Jesper hvatti Grána gamla hratt áfram því honum lá svo á að komast heim að Snauðustöðum. Hann hlakkaði til að segja húsdýrunum frá nýju húsfreyjunni sem var væntanleg, hann var vanur að tala við dýrin.
Hann áttaði sig ekki á því fyrr en um seinan hversu gamall og lúinn Gráni var orðinn. Rétt áður en þeir náðu heim gafst gamli hesturinn upp og sprakk, hann bara hreinlega datt niður og dó. Jesper klappaði hræinu og leið illa yfir glötuðum vini.
,,Þú ert nú þó ekki alveg ónýtur þrátt fyrir að þú hafir sprungið Gráni minn. Hann pabbi gamli var búinn að segja mér að ef þetta mundi koma fyrir þá ætti ég að setja þig niður í tunnu ásamt salti” sagði hann og strauk háls hestsins.
,,Og seinna ef hart er í búi og ég á engan mat þá sæki ég þig aftur” tautaði hann, honum leyst ekki neitt á að fara að éta gamlan vin. Hann hljóp síðasta spölinn heim. Hann fór beint að gamla girðingarstaurnum og leysti Vind, geithafurinn hoppaði og skoppaði, þó gamall væri, á hlaðinu frelsinu feginn.
Þar næst fór Jesper og náði í dráttarvélina. Hann batt bandið sem hafði verið um hálsinn á Vindi gamla utan um stóra tunnu, hinn endann festi hann við dráttarvélina. Því næst fór hann inn í bæinn og náði í stóran poka af salti, hann leit í kringum sig en sá Við gamla hvergi.
,,Ég finn köttinn á eftir” sagði hann við sjálfan sig og fór aftur út. Hann henti saltpokanum upp í aukasætið á dráttarvélinni og hoppaði svo sjálfur í hitt sætið. Að þessu loknu keyrði hann af stað í áttina að Grána gamla með tunnuna skoppandi í eftirdragi. Þegar hann var búinn að troða Grána gamla ofan í tunnuna, ásamt saltinu sem hann var ekkert að taka úr pokanum, dró hann tunnuna til baka á dráttarvélinni að bænum.
Þegar hann kom að útikamrinum þá bræddi dráttarvélin úr sér, það rauk öll heljarinnar ósköp af henni. Jesper stökk ofan af vélinni og opnaði litla húddið, þá sá hann smá eld loga þarna niðri.
,,Hjálp, hjálp” hrópaði hann og hljóp til hægri og vinstri.
Allt í einu rak hann augun í stóru fötuna sem pabbi hans geymdi alltaf bruggið sitt í. Hann greip fötuna sem var full af spíra og skvetti úr henni yfir dráttarvélina. Auðvitað blossaði upp þessi líka svakalegi eldur og brann dráttarvélin til kaldra kola.
,,Almáttugur” hugsaði Jesper á meðan hann horfði á vélina brenna.
,,Hvað á ég að segja henni Gunnu minni á morgun?”
Hann gekk yfir að tunnunni með Grána og velti henni á bakvið kamarinn. Þar reisti hann tunnuna upp og fór svo til að athuga með þær Sillu, Villu og Millu, hann opnaði hænsnakofann og leit inn.
,,Já en hvað er að tarna, þarna liggur þú þá Viður gamli” sagði hann og fór inn í kofann.
Jesper dauðbrá þegar hann kom inn í hænsnakofann, það var allt í fiðri.
,,Já en hvað hefur þú gert beinið þitt” sagði Jesper þegar hann sá gólfið á kofanum fullt af beinum og fjöðrum. Viður gamli, sem vissi uppá sig sökina, hljóp út með Jesper á hælunum. Jesper tókst eftir mikinn eltingarleik að reka Við inn í hænsnakofann og læsa hurðinni, hann var móður og másandi.
,,Þú skalt fá að dúsa þarna inni þar til þú verpir eggjum í staðinn fyrir þær Sillu, Villu og Millu bjáninn þinn” sagði hann dauðþreyttur þegar hann náði andanum. Að svo búnu fór hann inn í bæinn þar sem hann gekk til náða.
Eldsnemma næsta morgunn gægðist sólin yfir fjallahringinn sem umlukti Ráðríkusveit. Hún hellti sér glaðlega yfir Snauðustaði. Jesper vaknaði við eymdarlegt væl í Vindi úti á hlaði. Hann stökk framúr og hljóp út á ullarbrókinni einni fata. Honum dauðbrá þegar hann rak tærnar í og féll kylliflatur um eitthvað skrýtið sem lá beint fyrir útidyrunum. Hann stóð upp og leit á hrúguna sem hann hafði dottið um.
,,Já en ert þetta þú Vindur gamli” sagði Jesper og beygði sig niður til að reyna koma gamla geithafrinum á fætur. En það var alveg sama hvernig hann togaði í skeggið á geithafrinum, hann bara lá kyrr og vældi aumingjalega. Eftir smá hamagang og pústra kom stórt andvarp frá Vindi, síðan lá hann grafkyrr. Jesper klórði sér í lubbanum og leit óhamingjusamur á dýrið.
,,Ég er nú hræddur um að henni Gunnu minni líki nú ekki allskostar við allar dýraleifarnar sem orðið eru út um allt hérna” hugsaði hann dapur í bragði.
Því næst dró hann Vind á bakvið bæinn. Þar hafði stór hola verið grafin einhvern tíma. Jesper lét Vind ofan í holuna og gróf yfir hann.
,,Nú er Vindur í guðsríki” hugsaði Jesper og minntist um leið foreldra sinna sem höfðu farið sömu leið, ofan í holu og grafið yfir. Hann flýtti sér inn í bæinn aftur og klæddi sig í betri fötin sín;
Gamlar buxur sem mamma gamla hafði saumað úr gömlum efnisbútum á síðasta ári, lopapeysu sem keypt hafði verið þegar hann fermdist og spariullarsokka sem voru með götum á hælunum. Þar næst setti hann upp fínu sparilambhúshettuna. Að lokum tróð hann sér í alltof þröng stígvélin.
Hann lagði af stað fótgangandi í biðilsferðina því að Gráni gamli var í tunnunni og dráttarvélin brunnin. Samt var Jesper nokkuð glaður í bragði og hann raulaði lagstúf sem kom út úr honum eins og væl í breimaketti, sem var kannski ekki svo fjarri lagi að hann væri.
Framhald seinna!