Við, sem andartaksaugnablik, eða eitthvað álíka langt og illskiljanlegt í augum útlendinga, erum hvorki löng né sérstaklega illskiljanleg í sjálfu sér. Við endumst ekki nema þetta illorðaða andartaksaugnablik og hvað sem við annars gerum, þá hverfum við. Það er auðskiljanlegt, allt sem við gerum leiðir til brotthvarfs okkar. Við höfum þó mínútur, klukkustundir, andskotinn hafi það, ég held við höfum heilu áratugina til að hugleiða hvað það er sem við lifum og hrærumst í þetta andartaksaugnablik sem það tekur okkur að vera til. Og þessar mínútur, klukkustundir, áratugi sem við öndum erum við fangar eigin sjálfs, þar eð hver er viðjaður af því að hafa sína sýn á heiminn og einskis annars, þó sumir hermi skelfilega vel. Það eitt hefur gert okkur illskiljanleg hver öðrum, enda er miðpunktur alheimsins aldrei annað en miðpunktur alheimsins.
„Já, ókei, þú ert miðpunktur alheimsins, en haltu því í þínum alheimi, vinur.“
„Sagði ég þetta upphátt?“ undrast ég.
„Þegiðu,“ hreytir hann útúr sér.
Honum líkar ekki við mig. Ég sé tryllingslegan glampann í óttaslegnu augaráðinu. Hann heldur mig laskaðan og illa verandi, en hann þekkir mig bara ekki. Enginn sem þekkir mig þorir að vera hræddur við mig.
„Hvað rann um skítskolaðan flöskustútinn sem þú varst að gúlpa, lagsmaður? Yfirgefnir sjómenn? Þetta er mitt land, böddí. Sestu skakkt og starðu fram,“ segi ég.
Honum líkar ekki við mig. Ég sé tryllingslegan glampann í fíngljáandi hringnum sem nálgast andlit mitt ógnvekjandi hratt. Nei bíddu, þetta er ég.
„Drullaðu þér út, hálfvitinn þinn.“
Þetta er ekkert sérlega merkileg hótun, ég hef heyrt hana oft áður. Ekkert við hana kemur á óvart, ekkert tryllir eyrað, ekkert keyrir heilann fram af kletti. Ofbeldið er jafnsársaukafullt og áður, þó, hugsa ég sem þeir kasta mér út. Ég stend varlega upp og lít í kringum mig, en held svo áfram reykjandi.
„Við, sem sykursjúkir samfélagsþegnar súrsykraðs samfélags töpum sérhvern dag aleigunni, nútíðinni, í rútínu hversdagsleikans. Hvenær ætlum við sem samfélag að vakna, skilja, vera það sem við ættum að geta verið?“ spyr ég fólk sem ég mæti.
„Ertu að káfa á kærustunni minni, ógeðið þitt?!“
Oh. Hálfviti. „Svo þú hefur ákveðið að loka augum og eyrum fyrir þeim dásamleika sem gæti verið ef byltingin væri hafin, bróðir. Það er vísindalega sannað að kvenfólk hlustar betur á mig þegar ég snerti þær, því ég er svo myndarlegur. Ég er bara að breiða boðskapnum, bróðir. Ég velti mér ekki með þeim oft, að sjálfsögðu.“
Hann er kannski hálfviti en þeir kunna margir að kýla. Ég ætti að vera orðinn vanur vonbrigðum mínum um heiminn, en ég er það ekki.
„Fyrst þú hefur svona rétta heimssýn afhverju hatarðu þá konur?“
Hvað var þetta? Heyrir hann hugsanir mínar?
„Þú ert illa geðveikur, glansapinn þinn. Er þetta nógu fáránleg móðgun, lagsmaður?“
Kannski hreyfi ég varirnar. „En, þú skilur, ég hata ekki konur. Það er bara þannig að ég má gera þetta.“
„Og það er bara þannig að þú mátt það ekki, fremur en ég má snerta þig, að vísu af meira offorsi, líkt og ég gerði þegar ég kýldi þig. Drullaðu þér bara burt og reyndu að menga ekki heiminn.“
Ég held í burtu, en aðallega því ég nenni ekki fleiri offorssnertingum. Ég hugsa um eigin galla, eigin fordóma, hvort það geti nokkuð verið að ég tapi á því að vera ég. Þvílíkar hugsanir. Þær eiga ekki við mig, þar eð ég þarf ekki á þeim að halda. Ég er stærri en þær, enda er vitneskja mín algjör, hugsa ég sem ég geng fram af þaki fyrir slysni.