Ah, England, hvílíkt land!!! Ég lét hugann reika til baka, alla leið til Keflavíkur fyrir um tveim vikum en það var þá sem ég lagði af stað í ferðalag sem ég gleymi aldrei.

Klukkan var rétt um átta árdegis þann 1. júlí og ég sat við gluggann sem var staðsettur beint fyrir ofan væng þotunnar sem átti að fljúga með mig til Englands, þetta var ein stærsta flugvél sem ég hafði sest upp í og ég var mjög spenntur. Mig hafði lengi langað til að ferðast um England og loksins var ég búinn að safna nógu miklu fyrir 3ja vikna fríi. Þotan hóf sig á loft og hraðinn og þrýstingurinn var mikill. Ég hallaði mér aftur í sætinu og hugsaði til alls þess er ég ætlaði að gera þegar ég kæmi til London, í fyrsta skiptið á ævinni.

Fyrst ætlaði ég að skoða mig um á Heathrow, flugvellinum í London, síðan fara með leigubíl niður í miðbæinn og fá mér herbergi á einhverju vinalegu farfuglaheimili því þau eru alltaf svo heimilisleg, ódýr og kósý. Því næst ætla ég að fara í langa útsýnarferð með rauðu strætisvögnunum sem ég sé svo oft í sjónvarpinu, þeir eru opnir að ofan og mig hefur alltaf langað til að sitja þar uppi og líta á borgina ofan frá, því næst ætla ég að leigja mér bát og sigla eftir Thames ánni, ég hef heyrt að það sé margt að sjá í svoleiðis ferð.

Þegar ég er búinn að rannsaka borgina í svona viku þá ætla ég að ferðast með lest út í sveitir Englands og taka myndir af ýmsum markverðum stöðum, oh, mikið hlakka ég til. Ég hallaði mér aftur þegar þotan var komin hátt á loft og ákvað að reyna að sofna smástund, en eftir augnablik hrökk ég upp við að flugfreyja var að hrista mig, hún sagði að ég yrði að spenna beltið vegna óveðurs sem nálgaðist.
Ég flýtti mér að spenna beltið og leit út um gluggann, dökkur skýjabakki var að því er virtist út um allt og vélin byrjaði að láta illa. Ég hélt mér fast og bað til guðs um að allt yrði í lagi, en veðrið bara versnaði og versnaði.

Eftir langan, langan tíma heyrðist sagt í kallkerfinu, “því miður verðum við að lenda og bíða þar til storminum slotar” því næst tók vélin rosa dýfu og allir tóku andköf af skelfingu, en það gekk áfallalaust að lenda vélinni og þegar ég spurði hvar við værum var svarið, einhver lítil sker sem kölluð eru Færeyjar.
Ég fékk ekki að fara út úr vélinni vegna þess að það átti að leggja í hann um leið og vindinn lægði. Þarna þurftum við að bíða í tuttugu klukkutíma!

Loksins! loksins gátum við lagt af stað aftur, ég var orðinn bæði hundleiður og dauðþreyttur. Mér var sagt að það tæki um tvo klukkutíma að fljúga héðan og til London, úff. Við lentum loks á flugvellinum í London 22 klukkustundum á eftir áætlun og þá var ég orðinn alveg útkeyrður.
Ég ákvað að gista eina nótt á hóteli flugvallarins og fékk mér herbergi. Þegar þangað kom hringdi ég í móttökuna og lét vita að ég vildi ekki láta trufla mig því, næst fór ég að sofa.
Ég svaf fast og vaknaði ekki fyrr en að kvöldi fjórða sólahrings frá því að ég lagði af stað frá Keflavík, en sú byrjun.

Þrátt fyrir þessar hrakningar fór ég og keypti mér kort sem hægt er að nota bæði í strætisvagna og lestir, en ég byrjaði samt á því að fara með leigubíl niður í miðbæ London. Þegar þangað kom fann ég fallegt gistiheimili sem þó reyndist allt öðru vísi innan dyra en ég átti von á. Samt fékk ég mér herbergi og dröslaðist með allann farangurinn upp fjórar hæðir því lyftan var biluð, þar sá ég að herbergið var bara smákompa með einu rúmi og pínulitlu borði, það var allt og sumt. En ég ákvað að láta þetta duga og gekk snemma til náða.

Næsta dag fór ég snemma á fætur fullur tilhlökkunar og flýtti mér niður alla stigana til að fá mér morgunmat, þegar það var búið fór ég út. Veðrið var svo sem ágætt en engin sól, ég fór á næstu stoppistöð fyrir strætó og fór inn í einn vagninn. Mér var sagt að það væri allt í lagi að sitja uppi og fór ég því þangað og settist.
Mikið hlakkaði mig til að virða fyrir mér London frá þessu sjónarhorni, en þegar vagninn lagði af stað sá ég strax að það þýddi ekkert að skoða borgina svona vegna þess að vagninn fór svo hratt að ég hreinlega sá ekki neitt. Þegar ég var búinn að sitja þarna í um 15 mínútur byrjaði allt í einu að rigna svo rosalega að ég blotnaði undir eins því ekkert sæti var laust inni og ég neyddist til að vera úti.

Ég fór út á næstu stoppistöð og hljóp inn á veitingastað kaldur og blautur, til að hringja eftir leigubíl, með honum fór ég til baka og eyddi því sem eftir var af deginum í rúminu en ákvað að vakna snemma næsta dag og leigja mér bát á Thames ánni.

Næsta morgun var glæsilegt veður, sólskin og heiðskýrt, og ég var í góðu skapi þegar ég fór frá gistihúsinu eftir góðan en mjög dýran morgunverð. Ég var öruggur um að þetta yrði góður dagur. Ég leigði mér bát og lagði af stað eftir ánni, þetta var yndislegt, sólin skein og ég settist aftast í bátinn upp á bátsbrúnina og hélt um stýrisstöngina. Oh, svona átti lífið að vera mér leið eins og alvöru skipstjóra þar sem báturinn leið rólega niður ána og ég gat séð talsvert mikið meira en daginn áður í strætisvagninum.
Það sem mér fannst mest spennandi á siglingunni var stóra brúin og þegar ég kom að henni sá ég að hún byrjaði að lyftast. Ég hafði heyrt að það væri hægt að opna hana og fannst spennandi að fá að sjá það með eigin augum.

Þegar báturinn minn sigldi undir brúna sem var að opnast, hallaði ég mér aftur á bak til að sjá undir hana, en auðvitað þurfti eitthvað að fara úrskeiðis því ég hallaði mér aðeins of mikið og það skipti engum togum að ég skall með miklum gusugangi aftur á bak ofan í sjálfa Thamesá. Ég sökk á bólakaf og þegar mér skaut aftur upp tók ég andköf því ég sá að báturinn minn sigldi rólega í burtu frá mér.

Ég þurfti að synda í fjóra klukkutíma til að ná bátnum aftur og þegar ég loks náði honum stýrði ég beint að næstu bryggju og skildi hann eftir þar. Tók leigubíl beint til baka að gistihúsinu mínu í mjög vondu skapi og rennandi blautur eins og fyrri daginn. Þegar ég var kominn uppí rúm án þess að hafa notið eins einasta dags í borginni ákvað ég að fara bara út í sveitir Englands með járnbrautarlest morguninn eftir.

Árla daginn eftir dröslaðist ég fótgangandi með allan farangurinn minn út að lestarstöðinni vegna þess að ég fann engan leigubíl. Þegar ég kom dauðþreyttur þangað sá ég að eitthvað var ekki eins og það átti að vera því að það var engin umferð og ekkert fólk sjáanlegt. Þegar ég kom að læstum dyrunum sá ég miða sem á stóð
“því miður allt lokað vegna verkfalls hjá lestarstjórum”.

Hver skollinn, þetta var svo sem eftir öllu öðru. Nú var ég orðin ansi reiður, ég rogaðist með allar töskurnar mínar af stað út á flugvöll enn og aftur fótgangandi því það var eins og að það væri líka verkfall hjá leigubílstjórum. Þegar ég kom þangað eftir langan tíma tók ég fyrstu flugvél burt frá Englandi og nú ligg ég hérna á ströndinni á Spáni í glaða sólskini og hita með bjór og hugsa aftur til baka, til Englands, Oh, ÞVÍLÍKT LAND,
ÉG SKAL SKO ALDREI FARA ÞANGAÐ AFTUR……
ENDIR.