BERNSKUBROTIN SÁL
„Þetta var þér að kenna!“
„Nei! Það er ekki satt!“
„Víst var það þér að kenna!“
„Víst!“
„Hvernig er það mér að kenna?“
„Bara!“
„Þú ert óheillakráka!“
„Hættið þessu! Látið mig vera!“
„Þegiðu! Þú ert asni!“
„Og grenjuskjóða!“
„Hættið! Ég segi pabba og mömmu!“
„Klöguskjóða! Klöguskjóða!“
„Látið mig vera!“
Hold mætir gangstétt. Hröð fótatök. Þögn. Ekkafullur grátur. Og sólin skín og fuglarnir syngja.
Hvað hafði hann gert til að eiga þessa meðferð skilna? Þeir höfðu verið að spila fótbolta, hann, Davíð G, Davíð Ö, Pálmi, Ómar og Gísli. Þetta var ein af fáum stundum sem þeir höfðu leyft honum að leika með sér en bara vegna þess að þá vantaði leikmann til að jafna liðin. Hann vissi vel að þeir þoldu hann ekki og hann þoldi þá varla. Hann ákvað að vera með því hann vildi ekki að þeir níddust á honum í staðinn. Liðunum var skipt þannig: Davíð G, Ómar og Gísli á móti Davíði Ö, Pálma og Arnari. Arnar var bara í liði með Pálma og Davíði Ö vegna þess að Davíð G fékk að velja í lið fyrst. Davíð Ö og Pálmi hötuðu Arnar. Þeir höfðu níðst á honum síðan í leikskóla. Nú voru þeir allir átta ára sem þýddi að Davíð Ö og Pálmi höfðu níðst á honum í u.þ.b. fimm ár. Auk þess höfðu hinir drengirnir lagt sitt af mörkum í að gera Arnari lífið leitt. Ómar stakk upp á því að leyfa Arnari að vera með, því hann þoldi Arnar aðeins meir en hinir strákarnir.
Leikurinn fór eins og Arnar hafði spáð. Liðið hans tapaði að sjálfsögðu, aðallega vegna þess að Gísli hafði verið í marki hjá hinu liðinu. Gísli var bestur í bekknum í marki. Aftur á móti vildu Davíð Ö og Pálmi endilega hafa Arnar í marki. Arnar var ömurlegur í marki. Það var fyrst og fremst vegna þess að hann hafði ekki mikið gaman af því að fá boltann utan í sig, sérstaklega þar sem drengirinir áttu það til að þrusa boltanum allharkalega. Arnar hætti að spila fótbolta þegar hann var fjögurra ára því drengirnir fóru svo illa með hann.
Og eins og alltaf var honum kennt um þegar liðið hans tapaði. Því lauk venjulega þannig að hann féll í gólfið og grét, drengirnir spörkuðu dálítið í hann og strunsuðu síðan burt. Þetta var orðið hluti af daglegu lífi í tilveru hans. Þess vegna þoldi hann ekki leikfimi og frímínútur því hann var alltaf laminn og lagður í einelti. Hann þoldi ekki leikfimitíma því allir reyndu að níðast á honum. Ef það var boðhlaup þá sögðu allir honum að hlaupa hratt en sama hvað hann hljóp þá tapaði liðið hans alltaf og það var alltaf honum að kenna. Ef átti að stökkva upp á hestinn reyndu hinir strákarnir að fipa hann með því að hlaupa í veg fyrir hann. Þeim var alveg sama þó leikfimikennarinn skammaði þá.
Í frímínútum var það aðeins skárra því þar var ekki ætlast til þess að hann tæki þátt í leikjunum og hann gat haldið sig eins langt frá öðrum krökkum og hann vildi. Á móti kom að ef hann mætti einhverjum í frímínútum þá var enginn nálægt til að verja hann.
Nú lá hann á leikvellinum í sumarblíðunni og hágrét. Hann settist upp með tárin um allt andlitið, sand í hárinu, horbragð í munninum og ekka í hálsinum. Hann gat varla andað af ekka. Hann gat varla séð fyrir tárum. En hann heyrði fuglana syngja í trjánum. Hann hataði fuglana. Þeir voru verstir í heiminum. Þeir voru vitni að því þegar hann var barinn og niðurlægður og sungu svo sín blíðu lög eins og þeir hefðu ekki takið eftir þessu. Eins og þeim væri alveg sama um hann. Það var næstum eins og þeir hæddust að honum. Hann hataði allan heiminn því það var svo greinilegt að allur heimurinn hataði hann. Ekki grét heimurinn með honum þegar hann meiddi sig, ekki reyndi heimurinn að hugga hann. Uss, nei, þessi asnalega sól sem brenndi hann alltaf svo asnalega hélt bara áfram að skína og fuglarnir héldu bara áfram að syngja. Hann gat varla stigið út úr húsi án þess að eiga von á því að það yrði ráðist á hann á næsta horni. Hann hélt sig heima eins mikið og hann gat því það beið hans ekkert úti nema blóðnasir og niðurlægingar. Og skipti það heiminn nokkru máli? Auðvitað ekki!
Heima til var það lítið skárra. Foreldrar hans vorkenndu honum að sjálfsögðu og reyndu að hugga hann en þeir gátu lítið meira gert fyrir hann. Pabbi hans bætti bara á þrýstinginn. „Þú verður bara að slá á móti! Láttu þá finna fyrir því!“ var hann vanur að segja. Hann gat ekki skilið að það er ekki hægt að slá á móti þremur strákum sem eru allir sterkari en maður sjálfur. Og ef maður svo reyndi að slá frá sér var venjulega farið verr með mann en annars. Mamma hans reyndi alltaf að hugga hann með því að segja honum að þeir væru bara öfundsjúkir því hann væri bara svona miklu betri en þeir. Arnar gat ekki skilið hvers vegna þeir voru öfundsjúkir. Hvað gerði hann að betri manneskju? Var það af því að hann reifst ekki við kennarann, var stilltur í kennslustund og skilaði alltaf heimavinnunni á réttum tíma? Hvers vegna var það öfundsvert?
Hann stóð loksins upp, þurrkaði tárin úr andlitinu og kjagaði heim. Heim þar sem hann yrði yfirheyrður um hvað hefði gerst. Þar sem hann yrði huggaður og sagt að hann væri betri en þeir. Þar sem honum yrði sagt að slá frá sér. Þar sem hann yrði misskilinn eins og venjulega og enginn vissi hvað ætti að gera í vandamálum hans. Hann vissi að það var ekkert annað hægt að gera.