Söknuður. Eftir Stefán Ingvar Vigfússon.
*
Þetta er fullkomlega sönn saga. Aftur á móti eru rithöfundar lygarar að eðlisfari.
Afsakið ósannindin.
*
Þetta var orðið þreytt, mér fannst það allavega.
Ég bað hana um að hitta mig í dalnum örfáum mínútum frá húsinu hennar.
Sambandsslitin fóru raunar afar vel fram. Hún grét að vísu talsvert og bað mig um að skilja sig eftir eina.
Ég gerði það ekki.
Við sátum hlið við hlið, illa klædd í kuldanum og reyktum sígarettur eins og við værum að fagna dauðanum í dalnum þar sem að fegurðin lá í dvala.
*
Ég hlýt að vera skelfileg manneskja.
Í gær vildi ég ekkert með hana hafa.
Hún bað mig um að tala við sig og sagði mér að henni leið illa. Ég öskraði að ég nennti engu fucking drama og að ég vildi bara skemmta mér.
Ég rauk burt og skildi hana eftir grátandi í miðbænum að nóttu til. Fullkomlega berskjaldaða.
Í dag sakna ég hennar óstjórnlega þrátt fyrir að ég standi yfir henni.
*
Ég hef ekki kost á henni lengur.
Sennilega ekki.
*
Smáatriðin eru óljós, ég þekki þau í öllu falli ekki.
Það sem ég veit er að einhver réðist á hana.
Það sem ég veit er að hún er í dái.
Það sem ég veit er að það er mér að kenna.
Ég skildi hana eftir eina, í annarlegu ástandi.
Það sem ég veit er að hún var óvarin.
*
Mamma hennar hrindi í mig. Ég skil ekki almennilega hversvegna.
Ég skil ekki almennilega hversvegna móðir hennar hefur ekki óbeit á mér.
Ég skil ekki hversvegna öll fjölskyldan hennar hefur ekki óbeit á mér.
Ég skil ekki hversvegna það hafa ekki allir óbeit á mér.
Hún sagði hvað gerðist og hvar ég gæti heimsótt hana.
*
Þetta er erfitt.
*
Ég sakna hennar.
Hvarsvegna var ég ekki með henni þegar hafði kost á því? Kost á henni.
Hún var svo frábær. Er.
*
“Ég sakna þín.”