Ég rúlla mér frammúr en er flækt inn í sængina og einhvernvegin enda á því að hendast niður á gólfið og skella hausnum fast í náttborðið. „Frábært“ styn ég útúr mér og strýk yfir myndarlegu kúluna sem er að mótast á höfðinu á mér, „eitthvað til að gera þennan mánudag aðeins mánudagslegri!“
Eftir þann ágæta tíma sem fór í það að ranka almennilega við mér eftir draumþrungna nótt og fallið úr rúminu, er næsta mál á dagskrá; fötin! Ég ríf upp hurðar fataskápsins með vott af vonargeisla í augunum, kannski er þessi dagur öðruvísi, kannski kom tískuengillinn til mín í nótt og skipti út eitthvað af ljótu, úrsérþvegnu fötunum mínum fyrir einhver ný, töff föt. En nei, svo gott var það ekki, ég sit uppi með það sama og var í tísku áður en risaeðlur fengu tískuvit! Eftir dágóða stund sem einkenndist af að rífa sömu flíkurnar aftur og aftur úr skápnum og sjá að þau voru jafn asnaleg í hvert skiptið varð svo fyrir valinu ljótur ljósfjólublár langermabolur og peysa í stíl, toppað með gullfallegum hundrað ára gömlum gallabuxum sem hafa þá frábæru eiginleika að vera of stuttar en líka rifnar á hnjánum! „Jæja fötin komin, hvað er næst, já hárið..“ muldra ég með sjálfri mér og held í átt að baðherberginu.
„Kæra hár, viltu gera mér þann yndislega greiða að vera samvinnuþýtt í dag, bara í einn dag!“ segi ég er ég lít í spegillinn sem mér til mikillar skelfingar inniheldur spegilmyndina af svefnskrímslinu ógurlega, mér.
Eftir ljúfu stundina sem ég átti með baðherbergisskrímslinu stekk ég í loftköstum niður stigann eftir að hafa óvart litið á klukkuna, sem var allt í einu orðin alltof margt, ég hlýt að hafa gleymt mér aðeins of lengi fyrir framan spegilinn, en aldrei er of varlega farið, málningin þurfti að vera fullkomin til að eitthvað færi nú rétt á þessum glataða degi.
Mamma bauð mér góðan daginn með bros á vör og heitt te tilbúið í uppáhalds könnunni minni eins og vanalega, hún veit alveg að ég þoli ekki te en með þetta lífsglaða bros hennar er varla hægt að neita því, „takk mamma, ertu búin að setja sykur?“. „Sykur? Í morgunmat? Þetta er hneiksli!“ rymur Teitur út úr sér með augun sokkin ofaní morgunblaðið. Mamma lítur á mig með reyndu-nú-að-vera-smá-kurteis-við-hann svip. Ég reyni að vera smá samvinnuþýð svo þessi svokallaða fjölskylda gangi upp og svara með hæðni í rödinni: „Já, annars er það svo biturt, og þá verður dagurinn bitur sjáðu til“. Ég gríp epli í nesti og fer í skóna. Fyrir utan dyrnar er flautað, það er Klara sem er komin að ná í mig. „Eigðu góðan dag músin mín, segir mamma og býr sig undir að gefa mér rembingskoss á kinnina“ ég rétt næ að skjótast undan og segi í flýti hálf-komin út um útidyrnar „sorry mamma, Klara bíður“.
“wasted on fixing all the problems that you made in your own head”