Ég man einungis eftir einstaka atvikum eða tilfinningum.
Eitt andartak man ég þó svo sterkt að ég get endurupplifað allar hugsanirnar og tilfinningarnar á þessu augnabliki.
* * *
Ég stóð út á svölum. Horfði yfir hverfið mitt og leit niður á gangstéttina langt fyrir neðan.
Við bjuggum á efstu hæð í blokk. Ég heyrði foreldra mín rífast enn eina ferðina.
Raddir þeirra hækkuðu og hækkuðu eins og sá sem tækist að garga hæst ynni.
Loks heyrðist glerhljóð, dynkur, gnístur tanna og grátur.
Hvers vegna gera þau hvort öðru þetta?
Er það út af mér?
Ég starði niður á gangstéttina fyrir neðan.
Hún virkaði eitthvað svo aðlaðandi. Heillandi.
Eins og hún væri að kalla á mig.
Komdu. Dauðinn er ekki svo slæmur.
Dauðinn er friður.
Hrollur hríslaðist um líkama minn.
Ég vissi að hvorki himnaríki né helvíti væri til.
Jesú og Guð og englar væru bara þvæla.
Bull til að fá krakka til að haga sér. Vera stillt og prúð.
Þetta var ekkert til frekar en jólasveinninn.
Þegar mamma sagði mér að jólasveinninn væri ekki til frekar en huldufólk, tröll eða skrímsli spurði ég hana hvers vegna Guð væri til og Jesú? Eru þeir ekki líka bara skáldskapur?
Í andartak bara andartak vissi mamma ekki hverju hún ætti að svara.
Þá vissi ég að allt sem ég hafði alist upp með var bull.
Hún reyndi að telja mér trú um að Guð og Jesú væru til en hún blekkti mig ekki í annað sinn.
Það þýddi að það væri ekkert eftir dauðann.
Ekki neitt. Eingungis kyrð. Friður.
Annað brothljóð heyrðist frá íbúðinni.
Ég leit niður svalirnar. Gangstéttin virtist vilja draga mig til sín.
Draga mig í dauðan svo ég gæti fundið innri frið. Sálarró.
Mér varð síðan hugsað til allra vina minna og kunningja. Til sætu stelpunnar í bekknum.
Ég sá fyrir mér allt sem lífið hefði upp á að bjóða.
Allt það sem ég ætlaði að gera og sjá.
Ég ætlaði að verða rokkstjarna, svo geimfari og þaðan leikar.
Ég sem ætlaði að sigra heiminn með litla fingrinum einum saman.
Þótt lífið væri erfitt þá er það þess virði.
Ég leit aftur niður svalirnar. Dauðinn væri auðvelda leiðin út úr lífinu.
Lukku Láki, batman og Indiana Jones myndu aldrei gefast upp.
Heiglarnir og vondu gæjarnir voru þeir sem dæju og ég var hvorugt.
Ég snéri í bakið við svalahandriðið, gekk inn í íbúðina og hélt áfram að lifa.
Daginn sem ég stóð á svölunum og horfðist í augu við dauðann var ég átta ára gamall snáði.
Eftir: Jóhönnu Margréti Sigurðardóttu
Why be normal, when strange is much more interesting