Dagur fram að skóla.

Ég kjagði eftir gangstéttinni, því að skólabörn með töskur hlaupa ekki, heldur kjaga eins og endur og slaga svolítið undan þunga vitneskjunnar sem leynist í töskunum. Ég kjagaði sem sagt eftir gangstéttinni og yfir auðan blett, sem átti víst að heita gata, mót græna karlinum sem blikkaði hana með ósýnilegu auga. Ég kjagaði yfir auða blettinn og stoppaði þegar hann var að baki. Ég leit yfir gangstéttina, hvíta gangstéttina, og hugsaði að ábyggilega kæmist ekki meira fyrir af þessu hvíta efni. Ég steig varkega út í snjóinn og fóturinn sökk upp að bólgnum ökklanum. Ég lagði af stað og horfði stöðugt á stóra bygginguna sem ég átti að dvelja í á hverjum degi fram að jólum og svo fram á vor. Ég gekk alveg upp að glerhurðinni og ýtti með flötum lófanum á glerið. Dyrnar opnuðust hægt og drengirnir sem inni voru horfðu á mig með stórum undirskálum eins og ég hefði allt í einu breyst í bleikan fíl með vængi. Ég gekk inn og framhjá flissandi stelpum sem snarþögnuðu þegar ég nálgaðist. Stofan mín var sú þriðja frá útidyrunum og við stofudyrnar stóð vinkona mín, hún Stella, eða Stjarna, eins og við kölluðum hana.
„Hæ Begga!!!” Kallaði hún eins og ég væri 35,7 kílómetra í burtu frá henni.
„Af hverju ertu í kjólfötum með rósótt bindi?” spurði hún og lækkaði róminn.
„Æ, mig langaði að vera svoítið öðruvísi í dag.” Ég gat ekki hætt að hugsa um það sem hafði gerst áður en ég lagði af stað í skólann í morgun.
„Þér tóksta það nú bærilega, myndi ég nú segja,” sagði Stjarna.
Ég heyrði varla í henni, því ég var að hugsa. Löggan kom í nótt og tók pabba og setti hann í fangelsi. Ég settist upp við vegg og horfði á bólgna ökklana sem skiptu litum. Blátt, rautt, fjólublátt… Ég hafði haupið á eftir lögreglubílnum ábyggilega tvo kílómetra eins og ég ætti von á að hann stoppaði og lögregluþjónarnir myndu hleypa pabba út og biðjast afsökunar á misskilningnum. Ég gekk niðurlút heim. Þá var klukkan fimm og ég var á náttkjólnum og í inniskóm. Þegar ég kom heim sat mamma og hélt höfðinu grátandi á milli handanna. Litla systir grenjaði eins og hún ætti lífið að leysa í vöggunni sinni.
„Hvað gerði pabbi?” spurði ég, en mamma grét bara hærra, svo að ég flúði inn í rúm og sofnaði. Vekjaraklukkan hringdi klukkan sjö eins og hún ætlaði að hoppa fram af náttborðinu og auðvitað þurfti ég að vakna til að slökkva á henni. Og að sjálfsögðu til þess að fara í skólann. Mamma var ekki heima en hún hafði skilið litlu systur eftir, spriklandi og volandi. Ég klæddi mig og skipti svo á lillu og gaf henni síðasta brauðið vætt í síðustu mjólkinni. Sjálf fór ég svöng í skólann.
RRRRRRIIIIINNNNNG!!! Bjallan hringdi og hálfri mínútu síðar kom kennarinn og við gengum í tvöfaldri röð inn í skólastofuna og út í lífið. Eða ætti ég kannski að segja, til þess að læra hvernig á að lifa…