„Sjáðu, Fróði, við höfum gleymt okkur,“ sagði hún um leið og hún kveikti loftljósið. „Það er kominn tími á kvöldmat, finnst þér ekki?“
Svartur kötturinn teygði makindalega úr sér áður en hann stökk lipurlega niður af sófanum, mjálmandi til samþykkis.
„Rétt hjá þér, elskan, við ættum að hafa fengið okkur að éta fyrir löngu. Hvað var ég eiginlega að hugsa, að svelta þig svona, elsku karlinn?“
Hann mjálmaði aftur, og hún var ekki frá því að tónninn væri ásakandi. Hún hló og hélt fram í eldhúsið með hann á hælunum.
„Ég hugsa að ég hiti upp pasta síðan í gær. Má bjóða þér svoleiðis, eða viltu bara kattamat?“
Kötturinn svaraði engu, stökk bara upp á eldhúsborðið og settist þar.
„Allt í lagi, pasta handa okkur báðum.“
Hún opnaði ísskápinn og náði í plastboxið sem geymdi pastaafgangana. Hún setti boxið við hliðina á kettinum.
„Opnaðu það fyrir mig, vinur.“
Fróði krækti klónum á vinstri framloppunni undir lokið og tók það af með einni hreyfingu um leið og hún setti Pepsi-flöskuna á borðið og lokaði ísskápnum. Hún tók boxið upp, opnaði örbylgjuofninn og skellti því inn áður en hún klóraði honum á bakvið eyrun.
„Þetta var virk skilyrðing, vissirðu það?“ spurði hún annars hugar á meðan hún lokaði örbylgjuofninum, stillti hann á mínútu og kveikti. „Það var Ivan Petrovich Pavlov sem kom fyrstur fram með það hugtak, hann rannsakaði meltingu hunda og fékk fyrir það Nóbelsverðlaunin í lífeðlisfræði árið 1904. Hann hafði óbeit á sálfræði, en var samt faðir námssálfræðinnar. Kaldhæðnislegt, ekki satt?“
Kötturinn mjálmaði til samþykkis, og gul augun fylgdu henni eftir þegar hún fjarlægði lokið af eldhúsborðinu, skutlaði því í vaskinn og náði í glas, disk og gaffal. Hún lagði borðbúnaðinn á borðið og náði í sérmerkta skálina hans. Örbylgjuofninn pípti, hún greip gaffalinn, opnaði ofninn og hrærði í pastanu í boxinu áður en hún lokaði hurðinni aftur, stillti á aðra mínútu og kveikti. Hún setti gaffalinn aftur á borðið, skrúfaði tappann af flöskunni og hellti í glasið. Hún fékk sér sopa áður en hún gekk út að glugganum og leit út.
„Pabbi var vanur að fylgjast með öllum sem áttu leið um götuna. Hann hló að fólkinu sem honum fannst undarlegt. Ég held að hann hafi aldrei skilið að það var hann sem var undarlegur, ekki það.“
Fróði mjálmaði á bakvið hana.
„Þú hefur rétt fyrir þér, elskan. Það þýðir ekki að velta sér upp úr fortíðinni. Það sem er gert, er gert, og því verður ekki breytt, úr þessu.“
Örbylgjuofninn pípti í annað sinn og hún opnaði hann, fjarlægði plastboxið og lokaði honum aftur. Hún skipti pastanu jafnt á milli sín og kattarins, settist niður og byrjaði að borða. Það ríkti þögn á meðan þau kláruðu pastað, og þegar hún vaskaði upp borðbúnaðinn og setti í uppþvottagrindina.
„Ég raða þessu í skápinn á morgun, þá er þetta orðið þurrt.“
Hún fjarlægði matarskál kattarins af borðinu áður en hún tók hann í fangið og sneri aftur inn í stofuna. Hún settist niður, þau komu sér bæði vel fyrir, og hún tók aftur upp bókina. Hún horfði þögul fram fyrir sig stutta stund.
„Hefurðu nokkurn tíma velt því fyrir þér, Fróði, hvort nafni þinn hafi haft nokkurn grun um að hann yrði aldrei samur eftir þessa miklu ferð?“
Fróði þagði, en lagði loppuna á handlegginn á henni. Hún brosti og opnaði bókina.
„Þú hefur rétt fyrir þér. Það er ekki hægt að gera meira en að velta því fyrir sér.“
Hún fann réttu blaðsíðuna, ræskti sig og byrjaði aftur að lesa upphátt úr The Lord of the Rings fyrir köttinn. Það glampaði á keðjuna um svartan háls hans og hringinn sem hann bar í henni.
H. María Líndal
Enginn finna okkur má undir fanna hjarni; daga þrjá yfir dauðum ná dapur sat hann Bjarni.