Á Ríkabæ hafði frú Ríkey líka vaknað snemma.
Hún sat við gluggann sem snéri út að hlaði og saup á teinu sem hún hafði hellt sér uppá.
,,Mikið er kyrrlátt hérna” sagði hún við sjálfa sig.
,,Hérna væri indælt að eiga lítið sumarhús til að eyða sumrunum” sagði hún við sjálfa sig og andvarpaði.
Þó að þungskýjað væri var veður stillt og gott. Allt í einu sá hún hvar yngri sonar dóttir hennar læddist meðfram húsinu og hvarf inn í hesthús.
Frú Ríkey var létt í spori þegar hún skaust upp á næstu hæð. Þar klæddi sig í hlýleg föt og stökk aftur niður.
Þegar hún kom út að hesthúsi heyrði hún blíðlega rödd ungu stúlkunnar tala til hestsins.

,,Við förum í smá útreiðatúr en stoppum bara stutt við núna” heyrði Ríkey Ebbu segja. Gamla frúin gekk hægt inn og sá að Ebba var að leggja hnakkinn á Lady.
,,En hvað hún er falleg” sagði Ríkey við Ebbu og strauk háls hryssunnar. Ebba, sem var að bogra undir hryssunni, hrökk í kút. Hún hafði ekki orðið vör við að einhver kom inn.
,,Oh, amma þó” sagði hún og hló vandræðalega.
,,Mér dauðbrá þegar ég heyrði í þér, ertu búin að vera þarna lengi?” spurði stúlkan ömmu sína.
Frú Ríkey brosti til ungu heimasætunnar og hló að vandræðasvipnum sem kom á hana.
,,Þú lætur eins og að ég hafi séð eitthvað sem enginn má sjá” hló sú eldri.

Ebba var að hugsa um að segja ömmu sinni frá öllu saman, en ákvað að bíða þar til seinna um daginn.
,,Ég ætla bara að skjótast bæjarleið, til Jespers á Snauðustöðum, en kem samt strax aftur til baka” sagði Ebba rjóð. Hún tyllti sér á tær og kyssti ömmu sína á kinnina.
,,Ekki segja pabba að ég hafi farið þangað” sagði hún og sveiflaði sér á bak. Ríkey brosti til Ebbu og lofaði að segja ekki frá. Þær gengu út á hlað og Ebba þeysti af stað.
Amma hennar horfði á eftir henni og brosti.
,,Það er greinilega kominn drengur í spilið hjá henni” sagði Ríkey við sjálfa sig og gekk aftur að Ríkabæ.
Þegar hún kom inn heyrði hún að einhver var að stússa inni í eldhúsinu. Hún gekk að dyrunum og opnaði þær.

,,Góðan daginn amma mín” sagði ung stúlkurödd. Gunna hafði verið að laga sér heitt súkkulaði þegar hún sá þær Ebbu og ömmu sína koma út úr hesthúsinu.
,,Komdu inn amma, mig langar til að ræða dálítið við þig” sagði Gunna og greip undir handlegg ömmu sinnar. Frú Ríkey lét stúlkuna teyma sig að borðinu og hún settist þar niður. Síðan náði Gunna í tvo bolla og bauð ömmu sinni heitt súkkulaði. Þegar þær voru báðar sestar með sinn bollann hvor af rjúkandi heitu súkkulaði leit frú Ríkey á Gunnu.
Gunna leit til baka á ömmu sína og báðar skelltu þær uppúr. Frú Ríkey Smart Ríkisdal hafði alltaf verið ung í anda og hafði alltaf átt gott með að eiga við sonardætur sínar.
,,Jæja elskan” sagði hún við Gunnu.
,,Hvað viltu ræða svona mikilvægt” hélt hún áfram og strauk vanga stúlkunnar.

,,Það eru þau Ebba og Jesper” sagði Gunna og byrjaði á að segja ömmu sinni frá öllu sem hafði skeð, alveg frá því að hún hafði hitt Jesper við lækinn hjá Snýtukoti.
Gamla konan brosti öðru hvoru og skellihló við og við.
,,Áttu við að þessi drengur sé einhver glaumgosi og að hann sé að reyna að ná í Ebbu vegna peninganna?” spurði Ríkey glettilega og brosti.
,,Nei hann Jesper er sko enginn gosi á neinn hátt” sagði Gunna og hló.
,,Hann hefur sennilega aldrei farið út fyrir sýsluna og þekkir hvorki glaum né glys” sagði hún og fórnaði höndum.
,,Hann er bara klaufalegur og ótrúlega fátækur kotbóndasonur” hélt Gunna áfram og gretti sig.
,,Ég er búin að reyna að tala við Ebbu, en hún vill ekki hlusta á mig” sagði Gunna og leit biðjandi á ömmu sína.

,,Vilt þú reyna að tala hana til og segja henni frá því að með Jesper blasir aðeins við eymd, fátækt og volæði?” spurði Gunna. Ríkey horfði á ungu stúlkuna og sá að hún hafði miklar áhyggjur af yngri systur sinni.
,,En ef Ebba er nú raunverulega ástfangin af þessum Jesper” sagði frú Ríkey og brosti að skelfingarsvipnum sem kom á Gunnu.
,,Nei almáttugur það má ekki ske!” hrópaði Gunna og enn fórnaði hún höndum. Amma hennar skellihló.
,,Jæja elskan, ég skal tala við hana þegar hún kemur til baka” sagði sú eldri og síðan ræddu þær saman um alla heima og geyma.

Heima í Snýtukoti sat Skjóna gamla inni í eldhúsinu sínu og strokkaði smjör. Hún hafði ákveðið að halda áfram sínum daglegu verkum eins og venjulega þó að hún hreinlega þyrfti þess ekki með.
,,Mikið hlakka ég til að hitta aftur fjölskyldu og vini” hugsaði gamla konan. Hún hafði hugsað mikið um þetta allt síðustu daga og vissi að allar þessar breytingar mundu hafa mikil áhrif á marga hérna.
,,Þó kannski mest á þau Jesper og Ebbu ef allt fer samkvæmt áætlun” sönglaði hún og leit upp.
Hún heyrði einhvern stíga upp á dyrapallinn og síðan létt bank á útidyrnar. Skjóna gekk ákveðin fram og opnaði dyrnar. Fyrir utan stóð Jesper. Hann leit út fyrir að vera með allar byrgðar heims á herðum sér, svo sorgmæddur var hann á að líta.

,,Já en hvaðan ber þig að svona snemma, gullið mitt” sagði Skjóna og tók í hendi drengsins og dró hann inn.
,,Ó Skjóna mín” sagði Jesper vesældarlega og bar sig aumlega.
,,Nú er illt í efni og ég verð að fara til borgarinnar vegna þess að ég hef misst allt og Ebba vill mig ekki heldur og dýrin flest dauð og vélin brunnin og ég veit ekki hvað næst” bunaðist út úr Jesper og hann var ansi vesældarlegur.
Gamla konan sussaði á hann og ýtti honum á undan sér inn í eldhús.
,,Sestu þarna og fáðu þér tebolla með mér á meðan þú segir mér allt af létta” tautaði sú gamla og íhugaði hvort eitthvað væri til af kexkökum í kökuboxinu. Hún rétti Jesper bolla sem hún fyllti með te og disk með fjórum litlum, hörðum kökum.
,,Jæja unginn minn” sagði hún svo og leit blíðlega á drenginn sem hún hafði fylgst með alveg frá fæðingu.
,,Hvað er svona skelfilegt og ógnvænlegt að þú þurfir að flýja til borgarinnar og það svona snemma morguns” spurði hún og fékk sér tesopa.

,,Jú sjáðu til” byrjaði Jesper.
,,Hann kom í gær og sagði að ef ég get ekki borgað skuldina þeirra pabba og mömmu, þá skildi ég hypja mig af landareigninni” hélt Jesper áfram og leit á gömlu konuna.
,,Hann sagði að þau skulduðu svona mikið” sagði hann svo og rétti út báðar hendur til að sýna hversu mikið gömlu hjónin höfðu skuldað.
Skjóna starði á Jesper og vissi ekkert um hvað hann var að tala.
,,Bíddu, bíddu hægur gæskurinn” sagði hún og rétti fram höndina til að stoppa orðflauminn.
,,Kom hver” spurði hún.
,,Og sagði hvað” spurði hún aftur og reyndi að átta sig á orðum Jespers.

,,Það var Gráðugur sveitastjóri sem kom og vildi að ég borgaði skuldina þeirra” sagði Jesper með grátstafina í kverkunum.
,,Bíddu hægur, sagði karlófétið að foreldrar þínir skulduðu honum fémuni” spurði Skjóna og trúði varla því sem hún heyrði.
,,Já hann sagði að þau hefðu ekki verið búin að greiða skuldina og ef ég gæti ekki borgað áður en mánuður er liðinn ætti hann jörðina mína” romsaði drengurinn út og horfði á eldrautt og reiðilegt andlit gömlu konunnar.
Hann hafði aldrei séð Skjónu svona reiðilega áður og varð hálfhræddur.
,,Ertu nokkuð reið út í mig” spurði hann varlega og kveið svarinu.
,,Nei molinn minn” sagði sú gamla og áttaði sig á því að hún hafði næstum því öskrað af reiði beint yfir skelfdan drenginn.
,,Nei, nei drengurinn minn hafðu ekki áhyggjur af þessu, þú átt Snauðustaði og enginn getur tekið landið af þér” sagði hún og stóð upp.

Hún hvarf fram og Jesper heyrði duglegt blót og skrjáf og læti eins og þegar hlutum er ýtt fram og aftur. Síðan birtist gamla kerlingin aftur með hrúgu af einhverjum pappírum sem hún skutlaði á borðið.
,,Hérna eru allir þeir pappírar sem segja að þú eigir Snauðustaði skuldlausa” þusaði Skjóna og benti á ýmis skjöl sem hún lét á borðið.
,,Og þú átt líka landið frá landamærunum að Grobbstöðum og yfir að landamærunum að bænum mínum, Snýtukoti” sagði hún svo og benti á skjal með einhverjum teikningum. Jesper varð alveg undrandi.
,,Áttu við að Gráðugur geti ekki rekið mig af landinu” spurði hann og hélt niðri í sér andanum af spenningi.
,,Einmitt, og ef hann heldur því fram að þau skuldi honum fé þá skal hann sýna reikninga því til stuðnings” sagði sú gamla æst.
,,Þú skalt fara aftur heim áhyggjulaust og undirbúa þig fyrir dansleikinn í næsta mánuði” sagði hún svo og róaðist aðeins niður.

Jesper ljómaði allur og stóð upp. Hann gekk að Skjónu og faðmaði hana að sér og hló ánægður.
,,Ég missi Ebbu þá kannski ekki eftir allt saman” söng hann glaður í bragði.
,,Heyrðu Skjóna mín” sagði hann allt í einu.
,,Hvers vegna keyptir þú þessi líka flottu föt handa mér og það án þess að ég léti þig hafa peninga fyrir þeim?” spurði hann hugsandi á svip.
Gamla konan leit á Jesper og strauk hárlubbann frá andliti hans.
,,Mikið er hann líkur móðurættinni sinni” hugsaði hún ánægð vegna bæði fríðleika drengsins undir lubbanum og vegna góðmennsku ættar hans.
,,Foreldrar þínir áttu þetta inni hjá mér rófan mín, svo ég læt þig njóta þess þar sem þau geta ekki tekið við því” sagði hún og brosti móðurlega til drengsins.

,,En” sagði Jesper aftur og varð hugsandi á svipinn.
,,Ég og Ebba vorum að spá í merkið sem þú sendir mér og hvar þú hefðir fengið það” spurði hann svo.
Gamla konan ákvað að segja sem minnst að svo komnu og tautaði eitthvað alveg óskiljanlegt. Síðan ýtti hún Jesper að útidyrunum.
,,Nú skaltu fara heim og æfa þig með dömunni þinni sem er kannski þegar komin” sagði Skjóna og glotti tannlausu brosi framan í hamingjusaman drenginn. Hún horfði á eftir Jesper hlaupa upp hæðina á bakvið Snýtukot og hverfa yfir.

,,Svo sjálfur Gráðugur ber þá nafn með réttu” fussaði gamla konan og það sauð í henni hefndarhugur.
,,Hann skal sko fá að brenna sig í bossann þegar réttur tími er kominn” hreytti gamla kerlingin út úr sér. Hún tók upp snjáðu tóbakdósina sína og fékk sér dálítið í nefið, tóbak mundi hún ekki geta fengið sér í nýja lífinu.
,,Ég skal sko sýna honum að enginn kemst upp með að níðast á mínu fólki án þess að tapa hornum og hala” tautaði Skjóna og hlakkaði til uppgjörsins.

Allt í einu sá hún hvar Ebba kom eins og elding yfir lækinn á rauðu hryssunni. Stúlkan kom á fleygiferð og hentist af baki hjá gömlu konunni.
,,Ó kæra frú Skjóna” hrópaði hún æst.
,,Veist þú hvar Jesper gæti verið, ég er búin að leita heima hjá honum og fara aftur heim til baka en finn hann hvergi” sagði Ebba og leit móð á brosandi konuna.

,,Oh, hann var að fara yfir um að Snauðustöðum týran mín” hló sú aldraða og greip í taum hryssunnar.
,,Hann kom til að ræða aðeins við mig og síðan fór hann aftur til að bíða þín” sagði Skjóna og var ánægð með að sjá að það létti yfir stúlkunni.
,,Hún hefur sannarlega haft áhyggjur af drengnum” hugsaði Skjóna með sér og ýtti stúlkunni aftur að hestinum.
,,Þú skalt ekki tefja hérna gæskan, heldur flýta þér á eftir honum” hélt hún áfram og hjálpaði Ebbu aftur upp á Lady. Unga stúlkan brosti þakklát til gömlu konunnar og veifaði í kveðjuskyni.

Þegar Ebba var horfin yfir hæðina í átt að Snauðustöðum fór kerlingin aftur inn. Það hlakkaði í henni á meðan hún undirbjó “hefndina” á gráðugan sveitastjórann. Skjóna tók pappír sem var nákvæmlega eins og sá sem var notaður í boðskortin sem flestir háttsettustu embættismenn landsins sem og nokkrir herragarðseigendur höfðu þegar fengið með pósti. Hún settist við eldhúsborðið með pappann og skriffæri.

,,Yður er hér með sérstaklega boðið á hátíðardansleikinn að Voldugustöðum” skrifaði hún og fussaði.
,,Hann sjálfur verður viðstaddur og mun hann heiðra verðuga menn og konur landsins á viðeigandi hátt” skrifaði hún líka og hló að sjálfri sér. Síðan skrifaði hún nokkrar setningar í viðbót og fór svo með bréfið í póstkassann.
,,Það væri gaman að vera fluga á vegg hjá ljóta sparigrísnum þegar hann fær þetta kort” sönglaði gamla kerlingin og skellihló. Hún gekk aftur inn og hélt áfram fyrri iðju.

Heima að Snauðustöðum sat Jesper á gömlu girðingunni við útikamarinn og dinglaði fótunum. Hann var í ljómandi skapi og raulaði lagstúf sem móðir hans hafði kennt honum þegar hann var yngri.
,,En hvað þetta er fallegt lag” sagði blíðleg rödd á bakvið hann. Jesper hrökk við. Hann leit aftur fyrir sig og sá hvar heitmey hans stóð og fylgdist með honum þar sem hún hallaði sér upp að útikamrinum. Ebba hélt í taum fallegu ljósrauðu hryssunnar og leit á piltinn sem sat raulandi uppi á girðingunni.
,,Já en Ebba mín” sagði drengurinn glaður.
,,Ert þú komin og það án þess að ég yrði þín var” kallaði Jesper og hoppaði niður.
,,Varst þú búin að bíða lengi eftir mér” spurði hann svo. Ebba gekk til Jespers og faðmaði hann að sér.

,,Elsku vinur minn” sagði hún og brosti.
,,Ég var búin að leita að þér út um allt og ég hélt að þú værir farinn” sagði Ebba andstutt.
,,En svo sagði frú Skjóna mér að þú hefðir komið til hennar til að ræða við hana og værir farinn aftur heim” sagði hún og hló glaðlega.
Jesper hló einnig léttur og kátur. Hann sagði Ebbu frá öllu sem hafði gerst frá því að þau sáust síðast og líka að hann hafði ætlað að strjúka áður en hún kæmi.
,,Þú verður að lofa mér því að ef eitthvað svona kemur aftur fyrir þá kemur þú til mín og segir mér frá því” sagði Ebba og hristi Jesper.
,,Ef við eigum að giftast þá eigum við að hjálpa hvort öðru þegar eitthvað bjátar á” sagði hún svo.
Jesper brosti bara ánægður og lofaði öllu fögru.

,,Hvaða lag var þetta sem þú varst að syngja þegar ég kom?” spurði Ebba og batt tauminn með hryssunni við girðingarstaurinn.
,,Hún móðir mín söng þetta svo oft þegar ég var lítill” svaraði Jesper stoltur af lagi móður sinnar.
,,Fannst þér það virkilega fallegt” spurði hann svo.
,,Já það var yndislegt og mig langar til að heyra það allt einhvern tímann seinna” sagði Ebba og tók undir handlegg unnusta síns.
Síðan sagði Ebba Jesper frá því að amma hennar og afi væru komin í heimsókn.
,,Ég get ekki stoppað lengi núna en við byrjum á fullu að æfa okkur þegar þau eru farin aftur til borgarinnar” sagði Ebba og leit á Jesper sem varð leiður á svipinn.

,,Heyrðu Jesper” sagði Ebba og strauk hárlubbann á draumaprinsinum.
,,Má ég klippa hárið á þér?” spurði hún svo og hló að svipnum sem kom á andlit Jespers.
,,Klippa hárið á mér” spurði Jesper hissa.
,,Viltu hafa mig sköllóttan?” spurði hann og starði hissa á Ebbu sem skellihló.
,,Nei nei” hló Ebba. Hún hætti þó strax að hlæja þegar hún sá að Jesper var orðinn vandræðalegur.
,,Auðvitað vil ég ekki hafa þig sköllóttan” hélt hún áfram og tók í hárlubbann.
,,Ég átti við að snyrta það aðeins og klippa bara svolítið af því” sagði Ebba svo og strauk hárið á Jesper frá andlitinu á honum.
,,Jaaá” sagði Jesper og náði aftur gleði sinni, hann brosti að eigin kjánaskap.
,,Já já, auðvitað máttu gera það Ebba mín, ef þú heldur að það sé betra” sagði hann og gretti sig og skældi allan.

Ebba varð allt í einu hugsandi og þefaði út í loftið.
,,Finnur þú ekki einhverja skrýtna lykt Jesper” spurði hún og fann greinilega einhvern fnyk. Jesper þefaði líka út í loftið og leit í allar áttir.
,,Juuú” sagði hann og tók líka eftir lyktinni.
,,Það er eins og að þessi lykt komi þaðan” sagði Jesper og benti á útikamarinn.
,,Já það er rétt” svaraði Ebba og leit í sömu átt. Þau gengu að skúrnum og litu inn fyrir en sáu ekkert óvenjulegt.
Allt í einu datt Ebbu dálítið í hug.
,,Heyrðu Jesper” sagði hún.
,,Þegar þú komst til að biðja pabba um leyfi til að giftast Gunnu þá sagðir þú að Gráni gamli væri í tunnu hérna á bakvið, er það ekki” spurði hún og leit á Jesper.
Hann klóraði sér varlega í bossann og kinkaði svo kolli.
,,Jú það er rétt” sagði hann.

Þau gengu samhliða fyrir hornið á útikamrinum. Þegar þangað kom fundu þau enn verri lykt en áður. Þau gengu að tunnunni og sáu að stór rifa var á einni hliðinni. Út um rifuna lá úldið hræið af gamla hrossinu og voru tveir hrafnar að kroppa í það.
Jesper stökk í áttina að krummunum og öskraði á þá.
,,Ófétin ykkar látið Grána gamla í friði!” hrópaði hann og baðaði út höndunum. Ebba hló þegar hún sá þessa uppákomu. Þegar hún leit á Jesper þá sá hún að hann var leiður svo hún hætti strax aftur að hlæja.
,,Ég held að það sé best að við gröfum Grána svo að hann fái frið” sagði hún og tosaði í drenginn sem horfði niðurlútur á hræið.
,,Já það er líklega rétt hjá þér” svaraði hann. Þau hjálpuðust að við að grafa passlega holu og veltu tunnunni ofan í. Því næst mokuðu þau yfir.
,,Það enda víst allir hjá Guði” sagði Jesper og leið talsvert betur að vita af Grána þar uppi heldur en í krummagoggi.

Þegar þetta var búið fóru þau inn í bæinn og fengu sér smá matarbita. Þau töluðu glaðlega saman á meðan þau mötuðust. Ebba sagði Jesper frá því sem Skjóna vissi um hátíðarhald og dansleiki. Hún sagði honum líka frá öllum góður ráðunum frá henni. Jesper sagði Ebbu frá herra Gráðugum og því sem hann hafði gert og sagt.
,,Almáttugur hvað sveitastjórinn er ómerkilegur og aumingja hesturinn hans” sagði Ebba og þau hlógu að öllu saman.
Jesper sagði síðan Ebbu líka frá því að Skjóna hafði sýnt sér alla pappírana, sem sýndu að Jesper ætti Snauðustaði skuldlausa. Ebba varð hissa þegar Jesper sagði henni frá öllum skjölunum sem Skjóna hafði sýnt honum.
,,Hvers vegna er hún Skjóna með pappírana þína?” spurði Ebba hissa.
,,Ég held að foreldrar mínir hafi beðið Skjónu um að sjá um öll þeirra mál, þau fóru aldrei til borgarinnar” svaraði Jesper og yppti öxlum.

Ebba og Jesper luku við matinn og því næst röbbuðu þau saman smá stund í viðbót.
,,Haninn þinn rak Við á hlaðinu í morgun” sagði Jesper og leit á Ebbu sem skellihló.
,,Já þú átt við að hann hafi rekið köttinn út af hlaðinu” sagði Ebba og saman skellihlógu þau að þessu. Að lokum stóð Ebba upp og gekk að dyrunum.
,,Nei nú verð ég að fara heim, en ég kem aftur á morgun” sagði hún glaðlega og þau fylgdust að út á hlað. Jesper hjálpaði Ebbu á bak hryssunnar og veifaði svo til hennar þegar hún þeysti í burtu.

Framhald seinna.