Úrkoma- 1. kafli
„Ég þoli þetta ekki lengur!“ Heyri ég gargað fyrir innan. Rödd föður míns er greinilega nokkrum sentímetrum frá mér, einungis tréhurðin aðskilur okkur. Ég finn hvernig tárin brjótast fram í augnkrókana og ég spretti frá hurðinni. Stekk ofan í nokkra polla á leiðinni að hjólageymslunni. Leita í offorsi að lyklunum í vösunum. Hlýjan, dásamlega hlýjan sem ég hef ekki fundið fyrir alltof lengi. Ég sest upp við hurðina. Græt söltum tárum.
Ég ranka við mér þegar síminn titrar. Sólarglæturnar smeygja sér inn um lítinn glugga við hliðina hjá hurðinni. Mig verkjar í hálsinn af hálsríg og geyspa. Fjandinn! Ég veiði símann upp úr jakkavasanum. Bara Eva. Foreldrar mínir tók ekki einusinni eftir því að ég væri ekki heima. Hversu sorglegt.
„Hæ,“ segi ég rámri röddu.
„Ætlaðirðu ekki að hringja klukkan ellefu?“ Spyr Eva grautfúl. Ég stend upp.
„Sorrí, en heyrðu ég hringi á eftir,“ segi ég þurrlega. Ég hef ónotatilfinningu í maganum.
„Ekki dirfast að skella á, Yrja!“ Ég skelli á.
Ég opna dyrnar varlega. Allt er hljótt.
„Mamma?“ Ekkert svar. Ég heyri tifið í klukkunni.
„Pabbi?“ Ekkert svar. Ég verð hrædd. Labba hröðum skrefum á efri hæðina og upp í risið mitt. Klifra aftur niður stigann og lít út um gluggann. Enginn bíll, hvorki mömmu né pabba. Klifra aftur upp í risið. Leggst á rúmið. Hvenær varð allt svona flókið? Ég dæsi og stend upp. Geng að kommóðunni minni og ríf upp gallabuxur og prjónapeysu. Prjónapeysuna prjónaði amma Yrja fyrir þrem árum, alltof stór þá en passar núna. Amma Yrja var yndisleg kona, hún lét mér alltaf líða svo velkominni. Þess vegna tók ég það svo nærri mér þegar hún dó í fyrra. Ég læt hárið vera, alveg vita gagnslaust að grauta eitthvað í því.
Það mætti segja að ég sé dæmigerður vatnsberi, þrjósk, sérkennileg, oft ráðrík en greind.
„Allt er hægt að taka til baka nema vitneskju“ þetta er uppáhalds orðtiltækið mitt. Ég veit ekki hver sagði það upprunalega en það er rökrétt. Mér líkar hlutir sem eru rökréttir, þess vegna er ég góð í stærðfræði og raungreinum. Ég þoli ekki íslensku útaf öllum undantekningunum.
Ég heiti Yrja eftir ömmu minni. Ég skrifaði um hana áðan. Hún var góð, ég tengi flestar bernskuminningar mínar við hana. Í hvert skipti sem ég finn kaffilykt ímynda ég mig sitja við gluggan í eldhúsinu hennar í Vestmannaeyjum, dýfandi matarkexi í kaffi. Hún kom mér manna fyrst uppá það að drekka kaffi, get ekki sagt eftirá að líta að það hafi verið skynsamlegt. Yrja þýðir regnúði, sem er mjög merkilegt því þegar ég fæddist rigndi líkt og hellt væri úr fötu. Mér finnst gaman að nöfnum og trúi að merkingarnar á bak við nöfnin séu ekki tilviljanir einar saman.
Stjörnufræði heillar mig líka og ég skoða stjörnuspána mína daglega. Ég fer samt ekki um og státa mig af því, fólk horfir þá á mig einsog ég sé eitthvað klikkuð. Ég er það ekki, hef bara aðeins öðruvísi áhugamál en jafnaldrar mínir. Það er varla neitt athugavert við það.
Eva þýðir líf. Þess vegna ákvað Áslaug að skíra hana líf, því hún fæddist nær dauða en lífi og missti tvíburasystur sína, Vöku. Hún dó úr súrefnisskorti í fæðingu og þó hún hefði lifað það af hefði hún að öllum líkindum orðið þroskaheft. Kannski er dauðinn þá illskárri kostur? Vaka þýðir sú sem vakir. Þegar ég sagði Evu þetta sagði hún þurrlega;
„Ætli systir mín vaki þá ekki yfir mér,“ það kæmi mér ekki að óvart ef Eva hefði rétt fyrir sér. Eva er vinsæl, þá samt aðallega meðal strákanna, stelpurnar öfunda hana eða eitthvað álíka. Fyrirlíta hana upp að vissu marki. Eva er líka oft afskaplega heppin í flestu sem hún tekur sér fyrir hendur, kannski ekkert alltof skörp en engu að síður heppin. Spurningarnar sem hún veit svörin við virðast trekk í trekk koma fyrir á prófum prófum. Svo það er kannski ekki svo vitlaust að segja að hún eigi engil. Foreldrar hennar höfðu reynt lengi að eignast barn þegar Áslaug varð ófrísk af Evu og systur hennar. Og þessvegna hefur Eva alltaf verið dekruð. Áslaugu og Rúnari til mikillar gleði varð samt Áslaug ófrísk aftur og ári eftir að frumburðurinn Eva fæddist kom Bjarki, sem þýðir litli björn. Það var alltaf vel viðeigandi nafn. Það var áður en hann tók út vaxtarkipp í fyrra og núna er hann miklu hærri orðinn en við Eva.
Ég helli kaffi í bolla. Finn hvernig kaffið hitar mig að innan einsog áfengi. Dýfi matarkexi ofan í og loka augunum. Hlusta á þögnina. Það er þægilegt. Síminn pípir í gallabuxnavasanum mínum en mér er of sama til að hirða um hann. Eva má eiga sig einu sinni.
Ekkert virðist ganga þér í haginn. Ekki láta blekkjast, heppnin er þér á næsta leiti.
Það er þó jákvætt, því líf mitt hefur verið virkilega stressandi undanfarið. Ég held að mamma og pabbi eru við það að skilja og það tekur á mig. Ég sem venjulega þoli vel breytingar.
Foreldrar mínir eru mjög ólíkir. Mamma er fædd og uppalin í Garðabænum. Hún er einkabarn og því hafa amma og afi alltaf hálfpartinn ofverndað hana, jafnvel á fullorðinsárum, þó svo hún vilji ekki viðurkenna það. Mömmu var ýtt út í lögfræði áður en hún gat gert upp hug sinn hvað hún vildi raunverulega verða. Í háskólanum kynntist hún pabba. Hún vann í bóksölunni meðfram námi og pabbi kom einn daginn og keypti bók um myndlist. Hann var þá ennþá í menntaskóla, sautján og mamma tuttugu og tveggja ára. Þegar pabbi sagði mér frá hvernig þau kynntust sagði hann að hann hefði boðið mömmu á kaffihús daginn sem hann sá hana í afgreiðslunni. Mamma samþykkti með trega, enda ekki á hverjum degi sem framhleypinn menntaskólapiltur bíður þér út samdægurs. Einhvern veginn viraðist það þó hafa virkað á hana því þau álpuðust útí samband, ömmu og afa til mikillar armæðu. Ekki bætti það álit ömmu og afa á tengdasyni sínum þegar hann hætti í menntaskóla til að einbeita sér að mynd- og ritlistinni. Mamma kláraði lögfræðina á mettíma og þegar pabbi var tvítugur og mamma tuttugu og fimm fluttu þau í aldrað, tveggja hæða timburhús í Garðabænum, keypt af auðkilfingunum ömmu og afa. Með tímanum virðast þó hafa tekið pabba í sátt, það var víst svakalegur plús þegar pabba fór að gefa út skáldsögurnar sínar. Allavega, ári eftir að þau fluttu inn fæddist ég. Pabbi fékk stuttu seinna botnlangakast og gat ekki eignast fleiri börn. Ég veit að pabbi hefur alltaf tekið það nærri sér enda alltaf dreymt um stóra fjölskyldu. Hann skrifaði það í Hugrenningar gærdagsinis, opinskrárri, fyrstu skáldsögunni sem byggð er upp á hans eigin hugrenningum en með breyttum persónum. Ég hét Ósk í henni. Pabbi segir að það sé því ég er besta óskin sem hefur orðið að veruleika. Hann sagði mér það einusinni og mér hefur sjaldnast þótt jafn vænt um hann og þá. Á eftir Hugrenningum gærdagsinis kom Spádómur morgundagsins og svo er hann að vinna í þriðju bókinni; Postulínsfjöður. Á meðan pabbi syrgir börnin sem hann og mamma eignuðust aldrei hugsa ég að mamma sé því fegin. Hún er ekki beint „fædd til að verða mamma“ einsog margir orða það. Mér finnst eiginlega stórfurðulegt að hún hafi samþykkt að eignast mig.
Jæja, hvað finnst ykkur? Hvað má bæta? Endilega segið allt sem ykkur dettur í hug, mér veitir ekki af gagnrýni. Þetta er fyrsti kaflinn í bók sem ég er búin með, mig vantar bara álit áður en þori að gera eitthvað frekar með hana.
Ég var líka að velta því fyrir mér með karakterinn Yrju, er hún nokkuð einsog “Mary Sue”? Ég óttast það af öllu, ég vil hafa hana dálítið raunsæa.
Takk fyrir að lesa.