Býfluga. Eftir Stefán Ingvar Vigfússon.
*
Það er býfluga hérna. Það er satt.
Þetta gæti reyndar verið geitungur en ég vona að þetta sé býfluga frekar. Helst af öllu vona ég að þetta sé sjónhverfing, en það er ósennilegt.
Hún, eða hann, er að fljúga ítrekað á rúðuna sem er beint fyrir framan mig. Það er frekar óþægilegt að horfa beint í sólina, en ef ég sæti hérna væri ég á vandræðalegu röltu um skrifstofuna. Því nenni ég alls ekki.
Býflugan flýgur dágóðan spotta frá rúðunnni og hringsólar smá um skrifstofuna, frekar vandræðalega, áður en hún skellir sér aftur á rúðuna af öllu afli. Þetta gæti reyndar verið geitungur.
*
Hurðin að skrifstofu námsráðgjafans opnast, tiltölulega falleg stelpa labbar fram. Ég brosi til hennar. Hún brosir á móti. Hún heitir Kristín.
Við tölum ekki saman reglulega en við þekkjumst eiginlega.
Námsráðgjafinn biður Jófriði um að koma inn. Hún stendur upp og labbar inn.
Hún sat ekki þarna þegar ég kom inn. Hún var undurfögur, almennt hefði ég tekið eftir henni. En þessi býfluga var miklu meira heillandi, einhverja hluta vegna.
Ég gæti aldrei eignast kærustu að sumarlagi, atferli skordýra er alltof áhugavert.
*
Býflugan var orðin þreytt. Hún leggst niður á gluggakistuna.
Þetta er sorgleg sjón.
*
Hún er samt að gera það sama og ég, eiginlega.
Ég hef í raun enga ástæðu til þess að vera að tala við námsráðgjafan. Ég er að því þess að vera ekki rekinn úr skólanum, en mér væri eiginlega sama þótt ég yrði rekinn.
Ég hef engan áhuga á þessu námi, hvort eð er. Þessvegna mæti ég ekki. Þessvegna læri ég ekki.
Þegar ég slepp héðan, af þessari skrifstofu, verð ég enn fastur. Fangelsið er bara stærra. Það hefur upp á fleira að bjóða, fleira sem mér er sama um.
Ég mun leggjast niður á gluggakistuna og viðurkenna að ég er fastur. Að það er enginn útkomuleið.
*
Býflugan horfir girndaraugum út.
Ég horfi girndaraugum út.
*
Ég gæti sloppið, en það myndi særa mömmu og pabba.
Þau myndu halda að það yrði ekkert úr mér. Hvað yrði úr mér? Ég yrði hamingjusamur. Þau skilja það ekki. Þeim mun lengur sem maður er þræll, þeim mun verr skilur maður frelsi. Þeim mun heimskulegra hljómar það.
Ég sé veggina. Með því að brjóta þá niður myndi ég ekki frelsa þau, heldur hræða.
Valda- og peningadrifið samfélag getur ekkert fært mér. Þar sem hæfni er talin mælanleg og afrek sjást í draslinu sem við drekkjum okkur í.
Ég við skoða mig um, ég vil ferðast. Ég vil vera býfluga.
Ég vil gera að sem ég fucking vil.
*
Námsráðgjafinn kallar á mig. “Ha?” segi ég. “Komdu inn, kallinn minn.” segir hann. “Já, takk.”
Við göngum inn og ég sest í talsvert lægri stól en hann. Óþolandi leið til að sýna fram á vald.
“Svolítið í eigin heimi, kallinn minn?” “Ha? Nei. Nú?” segi ég. “Nei bara, ég kallaði tvisvar á þig áður en þú svaraðir.” “Já, það var býfluga þarna frammi, eða geitungur kannski.” “Ojj bara,” segir hann: “flugur eru svo ógeðslegar.”
Við spjollum smá um flugur.
Hann spyr mig að því spjalli loknu hversvegna ég hafi mætt svona illa, þessa önnina. Ég lýg og segist þjást af þunglyndi. Hann spyr mig hvort það hafi verið greint. Ég svara neitandi, enda er ekkert til þess að greina.
“Ef þú vilt halda áfram í skólanum verðurðu að skrifa undir samning við mig. Þá verðurðu að mæta í nítíu prósent tímanna þinna á næstu önn.”
Það er rúða fyrir aftan hann. Það eru rúður allstaðar, eins og það sé verið að minna okkur á það sem við erum að missa af.
Fölsk hvatning. ‘Aðeins lengur, aðeins betur, aðeins meira. Smá vinna í viðbót og þú kemst út.’
Ég hugsa um buguðu býfluguna í gluggakistunni frammi. Hvað bíður hennar? Ekkert. Og dauði.
“Nei, takk.” segi ég. Það kemur svipur á námsráðgjafan sem er í einu orði lýst magnaður. Stórkostlega fyndinn. “Ha?” spyr hann. “Ég vil ekki skrifa undir þennan samning,.” “Þú gerir þér grein fyrir því að þú verður mjög sennilega rekinn úr skólanum ef þú skrifar ekki undir hann.” “Já.” segi ég skælbrosandi. Mér finnst ég strax vera orðinn frjáls. Einn múrsteinn farinn og ég sé ljósið.
*
Þegar ég kem fram er býflugan farinn, ég vona að hún hafi sloppið.
*
Ég fer út í sólina.