Hann lá á bakinu í miðri eyðimörk ef eyðimörk skyldi kalla. Þetta var tuttugu fermetra sandbali með vindblásnum þúfum allt í kring. Hann hafði lagt bílnum spölkorn frá og lá bara þarna á bakinu og horfði upp í nóvemberhimininn. Hann fylgdist með stjörnunum birtast einni af annari. Það hafði ekkert snjóað sennan vetur en hann fann á lyktinni að von væri á úrkomu bráðlega.
Hann vildi verða söngvari en hafði ekki hæfileikana í það. Rödd hans hljómaði eins og gæs með hálsbólgu ef hann reyndi að fylgja eftir laglínu. Þrátt fyrir þetta hafði hann unun af að syngja. Hann var lögfæðingur og fyrr um daginn höfðu hann og félagar hans unnið mál sem þeir höfðu stritað við því sem næst linnulaust í marga mánuði. Þeir ákváðu að fara á krá til að fagna þessum mikla sigri. Hann var þrítugur en hafði aldrei verið í alvarlegu sambandi. Nóg var af kvenfólkinu í kring um hann, en einhvern veginn fann hann aldrei þá einu réttu. Piltarnir voru nokkuð vel í því og skemmtu sér konunglega við að gera grín af fólkinu í karaokeinu þegar sú fegursta vera sem hann hafði nokkurn tíman séð tillti sér á næsta barstól. Hún bað hann um eld og renndi grönnum fingrum sínum þokkafullt í gegn um sítt, svart hárið. Hann horfði agndofa á stúlkuna. Þvílíka yndisveru hafði hann aldrei áður augum litið. Þykkt hár hennar lét skollitaðan lubba hans, sem venjulega stóð út í allar áttir, líta út eins og heysátu. Loks áttaði hann sig, þreif kveikjara úr höndum félaga síns sem var í þann veginn að kveikja sér í sígarettu, kveikti á honum, rétti í átt til stúlkunnar og sagði: ,,ég reyki ekki, en ég syng ágætlega”. Hann sá eftir að hafa sagt þetta um leið og hann sleppti síðasta orðinu og fann krumlu grípa um hjartað þegar stúlkan sagði með dillandi röddu: ,,ég dáist af mönnum með fallegar raddir. Villtu ekki taka eitt lag í karaokeinu fyrir mig?” Fyrir áeggjan félaga sinna staulaðist hann upp á svið og tók hljóðnemann í hægri höndina. Hinni strauk hann taugaveiklunarlega í gegn um hárið. Grannir fótleggirnir byrjuðu að skjálfa og brjóstvöðvarnir, sem hann hafði svo mikið fyrir að þjálfa, herptust svo mikið að skyrtan rifnaði næstum utan af honum. Honum tókst að stynja upp úr sér að hann ætlaði að syngja ,,A thing called love”. tónlistin byrjaði, en ekkert heyrðist frá honum. Tónlistin byrjaði á nýjan leik, en það var ekki fyrr en í þriðja skiptið sem hann tók við sér. Út úr honum komu hræðilegri hljóð enn nokkur í salnum hafði áður heyrt! Þegar lagið var á enda var alger þögn í nokkrar sekúndur. Síðan braust úr rosalegur hlátur. Fólk lá á gólfinu í hláturskrampa! Það vék fyrir honum og benti þegar hann gekk út í salinn. Hann stoppaði við barborðið þar sem félagar hans sátu en þeir horfðu bara ofan í glösin sín og þögðu. Fallega, leggjalanga, svarthærða stúlkan hafði snúið sér að öðrum fír sem sat og reykti henni til samlætis. Hann gekk að útidyrunum, út um þær og að bílnum sínum. Hann vissi að hann ætti ekki að keyra í þessu ástandi: búinn að drekka heil lifandis ósköp og þar að auki hryggbrotinn. Hann settist samt upp í bíllinn og ók af stað. Hann ók í hálftíma og það varð honum til happs að þetta var afskekktur vegur og þar að auki hánótt þannig að hann mætti engum. Hann stöðvaði bílinn úti í kanti, steig út, gekk spölkorn og lagðist í sandinn. Eftir að hafa legið þarna drykklanga stund og hugsað um allt og ekkert fór hann að hnusa út í loftið. Stuttu síðar fór að snjóa.