Ég þoli þau ekki. Ég þoli þau svo innilega ekki. Ég get ekkert að því gert. Ég hallast að þeirri skoðun að ég hati beinlínis mína eigin foreldra. Það lítur út fyrir að þau hafi unun að því að láta mig kveljast. Það virðist þeirra eina upplyfting að koma heim eftir vinnudag (eða dag heima í rólegheitunum því mamma vinnur varla og hefur aldrei gert) og nöldra og garga duglega á mig. Ég velti því fyrir mér nokkuð þetta sé á öðrum heimilunm svona. Líklega ekki.
Það er sett út á allt sem ég geri, hvernig ég geng frá fötunum, hvernig ég geng frá þvottapokunum, hvernig ég tala, hvernig ég geng frá töskunni, hvaða einkunnir ég fæ. Ég man ekki síðast þegar þau sögðust bara vera stolt. Flest hrósin sem ég fæ heima fyrir er frá fjögurra ára bróður mínum.
Ég forðast þau eins og heitan eldinn, ef þau koma heim flýti ég mér að pilla mér inn í herbergi til að fyrirbyggja öll samskipti. Ég skýst rétt svo fram til að fá mér matarbita sem ég tek svo með mér inn í herbergi.
Ég hugsa að þau vilja að ég hafi aldrei fæðst, ég reyni að vera ekki fyrir en ekkert virðist duga. Alltaf þegar yrt er á mig er það með ónotum og oftast enda ég með því að loka hurðinni á eftir mér og bresta í grát. Svo eyði ég alltof löngum tíma á morgnanna til að hylja grátbólgið andlitið með ýmsum snyrtivörum sem ég hef þurft að suða endalaust til að eignast.
Ekki get ég sagt að það sé mikil þörf til að kvarta undan mér. Ég stend mig vel í skóla, á gott félagslíf og er oftast bara frekar viðkunnarleg. Ef ég gæti sagt einverjum frá því sem ég væri að skrifa hér væri ég fyrirlítt. Að skrifa svona um fólkið sem bæði fæðir mig og klæðir telst ekki sem þakklæti. Oft er ég að pæla í að hætta að gera heimavinnuna. Fá bara skróp og hætta að mæta. Ætli það nái athygli þeirra? Þegar eini hluturinn sem ég virðist gera ágætlega, en þó ekki vel, er hættulega lélegt.
Ég fæ endalaust að heyra hversu vanþakklát ég sé, af hverju ég fái ekki tíu í öllum prófum, af hverju ég sé ekki svona og hinsegin, af hverju geturðu ekki verið eins og þessi og hin? Er mjög mikils til ætlast að fá frið? Fá bara að vera í friði? Að þurfa ekki að eiga samskipti í dálítinn tíma. Greinilega.
Ég er búin að heita sjálfri mér því að sama dag og ég verð átján mun ég flytja út. Ekki möguleiki að ég rotni hérna mikið lengur. Þrjú ár til stefnu og ég bókstaflega tel niður. Ég þoli ekki að hlusta á fólk tala um unglinga, ekki ertu allir unglingar sem telja að það þurfi að tilkynna misnotkunina á sér til Amnesty International því það er ekki keypt nýjustu gallabuxurnar handa þeim. Sumir þurfa virkilega að hafa fyrir hlutunum og finnast lífið óréttlátt út af raunverulegum vandamálum.