Jesper sat uppi á Grána gamla hinu megin við Snýtukot, hann hafði bankað og barið á dyrnar hjá Skjónu gömlu en engin svaraði svo hann snéri bara aftur heim á leið. Þegar hann var kominn upp ásinn sem lá á milli Snauðustaða og Snýtukots stoppaði hann og leit til baka, þá sá hann að einhver var á ferðinni við lækinn hinu megin við Snýtukot. Þessi mannvera var það langt í burtu að Jesper gat engan veginn séð hvort þetta væri Skjóna gamla eða einhver annar, hann ákvað að ríða til baka og athuga það.
Þegar Jesper nálgaðist mannveruna sá hann fljótt að þetta var ung stúlka.
,,Jú heyrðu er þetta ekki eldri dóttir herra Einráðs á stóra herrasetrinu?” spurði Jesper sjálfan sig, hann þekkti aðeins til þeirra á Ríkabæ.
,,Það væri nú gott að fá svona fína dömu sem húsmóður heim að Snauðustöðum, þá væri nú gaman” hugsaði hann með sér.
Þegar hann kom nær ætlaði hann að hoppa ofan af Grána gamla en rak tærnar í hausinn á hestinum og flaug skakkur yfir hann. Jesper greyið lenti beint á rassinn, á jörðinni. Hann var snöggur að standa upp rjóður og skömmustulegur.
Gunna horfði áhugasöm á þegar væntanlegt fórnarlamb giftingaráforma hennar kom ríðandi á móti henni. Hún skellihló þegar hún sá Jesper fljúga upp í loftið af hestinum og lenda harkalega á bossann, hann spratt svo hratt upp að það lá við að hann væri dottinn aftur.
,,Almáttugur” sagði Gunna og reyndi að vera alvarleg, henni var skemmt.
,,Meiddir þú þig nokkuð?” spurði hún og hélt fyrir brosgrettinn munninn.
,,Neeei, ja eða ég veit það ekki alveg ég er ekki búinn að athuga það” sagði Jesper og nuddaði auman botninn.
Hann greip í Grána gamla til að styðja sig því það hringsnérist allt í kollinum á honum. Gunna brosti og spurði Jesper hvort þau ættu ekki að setjast þarna við lækinn sem rann eftir sveitinni, framhjá Snýtukoti. Jesper samþykkti það því hann var nú strax búinn að ákveða að bjóða Gunnu að gerast húsfreyja á Snauðustöðum.
,,Kannski að hún vilji eiga mig” hugsaði hann og ákvað að bera upp ósk sína áður en hún færi aftur af stað. Þau settust við lækinn og Gunna fór úr skónum, hún stakk fótunum niður í ískaldan lækinn. Heimasætan unga leit á Jesper, hún ákvað að kanna hversu mikið hann ætti af búfé og hvort yfirleitt það mundi borga sig að gerast húsráðandi á Snauðustöðum.
,,Það var leitt, þetta með foreldra þína Jesper minn” byrjaði hún. Jesper leit á Gunnu og velti fyrir sér hvað það var sem henni þótti svona leitt.
,,þau koma víst ekki aftur” sagði hann sorgbitinn og leit niður.
,,Nei” sagði Gunna, henni var svo sem alveg sama. Hún dinglaði fótunum í læknum.
,,Eru einhver húsdýr á Snauðustöðum?” spurði hún næstum kæruleysislega.
,,Já, það eru kindur, geit, hænur, köttur og hestur” svaraði Jesper og var að rifna af stolti þegar hann hugsaði heim til Sillu, Villu og Millu, Viðs, Allra, Engans og Vinds.
,,Já og ég verð að muna eftir því að leysa Vind þegar ég kem heim” sagði hann við Gunnu sem kippti sér ekkert upp við dónaskapinn. Hvað kom henni svo sem við hvað hann gerði þegar hann var einn, auðvitað vissi hún ekki að geithafurinn hans hét Vindur. Hún teiknaði hringi með fótunum í lækinn.
,,Eru einhverjar vélar á Snauðustöðum Jesper?” spurði hún því næst.
,,Jahá” hrópaði Jesper svo hátt að Gunna hrökk við og var næstum dottin ofan í lækinn.
,,Ég á dráttarvél sem er jafngömul mér og hún er með aukasæti og þrem gírum” sagði hann og sýndi Gunnu fimm putta til að leggja áherslu á gírana þrjá. Hún brosti og leit dreymandi upp í loftið vel meðvituð um að Jesper var að horfa á hana, best að nota kvennlegt útlitið til að tæla hann.
,,Mikið væri nú yndislegt ef ég ætti líka mín eigin húsdýr og bæ og svona líka fína dráttarvél með aukasæti og allt” sagði hún og hallaði undir flatt.
Jesper tók af sér lambhúshettuna og ætlaði að reisa sig upp en flækti þá saman fótunum og missti þá undan sér. Hann greip í Gunnu og saman skullu þau með miklum látum og gusugangi beint út í lækinn. Gunna greip andann á lofti og ætlaði að fara að rífast og skammast, en hún mundi eftir áætlunum sínum og leit á rennblautan piparsveininn. Hann lá rennblautur og buslandi við hliðina á henni og lét eins og hann væri að drukkna, þvílíkt og annað eins.
,,Hjálp, hjálp” hrópaði Jesper og svamlaði í hnédjúpum læknum.
,,Ég kann ekki að synda, ég kann ekki að synda” kallaði hann dauðskelkaður og gegnblautur. Gunna greip í hann og dró hann alveg að sér.
,,Hann er bara svolítið sætur svona rennblautur” hugsaði hún og tók utan um hálsinn á Jesper.
,,Kannski gæti ég skvett á hann vatni svona af og til þegar við erum gift” sagði hún við sjálfa sig og brosti sætt til Jespers. Jesper reisti sig upp á hnén eftir að hann áttaði sig á grunnum læknum. Hann leit á Gunnu svona rennblauta og hugsaði með sér að hún væri nú engin rosaskvísa, en ef hún vill mig ætla ég að fara með hana heim og giftast henni. Hann tók í hendurnar á Gunnu og byrjaði klaufalega bónorðssetningu.
,,Eh, uh heldurðu að, eh þú þarna, hérna viljir kannski, hérna, það er að segja langar þig, eða eigum við kannski” hann gafst upp og andvarpaði. Gunna fylgdist vel með honum og skellihló þegar hann gafst upp.
,,Auðvitað vil ég það Jesper minn” hrópaði hún ánægð með þróun mála og hoppaði upp úr læknum með Jesper í eftirdragi.
,,Er það” sagði hann og velti því fyrir sér hvað það nú væri sem hún vildi.
,,Hvað er það sem þú vilt Gunna mín?” spurði hann og vonaði að hún færi nú ekki að hlaupa í burtu vegna þess að hann hafði dregið hana með sér út í lækinn, hún virtist ekki vera reið.
,,Nú auðvitað giftast þér og eignast Snauðustaði og öll húsdýrin og dráttarvélina” sönglaði hún ánægð, mikið var þetta auðvelt.
,,Ég er sko alveg til í að eiga Snauðustaði” sagði hún og hló, Jesper leit ringlaður á Gunnu, eiga Snauðustaði.
,,Hvar á ég að búa ef þú ætlar að eignast allt sem ég á?” spurði hann og honum leið mjög illa, þetta virtist ætla á annan veg en hann ætlaði sér.
,,Já en kjáni ertu Jesper minn, auðvitað býrðu hjá mér og hugsar um öll húsdýrin og landið” sagði hún og brosti sínu blíðasta til tilvonandi eiginmanns, já eða vinnumanns.
,,því sennilega verður hann ekki mikið meira en vinnumaður hjá mér á sínum eigin bæ” sagði Gunna sjálfsánægð við sjálfa sig og einbeitti sér aftur að því að brosa.
Jesper varð himinlifandi yfir láni sínu og spurði Gunnu hvort þau ættu þá bara ekki að drífa sig heim að Snauðustöðum.
,,Nei, nei” sagði Gunna og gretti sig, hvað hélt hann eiginlega.
,,Þú verður að koma heim á Ríkabæ og biðja hann pabba um hönd mína, síðan verðum við að ákveða giftingardaginn, þá gifta okkur og síðan flyt ég til Snauðustaða” sagði hún.
Jesper varð undrandi á svipinn.
,,Hvers vegna á ég að biðja herra Einráð um höndina á þér?” spurði hann.
,,Ég ætlaði jú að fá þig alla” sagði hann og varð hugsi á svip. Gunna skellihló, hún hafði aldrei heyrt aðra eins vitleysu.
,,Jesper minn það er bara tekið svona til orða auðvitað færðu meira en bara höndina” sagði hún og hugsaði með sér að það væri orðið svo áliðið að best væri að drífa sig heim. Þau ákváðu að Jesper mundi koma heim á Ríkabæ snemma næsta morgunn til að biðja hennar.
Þau kvöddust, bæði ánægð með málin hvort á sinn hátt þó. Þegar Gunna kom heim var engin sjáanlegur svo hún fékk sér smá snarl og fór svo til álmunar sinnar. Hún fór upp í rúm og þar lét hún hugann reika. Hún hugsaði um hvað hún ætlaði að gera þegar hún ætti sinn eigin bæ og sitt eigið búfé. Hún sofnaði út frá þessum dásamlegu sæluhugsunum þó ekki væri endilega kominn háttatími ennþá.
Framhald seinna.