Ég á það til, sérstaklega þegar fer að hausta, að ganga út að kvöldlagi með góða bók á svalir og lesa. Allur æsingur dagsins og kliður er fokinn eitthvert út á Faxaflóa og borgin liggur róleg og horfir hljóð á síðustu geisla sólarinnar dansa á blautum húsþökum. Það stirnir af öllu og stundum verður borgin svo draumkennd og ævintýraleg að ég veit stundum ekki hvort ég sé að horfa á sannleikann.
Svo sest ég kannski niður á hvítan garðstól og sé þá ekki lengur yfir borgina. Fyrir framan mig, hinum meginn við flóann stendur Esjan, grágræn og bleik í senn er sólargeislarnir renna sér niður hlíðar hennar. Efst má greina nokkur grá hár,einkenni þess að brátt gengur vetur í garð. Og ofan við Skálafellið gægist fölur máninn til mín, en svo er kvöldið líður inn í nóttina fer það í sína reglulegu gönguferð yfir Úlfarsfell og Bláfjöll. En ég sit út á svölum og les.
Það er nú ekkert merkilegt sem ég er að lesa. Yfirleitt einhver skáldsaga en þó á ég það til að draga fram ljóðabækur, en þá þarf ég yfirleitt að setja mig í einhverjar stellingar. Kannski hef ég tekið með mér vínglas eða bjór. Hægur andardráttur kvöldsins er kaldur en ég á teppi sem ég vef utan um mig. Ljós innan úr stofu lýsir upp svalirnar út um stóra stofugluggann, ég þarf því ekki að kveikja á kerti eða útiljósi. Blærinn sendir bárur syndandi af stað yfir flóann og feykir nokkrum gulnuðum laufblöðum, minningum síðasta sumars, upp í loft þar sem þær dansa óreglulega.
Það er einhver töfraljómi yfir svona kvöldum. Eitthvað sem ég fæ hvorki snert né séð, ég get ekki bent á það né heyrt í því en það svífar þarna yfir borginni á gráum vængjum. Einhver antík, eitthvað gamalt en samt svo ferskt og ungt. Kannski að þetta sé hjartsláttur borgarinnar, síungur en samt aldagamall. Eða bara formáli vetrar, hver veit. En ég get gjörsamlega týnt mér í svona kvöldum.
Ég sit kannski úti þar til að himinninn er orðinn kolsvartur og stjörnur kvöldsins hafa stigið fram á sjónarsviðið. Borgin liggur undir hvolfþakinu appelsínugul og um æðakerfi hennar þjóta tvíeygðar áldósir, fram og tilbaka. Já, himinninn er eins og hvolfþak, hellist yfir landið og það er eins og einhver hafi dregið upp þessa mynd. Stjörnur skína og tunglið svífur rétt yfir hæstu húsunum. Stjörnurnar aldagamlar, jafnvel dauðar, sprungnar eða horfnar inn í botnlaus svarthol tímans, þó berst enn til mín dauf birta þeirra og lýsa upp blaðsíðurnar.
Eftir því sem líður lengra inn í nóttina loka húsin hvert á eftir öðru augum sínum og eineygðir standa ljósastaurarnir eftir og lýsa upp götur sem enginn fer um. Inni í húsunum liggur sofandi fólk, dagfarsprútt en í draumum sínum getur það verið illgjarnt og vont án þess að ég viti nokkuð um það. Sumum dreymir kannski um að stíga rigningardans við indíána í Ameríku á meðan aðrir sökkva dýpra og dýpra í kolsvartan svefninn. Kannski grætur barn upp úr svefni einhvers staðar og vekur foreldra sína, kannski óttast það myrkrið.
En það geri ég ekki. Ég fagna komu kvölds og leyfi mér að njóta þess að horfa á ljósaskiptin og mjúka nóttina koma yfir fjöllin. Borgin sefur, inni á tómum helgarbörum standa bjórglös í röðum og bíða komu næturgesta. Glaumur síðustu helgi bergmálar enn í veggjum þeirra og minna flöskurnar á að næsta helgi kemur brátt.
En þegar ég hef litið þessa ævintýrasýn, stend ég kannsi upp. Teygi úr löppunum og höndunum. Geng frá teppinu og bókinni. Klára úr glasinu og geng inn. Inn frá þessari dulmögnuðu nótt, inn frá borginni, stjörnunum og tunglinu, inn frá fjöllunum og börunum. Geng inn í raunveruleikann.