sína. Frú Ríkey brosti bara og leiddi ungu stúlkuna að dyrunum.
,,Láttu mig um hann föður þinn, ef hann verður erfiður tek ég hann í gegn” sagði hún og þær gengu fram skellihlæjandi.
Úr varð að herra Einráður, stórbóndinn sjálfur, varð að beygja sig undir vilja móður sinnar og sætta sig við að sveitalúðinn kæmi með í lautarferðina.
Allt var gert klárt og spennt fyrir stóran lokaðan vagn.
Ebba lét hnakk á Lady og fór ríðandi af stað til Jespers með sprækan og viljugan fola í taumi.
Frú Ríkey hafði heimtað að drengnum yrði lánaður hestur svo þau yrðu fljótari í förum. Ebba og Jesper áttu svo að hitta þau í litlum dal sem herra Einráður hafði keypt sem beitiland fyrir búféð sitt.
Ebba þaut eins hratt yfir og hún gat til Snauðustaða.
Á Snauðustöðum hafði Jesper dundað við að hreinsa og gera fínt. Hann hafði líka verið duglegur við að laga bæinn sjálfan og fyllt upp með leir og torfi í allar þær rifur sem verið höfðu á húsinu. Hann stóð uppi á þakinu og hafði einmitt nýlokið við að setja plötur í þakið. Hann var að festa þær með leir þegar hann sá hvar Ebba kom á fleygiferð yfir hæðina.
Hann veifaði henni og ætlaði að fara niður af þakinu en steig beint á þunna plötuna sem hann hafði nýsett í.
Platan var greinilega ekki undir það búin að taka við þunga Jespers og brotnaði. Jesper greyið hvarf niður í gegnum þakið.
Ebba sá Jesper veifa og hún veifaði á móti.
,,Ó hvað það er gaman að sjá hann aftur svona fljótt“ sagði hún við sjálfa sig. Þegar hún kom nær sá hún allt í einu að Jesper hvarf eins og dögg fyrir sólu, hann virtist fara í gegnum þakið. Hún flýtti sér að bænum og þegar hún kom að útidyrunum kom Viður gamli vælandi á miklum spretti út úr húsinu.
Hún hljóp inn og sá þá hvar Jesper lá á því sem áður hafði verið rúmið hans. Hann hafði lent beint á rúminu með miklum látum og hafði Viður gamli, sem lá í rúminu, rétt náð að forða sér.
,,Almáttugur minn, ertu meiddur Jesper minn?” spurði Ebba og hjálpaði honum á fætur.
Jesper stóð upp og burstaði af sér allt draslið sem hrunið hafði með úr þakinu. Því næst leit hann brosandi á heitmey sína.
,,Nei nei, ég held að ég sé óbrotinn en aumingja rúmið mitt fékk verri útreið en ég“ sagði hann glaður yfir því að sjá Ebbu.
,,Þakið mitt er greinilega ekki til þess ætlað að einhver sé á ferli á því” sagði hann svo og þau hlógu bæði.
,,En hvers vegna kemur þú strax aftur Ebba mín? spurði Jesper svo.
,,Ég hélt að afi þinn og amma væru í heimsókn og að þú ætlaðir ekki að koma hingað aftur fyrr en þau væru farin til borgarinnar aftur“ hélt Jesper áfram.
Þau gengu aftur út fyrir og settust á dyrapallinn.
,,Ég kom bara til þess að ná í þig” sagði Ebba.
,,Við eru öll að fara í lautarferð með nesti og allt og ég vil að þú komir með okkur“ hélt Ebba áfram og hún brosti hamingjusöm þegar hún sá að ástvinur hennar ljómaði enn einu sinni eins og sól.
,,Á ég að koma með ykkur í nestisferð?” spurði Jesper og hélt að sig væri að dreyma. Hann kleip sjálfan sig.
,,Æ!“ sagði hann og hló.
Ebba horfði á hann.
,,Hvers vegna varst þú að klípa sjálfan þig?” spurði hún hissa. Jesper sagði Ebbu að hann hefði haldið að sig væri að dreyma og þau skelltu uppúr.
,,Nú skulum við flýta okkur, ég kom með þennan gæðing til að lána þér svo við verðum fljótari“ sagði Ebba og þau lögðu af stað í lautarferðina.
Á sama tíma, í næstu sýslu var mikið um að vera.
Á Voldugustöðum í Nýríkusveit var mikill ys og virtist allt vera á hreyfingu. Mikill fjöldi fólks vann af kappi við að gera allt sem flottast. Verið var að endurreisa allt herrasetrið og endurnýja allan húsbúnað.
Ráðsmaðurinn, hann Búbú gamli, hafði verið á Voldugustöðum síðustu daga og séð um allt. Nú stóð hann á hlaðinu og horfði á vinnumenn leggja nýjar hellur á heimreiðina.
Búbú gamli leit upp og brosti vingjarnlega til ungrar vinnustúlku sem kom með safa í glösum og eitthvað meðlæti á bakka handa vinnumönnum.
,,Þakka þér fyrir gæskan” sagði Búbú og tók við góðgætinu.
Hann hlakkaði til að fá nýja óðalseigandann til Voldugustaða. En kannski var það eitthvað annað sem hann hlakkaði meira til. Jú Búbú gamli hafði fengið að vita að hún Skjóna, gamla vinkonan hans, mundi koma líka og það hafði verið hún sem gekk frá sölu óðalsins.
Gamli ráðsmaðurinn hafði lengi verið ástfanginn af þeirri góðu konu og var ákveðinn í að biðja hennar þegar hún kæmi.
,,Að vísu hefur hún aldrei sýnt mér annað en vinskap“ hugsaði gamli maðurinn og rétti vinnumönnunum matarbakkann.
,,En ég er viss um að ég geti unnið hjarta hennar” sagði Búbú við sjálfan sig.
Hann settist niður með mönnunum og fékk sér bita með þeim.
,,Ég er búinn að fá loforð um að ég geti búið ævilangt í ráðsmannsbústaðnum hérna og ætla að bjóða henni Skjónu minni að búa hjá mér“ hugsaði sá gamli og hlakkaði mikið til að hitta aftur sína heitt elskuðu. Það hafði allt verið nokkuð rólegt að Voldugustöðum þar til fyrir nokkrum dögum að það fréttist að hann sjálfur mundi koma og vera viðstaddur þegar nýi eigandinn tæki við setrinu.
Búbú gamli hafði fengið boð um að setja allt á fullt við endurnýjun staðarins. Búbú var svo sem ekki hissa á því að hann sjálfur mundi koma, það hafði jú verið hann sem sendi Búbú af stað til að byrja með til að opna Voldugustaði og undirbúa komu nýja stórbóndans. Þegar mennirnir höfðu gætt sér á góðgætinu hélt vinnan áfram og Búbú vann með þeim. Gamli maðurinn lét þó hugann reika aftur til æskuáranna þar sem hin fagra Skjóna var í aðalhlutverki.
Hann hafði orðið yfir sig hissa þegar hún allt í einu hvarf frá Kaupmannahöfn, í blóma lífsins og svona líka falleg.
Enginn virtist vita hvert Skjóna hafði farið, það var eins og að jörðin hefði hreinlega gleypt hana.
Búbú hafði verið það ástfanginn af Skjónu að hann hafði ekki getað hugsað sér að giftast neinni annarri konu og því hafði hann fegins hendi tekið því að fara til þessa snauða lands til að undirbúa Voldugustaði. Hann hafði orðið himinlifandi þegar hann frétti nú að Skjóna hans væri líka á þessu landi. En hann hafði fengið þau ströngu fyrirmæli að leita hennar ekki því hún mundi fá að vita af honum. Þau myndu svo geta hist og endurnýjað kunningsskapinn þegar Jóakim E. S. Per, stórbóndi væri búinn að taka við setri sínu, Voldugustöðum.
Gamli ráðsmaðurinn velti fyrir sér hver þessi óðalsbóndi væri, hann kannaðist auðvitað við nafnið því að E. S. Per ættin var jú sú næstvoldugasta í Kaupmannahöfn, en þennan mann, Jóakim, hafði enginn séð eftir því sem Búbú best vissi.
Skýjabakkarnir höfðu hörfað undan sólinni í Ráðríkusveit og litli dalurinn sem herra Einráður hafði keypt undir búféð var baðaður sólskini. Herra Einráður hafði ásamt foreldrum sínum og Gunnu dóttur sinni reist stórt tjald í dalnum miðjum. Þau höfðu líka tekið með stóla og útileguborð, sem nú var hlaðið stórkostlegum kræsingum.
,,Það mætti halda að heilt herlið ætti að fara að borða hérna, svo mikið er af mat” sagði frú Ríkey hlæjandi og ýtti við syni sínum. Herra Einráður brosti.
,,Já það er svo sem rétt“ sagði hann.
,,Þetta er kannski dálítið mikið en enginn þarf þá að svelta” hélt hann áfram og þau skellihlógu öll.
Allt í einu heyrðu þau hófaskelli og þau litu inn dalinn. Þarna komu þá Ebba og Jesper á hraða spretti, Ebba á Lady en Jesper á Skugga, viljugasta folanum í hrossastóði stórbóndans á Ríkabæ.
,,Hæ allir“ hrópaði Ebba um leið og þau tvö stoppuðu hjá tjaldinu.
,,Halló krakkar” kallaði frú Ríkey Smart á móti og veifaði til þeirra.
Gamla konan fylgdist með unga fólkinu fara af hestbaki og sá að þau brostu hvort til annars. Hún leit á Jesper og sá strax að þetta var ljómandi huggulegur drengur, fyrir utan hárlubbann og undarlegan fatnaðinn.
,,Það má alltaf laga svoleiðis smáatriði“ hugsaði gamla konan með sér. Hún tók allt í einu eftir því að drengurinn horfði flóttalega á son hennar, stórbóndann sjálfan.
Það var greinilegt að Jesper mundi vel eftir flugferðinni út á hlaðið heima að Ríkabæ í bónorðsferðinni til Gunnu.
Ríkey ákvað að hjálpa drengnum til að byrja með og sjá hvað úr yrði.
,,Þú hlýtur að vera ungi maðurinn sem hefur heillað báðar sonardætur mínar upp úr skónum” sagði hún við Jesper og gekk til móts við hann.
,,Ha, hvað segir þú?“ spurði Jesper undrandi.
,,Fóru þær báðar úr skónum?” spurði Jesper aftur og varð dálítið skrýtinn á svipinn.
Ebba sem hafði komið á eftir unnusta sínum greip undir handlegginn á Jesper og hló.
,,Nei, nei Jesper minn“ sagði hún og leit brosandi á ömmu sína.
,,Hún amma á bara við að ég og Gunna urðum báðar alveg bálskotnar í þér” sagði Ebba svo og blikkaði ömmu sína sem brosti til þeirra.
Gunna hafði líka fylgst með og hún skellti uppúr.
,,Það er alveg víst að það má alltaf reikna með að Jesper komi með góða brandara af og til“ sagði hún.
,,Fóru þær úr skónum” sagði Gunna og síðan hló hún aftur.
Ebba leit reiðilega á systur sína og sussaði á hana. Því næst kynnti Ebba eiginmannsefni sitt fyrir ömmu sinni og afa.
Jesper gladdist yfir því hve gömlu hjónin tóku honum vel og honum leið strax mikið betur. Frú Ríkey fór og náði í son sinn, herra Einráð.
,,Nú kemur þú og heilsar drengnum og bætir fyrir þessa flugferð út á hlað sem hann fékk víst ókeypis frá þér“ kvíslaði hún að syni sínum.
,,Æi mamma. Verð ég að gera það” kvíslaði Einráður á móti og gretti sig. Móðir hans gretti sig á móti og tók í höndina á honum og teymdi hann til Jespers sem allt í einu tók eftir þeim á leiðinni til sín.
Hann horfði hræðslulega á stórbóndann nálgast og var að hugsa um að snúa sér við og hlaupa í burtu þegar hann sá ljúft og blítt augnráð gömlu konunnar við hlið þessa stóra manns.
Jesper stóð og tvísteig vandræðanlega þegar herra Einráður gekk til hans.
,,Komdu sæll strákur“ sagði Einráður og rétti út höndina til Jespers. Jesper tók hikandi í útrétta hendi stórbóndans.
,,Góðan daginn, herra Einráður” sagði drengurinn og horfði upp til tilvonandi tengdaföður síns, ef allt færi samkvæmt áætlun.
,,Ég vona að þú fyrirgefir mér lætin þarna um daginn.
Ég var í slæmu skapi og lét það kannski bitna á þér“ sagði Einráður og leit afsakandi á Jesper.
,,Já það er allt í lagi, ég nauðlenti óbrotinn” sagði Jesper og allir hlógu.
,,Drengurinn hefur þá góða kímnigáfu“ hugsaði frú Ríkey með sér og hló. Hún gekk til unga fólksins og tók undir handlegg sonardóttur sinnar.
,,Komið og fáið ykkur smá góðgæti áður en ráður litli klárar allt” sagði hún og leit glottandi til sonar síns sem gretti sig á móti móður sinni.
,,Eiga fleiri eftir að koma?“ spurði Jesper sem vissi auðvitað ekki að Ráður litli var sjálfur stórbóndinn á Ríkabæ.
,,Nei það koma ekki fleiri en við sem erum þegar komin” sagði Ríkey og brosti til drengsins.
,,Hver er þá ráður litli sem ætlar að klára allt?“ spurði Jesper aftur.
,,Það er jú bara hann pabbi, amma kallar pabba ráð litla” sagði Ebba sem enn hélt í Jesper.
,,En pabbi þinn er ekki lítill og ætti því ekki að vera uppnefndur þannig“ sagði Jesper alvarlegur.
Herra Einráður sem hafði heyrt allt dauðskammaðist sín. Þessi saklausi drengur sem hann hafði verið svo vondur við var að hafa áhyggjur af stórbóndanum sjálfum.
Einráður ákvað að reyna vera dálítið notalegri við Jesper.
,,Þetta er gælunafn en ekki uppnefni” sagði hann og brosti til drengsins.
,,Mamma kallar mig þessu gælunafni og mér finnst það bara nokkuð gott“ sagði Einráður og tók í axlirnar á Jesper.
,,Komdu nú og fáðu þér að borða með okkur” sagði hann og dró þau öll að veisluborðinu við tjaldið.
Þau settust öll niður og fengu sér að borða. Fullorðna fólkið talaði saman um dularfulla heimildarmanninn í Ráðríkusveit sem blaðamaðurinn hafði skrifað um. Ebba sagði Jesper meira frá dansleiknum og því að HANN sjálfur kæmi til að vera á hátíðinni. Jesper vissi ekkert um það hver þessi HANN var en þorði ekki að spyrja.
,,Ég spyr hana Ebbu seinna“ hugsaði Jesper með sér.
Gunna var aftur á móti ekkert of hrifin af því að horfa á litlu systur sína spjalla svona mikið við sveitalúðan.
,,Það gengur ekki upp að hún verði of hrifin af þessum ruglukolli” sagði Gunna við sjálfa sig. Hún stóð upp og bað Ebbu um að tala einslega við sig og þær fóru inn í tjaldið. Frú Ríkey horfði á eftir þeim, hana grunaði hvað Gunna ætlaði að tala um við yngri systur sína. Gamla frúin leit síðan á unga drenginn, sem henni leist bara nokkuð vel á, þá sá hún allt í einu merkið sem hékk í barmi drengsins. Þetta var merkið sem Skjóna gamla hafði gefið Jesper.
,,Nei en fallegt merki“ sagði hún og benti á merkið.
Jesper varð mjög ánægður en líka dálítið hissa yfir hrifningu fínu frúarinnar vegna þess að merkið var svolítið rispað.
,,Hún Skjóna gaf mér það” sagði Jesper glaður í bragði.
,,Ef þú vilt þá máttu alveg skoða það betur“ hélt hann áfram og tók niður merkið og rétti Ríkey það.
Frú Ríkey Smart Ríkisdal þekkti merkið um leið og hún tók við því. Hún horfði undrandi af merkinu og á Jesper og leit síðan á eiginmann sinn og sýndi honum merkið.
,,Er þetta það sem ég held?” spurði hún hissa.
Herra Féráður tók við merkinu af konu sinni og skoðaði það líka.
,,Jú svei mér þá, það er rétt hjá þér gæskan“ sagði hann og lét son sinn fá merkið.
Herra Einráður tók einnig við því og varð jafn undrandi og foreldrar hans þegar hann sá á hverju hann hélt.
,,Heyrðu mig þetta er skjaldarmerki og innsigli Konungsættarinnar í Kaupmannahöfn” sagði Einráður og leit á sveitalúðann sem var hálf feiminn við þessa athygli sem nú beindist að honum.
,,Hver sagðir þú að hafi gefið þér merkið?“ spurði stórbóndinn og leit á undrandi drenginn.
Jesper var hissa á æsingi fullorðna fólksins.
,,Það var hún Skjóna sem gaf mér það” sagði Jesper varlega.
,,Það væri gaman að vita hvar sú gamla skrukka náði í merkið“ sagði Einráður.
Hann hrökk við þegar móðir hans sló létt á öxlina á honum.
,,Notaðu ekki þennan munnsöfnuð Einráður” sagði frú Ríkey og leit ströng á son sinn.
,,Ég er viss um að það er alveg eðlileg skýring á því hvar hún fékk innsiglið“ hélt Ríkey áfram.
,,En það kemur okkur auðvitað ekkert við, hún gaf drengnum merkið og þar við situr” sagði frúin og tók merkið af syni sínum og rétti Jesper það aftur.
,,Þú skalt gæta þessa merkis mjög vel drengur minn, þetta er mjög merkilegt innsigli og gamla konan hefur örugglega haft sínar ástæður fyrir að afhenda þér þetta” sagði Ríkey og brosti til Jespers sem var orðinn alveg ringlaður.
Þær Gunna og Ebba komu aftur út úr tjaldinu og amma þeirra sá að það var uppgjafasvipur á Gunnu. Ríkey skildi að Gunnu hefði ekki gengið vel með að sannfæra litlu systur sína um að hætta við ráðahag með unga drengnum. Gunna hafði reynt að fá Ebbu til að skilja það að með Jesper mundi hana vanta allt og þau yrðu að vinna fyrir öllu. Ebba var óhagganleg og vildi ekki hlusta á neinar útskýringar um aðalsmenn og ríka menn sem kæmu á hátíðardansleikinn. Hún ætlaði sér að fara með Jesper og enginn skildi stoppa þau af.
Þau snéru sér aftur að borðinu og héldu áfram að borða. Síðan fóru þau í ýmsa leiki og hafði Jesper sjaldan skemmt sér eins vel.
Þegar halla fór að kvöldi byrjuðu þau að taka saman og ákváðu að reyna þetta aftur seinna, áður en Ríkey og Féráður færu aftur til borgarinnar. Ebba ákvað að fara með Jesper til að taka folann Skugga til baka og þau kvöddu alla.
Einráður hristi höfuðið þegar hann horfði á eftir yngri dóttur sinni hverfa með sveitalúðanum.
,,Ég veit ekki hvað ég á að gera í sambandi við þetta allt saman“ sagði hann við móður sína sem bara glotti að áhyggjusvipnum á syni hennar.
,,Þú skalt bara láta þau í friði og sjá hvað úr verður” sagði gamla frúin.
,,Ef þau eru raunverulega ástfangin þá verður þú að gefa þeim tækifæri til að sanna sig“ hélt móðir stórbóndans áfram.
,,En ef þetta er bara einhver kjánaskapur, þá verða þau búin að fá nóg hvort af öðru fyrir dansleikinn” sagði Ríkey svo.
Þau kláruðu að taka saman og lögðu af stað heim að Ríkabæ.
Foreldrar Einráðs ákváðu að stoppa í eina viku og nýta tímann til að hjálpa syni sínum við undirbúning dansleiksins, það þurfti að panta fatnað og ýmislegt annað fyrir stúlkurnar.
Framhald seinna.