„Glóandi í gluggunum,
glöð ljósin víkja
burtu skuggunum.
Allir gott nú gjöri,
en gleymi sút og sorg. “


Það er erfitt að vera lítil. Og bíða. Desember líður svo afskaplega hægt þegar maður er bara “ðekkðð” ára (6 ára). Tíminn líður svo hægt. Svo löturhægt.

Júnía var einmana. Mamma og pabbi voru sífellt á þönum. Vinna, þrífa, laga hitt og þetta, skjótast hingað og þangað. Alltaf upptekin. Máttu sjaldan að því að tala við litlu stelpuna sína. Örfáir dagar til jóla og margt að gera. Hún hafði margoft reynt. Hún hafði reynt að leika við kisu, en kisa vildi ekki láta knúsa sig og kreista. Lagði jafnan á flótta.

Júnía var reglulega sár. Jólasveinninn hafði heldur ekki gefið henni neitt í skóinn! Það var verst af öllu. Hún sem hafði verið svo dugleg daginn áður, æft sig reglulega vel og lengi á fiðluna og borðað allann plokkfiskinn sinn í kvöldmatnum. Fannst plokkfiskur ekkert sérlega góður. Eiginlega forvondur. Alltof mikill laukur. Júnía starði eymdarlega á mömmu sína sem var of upptekin við að skrifa jólakort til að sjá neitt, leit ekki einu sinni á litluna sína. Pabbi farinn eitthvað út. Ekki væntanlegur á næstunni. Klukkan var rétt um tvö. Kannski voru afi og amma heima? Júnía hafði verið mikið hjá þeim undanfarið. Bjuggu líka stutt frá. Hún spurði mömmu sína hvort hún mætti skreppa til þeirra, sem umlaði bara eitthvað óskiljanlegt. Leit ekki einu sinni upp. Júnía hélt út í stingandi frostið og öslaði snjóinn.

Hún skartaði rósrauðum kinnum þegar hún kom inn úr dyrunum hjá afa og ömmu. Amma tók á móti gullinu þeirra. Afi gaf bestu knúsin. Kallaði Júníu litlu frostrósina sína. Hún og amma settust í stóra, mjúka græna stofusófann. Amma sá strax að eitthvað var að angra litlu dótturdóttur sína og veiddi upp úr henni afhverju hún væri hnuggin. Júnía sagði henni frá því að foreldrar hennar hafi ekki gefið sér mikinn tíma til að tala við sig og svo hefði jólasveinninn gleymt sér. Það væri sárast. Tárin láku úr ólivugrænum augum hennar. Amma tók Júníu í fangið og sat með hana, lofaði sjálfri sér að ræða þetta ástand við dóttur sína. Amma leit kímin á afa og blikkaði hann, sagðist barasta halda að Gluggagægir hafi sjálfsagt farið húsavillt eftir að Júnía hefði gist hjá þeim kvöldið áður. Sagði Júníu að athuga í kuldaskóinn sinn við útidyr. Társtokkin skottaðist Júnía fram og sá sér til undrunar að það var komin mandarína og plata af suðusúkkulaði. Hún rak upp undrunarhljóð og þusti aftur í stofuna. Ljómandi af gleði. Amma bauðst til að búa til ömmu-kakó úr súkkulaðiplötunni. Júnía samþykkti það strax og svo settust hún, afi og amma í sófann. Hvert með sinn kakóbolla.
Afi tók litlu frostrósina sína í fangið og þrýsti henni að sér. Júnía litla bað þau afskaplega einlæglega og blíðlega að segja sér frá jólunum í gamla daga. Amma byrjaði að segja frá því að í eldgamla daga voru jólin hátíð ljóssins, alveg eins og þau eru í dag. En í eldgamla daga hafi verið mikið myrkur í sveitinni, og fengju allir fengu ný kerti á jólunum sem voru flest búin til úr tólg. Jólakertin voru alltaf mjög hátíðleg og sparileg. Eitt þeirra liti út eins og þrjú kerti saman í einu og það héti Kóngakerti og því leyft að loga alla jólanóttina. Þetta var áður en rafmagnið kom. Þegar amma Júníu hafði verið lítil telpa þá var það siður að mamma hennar kvæði alla Gilsbakkaþulu(Kátt er á jólunum) meðan hún sjálf, mamma, pabbi og eldri systir hennar skáru út laufabrauðið við lampaljós, því ekkert var rafmagnið í sveitinni. Þau handskáru kökurnar með hníf, en ekki með laufabrauðshjóli eins og er gert í dag. Skáru þau út í 70-80 kökur, og þá var nú amma Júníu orðin býsna lúin í höndunum. Augun í Júníu urðu eins og undirskálar meðan hún hlustaði af athygli.

Amma sagði Júníu líka að þegar hún sjálf var að alast upp biðu krakkarnir alltaf spenntir eftir jólaeplunum og appelsínunum. Þegar amma var ung stúlka þá voru aldrei til neinir ávextir, nema um jólin. Ávextir voru nefnilega bara influttir um jólin. Þá var nú gaman hjá ömmu þegar langafi Júníu kom með jólaeplin og appelsínurnar í kotið! Þetta fannst henni Júníu litlu alveg stórmerkilegt, sem alltaf fékk nóg af ávöxtum árið um kring. En hvað var borðað á jólunum? Afi Júníu ákvað að svara þessu með því að segja henni frá því að heima hjá sér var alltaf borðað rjúpu á aðfangadagskvöld og hangikjöt á jóladag, alveg eins og væri gert heima hjá Júníu. Þegar afi hóf að segja henni frá jólakettinum byrjaði Júnía að dotta í fanginu á honum. Það síðasta sem hún hugsaði áður en hún lognaðist útaf, var hvað henni þætti vænt um afa sinn og ömmu og hlakkaði mikið til að geta skreytt jólatréð með þeim.





[Innskot frá höfundi: Lagabúturinn sem er efst heitir „Er líða fer að jólum”
Höfundur lags: Gunnar Þórðarson.
Höfundur texta: Ómar Ragnarsson.
Flytjandi: Ragnar Bjarnason.
Höfundur studdist við fróðleik úr Sögu Daganna og eftirfarandi linka við skrifin:


http://www.thjodminjasafn.is/jol/jolamatur/

http://www.thjodminjasafn.is/jol/jolasidir/

http://www.thjodminjasafn.is/jol/adrar-vaettir/nr/2983

http://www.thjodminjasafn.is/fraedsla/frodleikur-og-skemmtun/saga-daganna/nr/600

http://www2.hornafjordur.is/jolagestir/nr/5943 ]
“Life's like a dick, it gets hard for no reason”