Ég hafði átt erfitt með svefn í nokkrar vikur, alveg síðan Breki dó. Hann var ári eldri en ég og hefði orðið sautján ára tveimur vikum eftir að hann kvaddi okkur. Mig, mömmu og pabba. Enginn áttaði sig á því hvers vegna hann hafði gert þetta; hann virtist vera ánægður með lífið og kvartaði aldrei undan neinu. En svo, einn morguninn, kom mamma að honum. Hann lá hreyfingarlaus og fölur í baðkarinu. Vatnið var kalt og ljósrautt. Það hafði blandast blóðinu fullkomlega, og varð dekkra með hverjum dropanum sem yfirgaf líflausan líkama bróður míns. Seinna var okkur sagt að hann hafði dáið nokkrum klukkutímum áður en mamma sá hann. Einn í skjóli nætur. Næstu vikur voru okkur erfiðar, og við fórum ekki mikið út úr húsi; foreldrar mínir tóku sér frí frá vinnu og héldu mér heima, ekki það að ég vildi fara út. Ég vaknaði alltaf síðastur á morgnana, enda fór ég eflaust alltaf að sofa á eftir foreldrum mínum. Ég gerði fátt annað á kvöldin en að vafra um á Netinu og stara á tölvuskjáinn; líflaus, eins og bróðir minn í baðkarinu. Þegar ég fór fram úr á morgnana sat pabbi yfirleitt í náttsloppnum við eldhúsborðið, með kaffibolla í hönd, og þóttist lesa blaðið. Mamma, á hinn bóginn, var alltaf vel til höfð; hún var snyrtilega klædd og með hárið vel greitt. Ég, rétt eins og pabbi, sá ekki tilganginn í því.

Þessir dagar liðu hægt og við sögðum fátt. Ég eyddi miklum tíma fyrir framan sjónvarpið og tölvuna. Mamma sat oft með mér inni í stofu og las bækur. Hún hlaut að hafa lesið að minnsta kosti tíu stykki þegar loks kom að jarðarförinni. Pabbi eyddi miklum tíma inni í hjónaherberginu, og ég sá hann yfirleitt ekki nema þegar hann fór út að reykja. Hann hafði hætt að reykja þegar Breki fæddist, en sígaretturnar virtust færa honum einhverja huggun. Þó ég hafi alla tíð verið mikið á móti reykingum láði ég honum það ekki. Hver tekst á við sorg á sinn hátt.

Kistulagningin var tíu dögum eftir dauða Breka, og ellefu dögum eftir að við tveir spörkuðum bolta á milli á stóra grasfletinum í hverfinu. Hann var miklu betri en ég í fótbolta, og mér fannst það merkilegt að hann hafi alltaf nennt að spila með mér. En þannig var Breki; svo ótrúlega þolinmóður að ekkert fékk á hann. Pabbi gekk á undan okkur mömmu inn í kapelluna. Við vorum fyrst á staðinn og ungur maður tók á móti okkur. Hann vottaði okkur samúð sína og fór svo inn í nálægt herbergi sem var líklega skrifstofan hans. Ættingjar okkar streymdu smám saman inn, ásamt nokkrum vinum Breka, og allir heilsuðu öllum þar til komið var að athöfninni. Við þrjú settumst fremst vinstra megin ásamt foreldrum mömmu og pabba hans pabba. Ég hleypti ekki út einu einasta tári alla athöfnina; ég starði á líkkistuna allan tímann og gaf því sem presturinn sagði lítinn gaum. Mamma hallaði sér upp að pabba og grét stanslaust. Hann gerði það að vísu að líka, en tárin sem komu frá honum voru öðruvísi; þau voru færri, og það var eins og hvert tár segði miklu meira en nokkurt þeirra sem kom frá mömmu. Ég var fyrstur til að kveðja Breka þar sem hann lá í kistunni. Hann leit eðlilega út; fyrir mér hefði hann allt eins getað verið sofandi. En svo strauk ég honum um kinnina. Hún var köld og ég kippti höndinni snöggt að mér. Ég hafði ekki búist við því að hann væri svo kaldur. Ég signdi yfir hann og yfirgaf kapelluna. Úti var byrjað að rigna. Við gengum hægum skrefum inn í bílinn og ákváðum að fá okkur að borða. Ég man ekki alveg hvert við fórum, en ég man að ég hafði ekki lyst á neinu nema súpu, sem ég kláraði ekki einu sinni. Þegar við komum heim fór ég beint í rúmið, þó klukkan væri ekki nema rétt byrjuð að ganga sjö.

Ég lá lengi andvaka. Ég hugsaði um tímana sem við Breki áttum saman, alla vitleysuna sem við gerðum; öll dyraötin, trén sem við klifruðum og hrufluðu hnén. Fólki finnst þetta víst um alla sem deyja ungir, en Breki var einstök persóna. Hann hafði alltaf staðið með mér í gegnum súrt og sætt, og komið fram við alla eins og bestu vini sína. Hann var einstakur. Það sem ég saknaði þó mest við Breka var kímnigáfan og jákvæðnin; hann gat alltaf séð spaugilegu hliðar alls, og það var sjaldan sem eitthvað kom honum úr jafnvægi. Eftir að hafa hugsað um Breka í nokkrar klukkustundir, án þess að komast nálægt því að festa svefn, ákvað ég að gera svolítið sem ég hafði ekki gert í mörg ár. Ég ákvað að sofa í rúminu hans. Við höfðum búið í sama húsinu síðan ég var tveggja ára. Við höfðum alltaf deilt herbergi, enda voru þau ekki nema tvö heima hjá okkur. Ég hafði aldrei neitt út á það að setja, og þó Breki virtist sama sinnis grunaði mig að hann hafi viljað fá sitt eigið herbergi. Mörgum árum síðar sögðu foreldrar mínir mér að þau hafi verið að ganga frá samningum um kaup á nýju húsi á þeim tíma sem Breki dó, en þau sáu aldrei tilganginn í því að klára þá samninga. Ég held þau hafi verið hrædd um að missa stóran hluta þeirra minninga sem þau áttu af Breka með því að flytja. Ég taldi að sökum þess hafi aldrei neitt orðið af fyrirhuguðum flutningum.

Rúmið hans Breka, sem var alveg eins og mitt, var orðið alltof lítið fyrir hann, en ég minnist þess aldrei að hann hafi kvartað undan því. Ég skreið undan sænginni minni, tók skrefin þrjú, sem skiluðu mér yfir allt herbergið, og kom mér þægilega fyrir undir sænginni hans. Yfir mig kom hrollur og undarleg tilfinning í kjölfarið sem ég gat ekki útskýrt. Ég hugsaði um síðustu jólin sem við áttum saman sem fjögurra manna fjölskylda. Breki hafði verið veikur í nokkurn tíma fyrir þau, en lét það ekki á sig fá; hann borðaði á við okkur öll, og daginn eftir varð hann enn veikari. Örlítið og saklaust glott færðist yfir varir mínar um leið og ég lokaði augunum og sofnaði.

Ég veit ekki hversu lengi ég hafði sofið þegar ég vaknaði skyndilega. Ég deplaði augunum nokkrum sinnum, og það tók mig smástund að ná áttum. Kaldur vindurinn lék um bera leggi mína og ég leit í kringum mig. Hvar var ég? Ég stóð í niðamyrkri á stóru engi; svo stóru að ég sá ekki hvar það endaði. Það eina sem ég sá var endalaus víðáttan sem teygði sig í allar áttir. Ekkert annað. Var mig að dreyma? Það gat ekki verið; allt var svo raunverulegt. Hafði ég gengið í svefni? Ég leit betur í kringum mig, en sá ekkert sem gat gefið til kynna hvar ég væri. Þetta líktist heimaslóðum mínum ekki neitt. Ég hljóp eins langt og ég gat í þá átt sem mér fannst vera áttin heim. En umhverfið breyttist ekki neitt; ég sá ekkert nema endalausa víðáttuna. Ég reyndi að öskra, en ég gat ekki komið frá mér hljóði, sama hvað ég reyndi. Ég hljóp lengra og lengra, þar til ég var aðframkominn af þreytu og féll niður á fjóra fætur.


Ég var villtur. Ég vissi ekkert hvar ég var.


Svo varð allt svart.