Enginn innblástur, ekkert að skrifa. Bara tóm tómindi tóms veruleika, sem er samt miklu fyllri en það, öfugt við það sem ég sagði, því það sem ég skrifa þarf ekki að meika minnsta fokkin sens. Til dæmis, einsog þú sérð, skrifa ég núna orð sem flæða einsog flóð og líkja einsog samtenging. Þú þarft ekki rétta orðaröð eða samhengi í heildarverkið ef þú veist nákvæmlega hverju þú vilt koma á framfæri, hversu stutt sem augnablikið er, því stuttu eftir innblásin skrif veistu ekki hvernig þér datt þessi merkingarsnauða táknasamsetning í hug, eða hvaða mögulega ávinning nokkur hefur af tilvist þeirra. Ó, svo þú hefur límt saman óþarflega flókinn hrærigraut af engu í von um að hljóma verðugur einhvers, hróss eða mögulega aðeins til að rúnka eigin egói, en líma skaltu og líma muntu, hvar sem tíminn er og hvort sem nokkur innan þess fangelsis vill orðahóruflokkinn inní vitund sína eða ekki. Þú ert stjarna og enginn skal neita því, bíddu aðeins.
Einsog stjarna í stjörnuleik, Siríus í boltaleik og Svíþjóð á góðum degi, þá er nótt í kringum mig, minnir mig. Stjarnan er frökk og stundum frönsk og kann ekki við óþarfa yfirlæti, brundaðan veruleika slóttugra orðalenginga og kurteisis sem logar einsog Róm. Mannholubrúin margrómaða logar af engum, því hún týndist utan tímans, svo við rómum vitleysu af réttsýnni staðfestu í von um betri heim, í sitthverjar áttirnar, einhliða Eden handa engum, þráttfyrir bænir og boð. Komma.
Komma, komma, strik, þetta er hann Óli Prik. Einhvernveginn svona? Ekki? Trúðu mér, þannig er það, skilurðu. Hvað viltu mér, prinsessa? Ég hef gert allt sem þú baðst um.
Stundum á fundum brundum við lundum, eða hundum, og skundum svo burt einsog rökkvað úthverfi. Svona í alvörunni, hefurðu séð rökkvað úthverfi einsog Árbæinn lifna við og detta onáþig, uppfullan af ótrúlega æjþúveistþarna dæminu? Ég, eða réttara sagt einhver sem líkist mér, hefur upplifað þessháttar upplifun, upplifun sem hann mun aldrei gleyma að hann upplifði, upplifun sem enginn vill upplifa, því að upplifa þessa upplifun væri hræðileg upplifun.
Hvað svo, gætuði spurt ykkur? Hvaða tákn nauðga þér næst og bjóða þér góðan daginn morguninn eftir? Tákn sem leita á þig eftir svari, kannski? Af óvilja samansettum óþarflega aggressíf tákn sem líkar ekkert sérlega vel við þig, ógeðið þitt? Hvað bjóða þessi svokölluðu „orð“ þér uppá næst? Hlýju og ást? Veruleikaskoðanabreytingar? Hvað svo? ÓÞARFA ÁLEITIN TÁKN Í MORÐHUG, EÐA? LAUMANDI ÖSKRANDI NEIKVÆÐNI Í MAUKMJÚKA DEIGIÐ Í SKOTTINU Á ÞÉR?
Ekki taka þessi orð alvarlega, samt. Þau eru lítið nema merkingarlausar teikningar með ímynduðum tilgangi, að eilífu dæmd til mismunandi túlkunar mis- en jafngáfaðra einhverra.
Ég er þá farinn, ég er þá farinn frá mér. Hvar er ég núna, hvert liggur mín leið?