Mig langar til að hafa smá formála áður en fólk les yfir söguna. Þetta er örsaga sem gaus hreinlega upp úr mér í morgun. Þetta er önnur “smásagan” sem ég skrifa, sú fyrsta er á Bílaáhugamálinu og þætti mér vænt um að þið kíktuð á hana og gagnrýnduð ef þessi vakti áhuga. :)

Þakkir fá: Icelily sem er var óformlegur ritstjóri sögunnar, las hana yfir og aðstoðaði mig við að fínpúsa hana. Weezer, Maus og sérstaklega hann Biggi í Maus, en smásagan hans Augnskuggadrottningin er á heimasíðu Maus. Þaðan fékk ég sterk áhrif.

Endilega komið með kritík, ég er hræddur um að þessi fíkn mín í skriftir sé að aukast. En nóg af röfli, hér er sagan:


Síðasta heimsóknin

Ég hef hitt þig áður. En í þetta skiptið tókst þér ekki að laumast svona upp að mér eins og fyrr. Ég veit ekki hvernig ég bar kennsl á þig núna. Andvökunæturnar… þær komu upp um þig. Af hverju? Staðreyndin að þær komu í röðum, næturnar sem svefninn vildi ekki heimsækja mig fyrr en sólin skein milli rimlatjaldanna? Eða kannski opnaði tíminn, sem ég hafði til að hugsa meðan ég beið svefnsins, augu mín.

Geislandi sjálfsöryggið sem ég hélt ég hefði virðist hafa gufað upp. Án þess að ég tæki eftir því. Nú skil ég hvers vegna liðhlaupar eru skotnir. Ég sagði stoltur að ég gæti hringt í hvaða stúlku sem er og boðið henni út. Ég gæti alveg hringt, en hvað ætti ég að segja? Uppspretta orðanna virðist allt í einu of lítilfjörleg. Ég þarf að taka á honum stóra mínum núna. Öll skiptin sem þú hefur heimsótt mig og ég hef flúið af hólmi. Á þetta að verða eitt af þeim?

En ég er vitrari núna. Kvöldin sem ég hef legið og hlustað á rokktónlist eftir nörda eins og mig sem lenda í stelpuvandræðum. Kannski skipta þau ekki máli þegar ég horfist í augu við þig núna aftur. Ég hélt að diskarnir væru loksins farnir að safna ryki…

Þeir bíða átekta. Það er ekki við hæfi að ég sitji umvafinn sænginni fyrir framan tölvuna að ganga átta að morgni og hlusti á Burt Bacharach. Enginn tilgangur að fara í rúmið. Ég væri bara einn þar. Í staðinn eru það ég, Dionne Warwick og ritvinnslan. Andskotans. Þarf allur innblástur að stafa af skorti?

Ef ég vissi bara hvað ég ætti að gera, gæti ég fært það í orð. Það er ekki munnurinn sem er lamaður, það er hugurinn sem starir í bílljósin sem nálgast óðfluga. Stjarfur, hræddastur að þau fari framhjá.

Þú ert kominn aftur, gamli fjandvinur. Ef ég þekkti þig bara með nafni…