Það hljóma enn martraðir í hausnum á mér. Ég horfi á sjálfan mig í speglinum, þunnan og illa sofinn. Allir mínir draumar, um þig og mig orðnir að ösku sem fýkur burt í köldum vetrarvindum þessa dimma dags. Ég lít undan í hryllingi. Ég hef enga löngun til að horfast í augu við sjálfan mig, horfa ofan í hyldýpi sálar minnar, sálleysu minnar.

Hvernig stendur á því að alltaf þegar ég er nokkurn veginn sáttur þarf ég að klúðra öllu? Er vég virkilega svona vitlaus að ég get ekki einu sinni haft stjórn á sjálfum mér? Ég trúi því bara ekki. En samt er þetta ekki alslæmt, hvað segir máltækið, eigi er svo með öllu illt að ei boði gott. Eða svo sungu Ríó tríó að minnsta kosti. Á maður ekki að trúa öllu sem er logið að manni?

Ef maður er með þannig hugarfar ætti manni ekki að veitast erfitt að búa til gull úr skít. Þá væri maður í raun að kúka gulli. Æ, mér leiðist reyndar alveg afskaplega svona ofur-jákvætt fólk, það hljómar alltaf svo heimskt og blint. Það er eins og að það neiti að horfast í augu við einfaldar staðreyndir, eins og hvort sem okkur líkar betur eða verr, þá er heimurinn á leið til andskotans, hvar svo sem hann á heima.

Ég sest við pianóið mitt. Reyni að spila eitthvað svo að ég hætti að hugsa um þig en einhvern veginn kemur heil rommflaska í veg fyrir það. Hún situr sem fastast í hausnum á mér og dregur með sér alveg hræðilega timburmenn. Inni í svefnherbergi sefur ljóshærða stelpan frá því í gær enni. Ég nenni ekki að vera að vekja hana. Hún getur séð um sig sjálf, en samt vona ég innst inni að hún fari nú að drulla sér heim. Ég nenni ekki að hafa einhvern hérna yfir mér núna. Mig langar að sofna, ó hvað mig langar að sofna og gleyma gærkvöldinu. Svo þegar ég vakna þá er kominn morgunn á ný og allt sem gerðist í gær var bara draumur og við hlæjum að öllu saman. En ég veit alveg að slíkt gerist bara í bíómyndum, og einstaka lélegri bók.

Æ, hvern er ég að reyna að blekkja? Lífið er bara svona, stundum gengur manni vel en stundum illa. Maður getur ekki ætlast til að allt gangi eftir vilja manns. Svona hlutir gerast bara af sjálfu sér, svona eins og að örlaganornirnar hafi gripið í taumana og sagt hingað og ekki lengra. Kannski var okkur ekki ætlað að vera saman, kannski lágu örlagaþræðir okkar ekki lengur í flækju og það hafi slitnað á milli okkar.

Þú veist að ég er alveg ónýtur án þín. Tíminn líður í algerri þögn og tómarúmi, þó finnst mér eins og heyri létt fótatök þín og ég sný mér við, en sé þig hvergi. Ég leita eftir þér inni á klósetti en þú ert farin. Og það er fyrst núna að ég skil það. Mér finn lykt af þér í rúmfötunum eftir að ljóshærða stelpan er farin. Ég faðma að mér sængina þína og í eitt augnablik líður mér eins og þú sért þar.

Þú átt eflaust aldrei eftir að sjá þetta bréf, en mér finnst ágætt að skrifa það. Ég hef aldrei verið mikið fyrir að sýna tilfinngar mínar, og ég veit vel að það hefur farið fyrir brjóstið á þér. Það þýðir samt ekki að ég mér þyki ekki vænt um þig. Æ, ég er bara ekki þessi tilfinnga-týpa, ég læt frekar verkin tala. Kannski hefði ég átt að segja þér oftar frá því hvernig mér leið, til dæmir þegar ég var dapur og lét það bitna á þér. Þú hefur að sjálfsögðu rétt fyrir þér, en ég á eflaust aldrei eftir að viðukenna það svo að þú heyrir. Af hverju? Jú, ég er fífl, hef alltaf verið það, verð það alltaf.

Það að vera fífl er fyrsta flokks sjúkdómur. Eins og krabbamein sem étur þig upp að innan og á endanum ertu orðinn svo mikið fífl að þú hefur ekki tíma fyrir neitt annaðl. Ég er haldinn þessum sjúkdómi, þetta er sjúkdómur, ég er fífl. Og það versta er að það er ekki til nein þekkt lækning, fyrir utan líkamlegt ofbeldi af verstu tegund. Fer annars ekki þannig fyrir flestum fíflum, þau eru á endanum lamin til óbóta?

En ég vil ekki vera svona…….