Um stúlku. Eftir Stefán Ingvar Vigfússon.
(Hægt er að finna allar sögunar mínar hérna: http://smasogursiv.wordpress.com/ )

“Þú spurðir mig eitt sinn hvað það var sem heillaði mig við þig. Ég gat ekki svarað á stundinni, enda var ég drukkinn.
Upp á síðkastið hef ég þó hugsað um það, upp á síðkastið hef ég þó hugsað um þig og ég get loks svarað hvað það er sem ég dái við þig.
Eins yfirborðskennt og það hljómar verð ég að viðurkenna að fegurðin þín heillar mig hvað mest við þig, þú geislar, alltaf. Jafnt innri sem ytri. Kímnigáfan þín er mögnuð, þú ert sennilega greindasta manneskja sem ég þekki. Þú skilur mig, sem mér þykir óskiljanlegt. Þú vilt öllum vel, þú vilt mér vel.
Þegar ég er ekki með þér vil ég vera með þér, þegar ég er með þér sakna ég þín þó. Það er alltaf ákveðin fjarlægð, ég skildi hana aldrei. Sama hve nálægt þér ég er upplifi ég ávallt órafjarlægð, ég skil hana loks. Þú stendur mér framar að öllu leyti, þú ert betri en ég.
Ég skil það vel að þú berð ekki sömu tilfinningar til mín og ég til þín. Mér þykir of vænt um þig, ef ég sæi þig með manni eins og mér myndi ég sennilega draga þig frá honum með valdi.
Þrátt fyrir það, eflaust sjálfelskunar vegna, vil ég þig. Enga aðra, þú lofaðir mér eitt sinn fullkomnu konunni, ef betri kona finnst í samfélagi manna vil ég ekki einu sinni kynnast henni.
Ég óska þér alls hins besta og vona að þú finnir mann sem verðskuldar þig. Ég verða að eiga einhvern tíma með sjálfum mér, aðallega, þótt það kvelji mig meira en þú getur ímyndað þér að segja, þarf ég smá tíma án þín. Ég vil gleyma þér.
Með sorgar kveðju, Ástvaldur.”
Er ég einn um að sjá húmorinn í því að hann heiti Ástvaldur?
Ef svo er þá hlýturðu að sjá húmorinn í því að hann fór ekki úr bænum fyrr en þremur dögum eftir að hafa skrifað þetta bréf, eftir ofur-dramatíska og ofur-rómantíska ástarjátningu sá hann enga ástæðu til þess að fara fyrr en bréfið var örugglega komið til skila. Hálf-kjánalegur náungi.
Hann gerði heldur ekkert merkilegt í þessa þrjá daga, hann var ekki að klára að ganga frá neinum málum, hann var ekki að kveðja vini sína almennilega. Mest allan tímann var hann í tölvunni, hann fór í bíó kvöldið eftir að hann skrifaði bréfið. Með Ragnheiði, stelpunni sem hann skrifaði bréfið til og sagðist ekki geta eytt neinum frekari tíma með. Frekar kjánalegur náungi.
*
Hann fór á sunnudagsmorgni. Langaafi hans smíðaði kofa í litlum skógi sem ég nenni ekki að skýra á litlu fjalli sem ég nenni ekki að skýra. Foreldrar hans höfðu aldrei heimsótt kofann, þau vissu varla hvar hann var. Það væri líka frekar erfitt fyrir þau að finna hann á korti eða með GPS tæki, sérstaklega í ljósi þess að ég skapaði hann fyrir örfáum sekúndum.
*
Ástvaldur hafði allajafna afnot af bílnum á sunnudögum, á sunnudögum fór hann í aukatíma í fjórum mismunandi fögum vegna ýmsra námsörðuleika sem hann þjáðist af. Þennan sunnudag ákvað hann þó að fara ekki og nota tíu þúsund krónurnar frá foreldrum sínum frekar í byrgðir fyrir reisuna. Fyrir utan þann pening átti hann sjálfur aðrar tíu þúsund krónur.
*
Fyrst fór hann í sjoppu rétt hjá húsinu sínu, þessi sjoppa er sennilega til og ég er með ákveðna sjoppu í huga, þar sem hann keypti sér fimm sígarettupakka, sem honum þótti vera algjörlega nauðsynlegir.
Næst kom hann við á rándýrr bensínstöð þar sem hann tók bensín fyrir fimmhundruð krónur, honum þótti það vea virkilega sniðug fjárfesting en fyrir þær fimhundruð krónur gat hann keyrt rúmlega sextán kílómetra miðað við hve miklu bíllinn eyddi. Hann þurfti að keyra á að giska fimmtíu kílómetra og hann tók við nærri því fullum tanki.
Loks kom hann við í stórverslun þar sem hann keypti helstu nauðsynjar, matvæli sem skemmdust ekki fyrr en eftir verulega langan tíma, drykki og klósettpappír. Klósettpappír er sennilega mikilvægasta nauðsynjavara sem ég veit, að því gefnu að maður svelti ekki. Hann keypti sér líka yddara, stílabók og 10 blýanta. Ástvaldur ætlaði sér að skrifa eitt bréf á dag á meðan hann entist.
*
Ástvaldur keyrði hægt, virkilega hægt. Hann beið stöðugt eftir því að einhver hringdi, en hann var allajafna svo upptekinn á sunnudögum, eins og áður sagði, að enginn myndi taka eftir þessu fyrr en mörgum klukkustundum síðar.
Hægi aksturinn hans varð til tvenns, annarsvegar var hann virkilega illa liðinn á þjóðveginum. Virkilega illa liðinn. Hinsvegar keyrði hann í fleiri, fleiri klukkustundir. Einu skiptin sem hann stöðvaði var til þess að reykja eða pissa, ekki á almenningssalernum, þar sem má finna klósettpappír.
*
Það var farið að kvölda þegar hann kom loks í bæinn sem var á að giska tíu kílómetrum frá skáldaða fjallinu mínu.
Hann ákvað að fá sér að borða á kaffistofu sem var opin.
Hún var tóm, fyrir utan afgreiðslustúlkuna. Hún var einu ári eldri en Ástvaldur, hún var hún indæl, hún var Kristín. Í dag er hún hann. Hann er Kristinn.
*
“Gott kvöld.” sagði Kristín og Ástvaldur svaraði: “Gott kvöld.”
“Hvað má ég bjóða þér?” spurði Kristín.
Ástvaldur áttaði sig þá á því að hann þoldi ekki að panta mat, Ragnheiður pantaði almennt fyrir hann. “Hvað er gott hérna?” spurði Ástvaldur á móti. Kristín mældi með kjúklingabitunum, hún sagði að það væri ekki öruggt að borða neitt þarna ef það væri ekki búið djúpsteikja það fyrst.
Þegar Kristín var búin að gefa Ástvaldi matinn sinn spurði hún hvert förinni væri heitið, hann sagðist vera að fara í sumarbústað.
“Ertu að fara einn?” spurði Kristín.
“Já, ég þarf smá frið, frá borginni.”
“Er ekki erfitt að útskýra það fyrir fólki, án þess að það feli hnífana.”
“Ég fór bara.” sagði Ástvaldur er hann stóð upp. Hann þakkaði fyrir sagði og kvaddi.
*
“Kæra Ragnheiður,
Ég vil ekki valda þér áhyggjum, ég er heill. Ég er á öruggum stað langt frá öllu.
Ég vil líka segja þér að ég sakna þín óbærilega, en ég lít á þetta sem einskonar meðferð. Ég sé ekki fram á að hætta að hugsa um þig ef ég er stöðugt minntur á þig.
Þessvegna ætti ég hugsanlega ekki að vera skrifa til þín, en það allra síðasta sem ég vil gera er að særa þig, eða valda þér angst. Þú átt mun betur skilið en svo.
Ég veit ekki hversu lengi ég verð í burtu, en ég veit þó að ég sný aftur af því að ég veit að ég er heppinn fyrir að hafa þig í lífinu mínu, sama að hvaða leyti það er. Að lifa þann tíma sem ég á eftir án þín er hreint út sagt ömurleg tilhugsun.
Ég hlakka til að sjá þig aftur.
Með kærri kveðju, Ástvaldur.”
*
Ástvaldur hafði afspyrnu lítið að gera í kofanum, hann grét mikið. Þeim mun meiri tíma sem hann hafði einn með hugsunum sínu, þeim mun meira hugsaði hann um Ragnheiði. Þeim mun meira saknaði hann Ragnheiðar.
Hann grét liggur við aldrei í Reykjavík, ætli það hafi ekki verið einveran sem grætti hann frekar en nokkuð annað.
Fyrstu tvo dagana sem í kofanum gerði hann ekki annað en að skrifa eitt bréf, gráta, reykja og sofa. Ekki skemmtilegt frí, myndi maður halda.
Síminn hans var orðinn batteríslaus. Hann vissi ekki hvort einhver saknaði hans, hann hafði það hinsvegar sterklega á tilfinningunni að foreldrar hans söknuðu bílsins.
*
Ástvaldur hugsaði um ferðina sem einskonar afeitrun, afástun.
*
Á þriðja deginum keyrði hann í litla bæinn í leit að póstkassa, hann vildi senda nýja bréfið sitt, það var að vísu ekki jafn sterkt og það gamla, en þetta ætti þó að vekja einhverskonar tilfinningar hjá Ragnheiði. Hann vonaði innilega að þær yrðu jákvæðar, hann vildi innilega ekki særa hana.
*
Ástvaldur lagði bílnum í miðbænum, sem samanstóð af pósthúsi, leikfangaverslun og fatabúð. Hann fór með bréfið í pósthúsið og ákvað síðan labba aðeins um bæinn.
Hvað fegura en íslenskur smábær að sumarlagi?
Á örstuttu göngu sinni um allan bæinn mætti hann Kristínu, sem gerði Ástvald vandræðalegan með því að heilsa honum. Hún brosti til hans og faðmaði eins og þau hefðu þekkst í áraraðir. Hann hafði ekkert að segja. Þögnin var vandræðaleg.
“Hvað ertu að gera í bænum?” spurði hún, enn skælbrosandi.
“Senda bréf.” sagði hann, sviplaus.
“Nú, hverjum varstu að senda bréf?” spurði hún af það innilegum áhuga að það mætti halda að hún hafi verið að tala þroskaskertan einstakling.
“Vinkonu minni.” Hann stóð sig ekki jafnvel í samræðunum og hún.
*
Þegar Ástvaldur kom aftur í kofann gat ekki hann ekki hætt að hugsa um Kristínu, hvernig stóð á því að hún hafði svona mikinn áhuga á honum? Honum þótti hann virkilega ekki spennandi einstaklingur og hann var það ekki. Aðeins áhugaverðari en hann hélt sjálfur, en ekki merkilegur.
*
Ástvaldur vildi gjarnan hitta Kristínu aftur, áður en hún yrði líkamlega að karlmanni.
Hann vildi gilda ástæðu til þess að fara aftur í bæinn.
*
“Kæra Ragnheiður,
Ég gerði mér nýlega grein fyrir því að fyrsta bréfið sem ég sendi þér hefur eflaust verið kvöl fyrir þig að lesa, þú kennir sjálfri þér eflaust um að ég hafi yfirgefið bæinn eins og ég gerði.
Ég vil taka það skýrt fram að sú er ekki raunin, ég þurfti í raun að flýja sjáfan mig og borgin einkennir mig að svo mörgu leyti.
Ég ætla þó ekki að ljúga, þú veitir lífi mínu birtu að svo mörgu leyti en líkt og sólinn áttu það til að skína of bjart og blinda mig. Ég sé enga aðra fyrir þér.
Þar sem ég er staðsettur hef ég þegar kynnst stelpu sem ég tel mig vera að mynda einhverskonar tilfinningar til, ég vil sjá hvernig samband mitt, ef samband mætti kalla, við hana þróast áður en ég sný aftur.
Það síðasta sem ég vil gera er að valda þér hugarangst og því vil ég biðja þig um að hugsa ekki um mig þangað til að ég sný aftur. Ég verð þá gjörbreyttur maður sem ber, vonandi, allt aðrar tilfinningar til þín en ég geri í dag.
Þetta er síðasta bréfið sem ég býst við að senda þér.
Ég kveð þig því í núverandi mynd og hlakka til að sjá þig sem beturumbættur maður.
Kær kveðja, Ástvaldur.
*
Ástvaldur hafði þá gilda ástæðu til þess að keyra aftur í bæinn.
*
Hann gerði það næsta dag um hádegi.
Hann mætti Kristínu aftur í miðbænum magnaða.
*
Leyfið mér aðeins að útskýra Kristínu fyrir ykkur, foreldrar hennar veittu henni mjög íhaldsamt uppeldi, þar sem þau minntust ekki einu sinni á neittt sem þau töldu vera afbrigðilega hegðun. Á borð við að fæðast í vitlausan líkama. Þau minntust ekki einu sinni á samkynhneigð.
Kristín hafði þessvegna allt sitt líf talið sig vera viðrini, hún gat ekki minnst á tilfinningar sínar við neinn í bænum, enda voru bara hundrað íbúar í honum. Sambönd hennar við karlmenn höfðu alltaf verið stirð, mestmegnis vináttur, þótt hún hafi átt einn kærasta, sem sparkaði henni liggur við samstundis. Honum þótti hún skrýtin.
Kristín hafði í raun ekki mikinn áhuga á Ástvaldi en vildi athuga hvort hún gæti mögulega átt í eðlilegu samband við karlmann, henni þótti líka tilvalið að hann bjó ekki í bænum og myndi sennilega fara þaðan á næstunni.
*
Kristín heilsaði Ástvaldi af jafn miklum ákafa og daginn fyrr. Aftur spurði hún hvaða erindi hann átti í bæinn. Hann sagðist vera að senda bréf.
“Hverjum ertu að senda bréf?” spurði hún.
“Vinkonu minni bara, bara upp á það fólk viti að ég er enn lifandi.”
“Kærstunni þinni?” spurði hún, fólk í sjónvarpsþáttum spyr mjög oft svona þegar þau eru að reyna að komast að því hvort þau eigi séns í tiltekinn aðila og mér finnst vera ágætt að láta hana spyrja líka.
“Nei, alls ekki. Ekkert þannig.”
Þau stóðu í smá stund þögul. Ástvaldur kveikti sér í sígarettu, hann bauð Kristínu sem þágði hana. Hún reykti allajafna ekki, en hún taldi sig vera að deila áhugamáli með nýja vini sínum. Sjálfsmorð er besta áhugamálið.
“Hvað ertu að gera í dag?” spurði Ástvaldur.
“Ekkert, ég er alveg laus. Nú?” svaraði Kristín, með hálf-kreistum spenningi, þó með vott af raunverulegum.
“Ég var að spá í að bjóða þér í kaffi.” sagði Ástvaldur.
“Já, ég er alveg til í það!” sagði Kristín, hryllingur tók við af spennunni, en henni tókst þó að mestu leyti að fela hann.
“Æðislegt!” sagði Ástvaldur og sá eftir því: “Ég þarf bara að fara í búðina fyrst.”
“Nú?”
“Kaupa kaffi.”
*
Ástvaldur og Kristín drukku hræðilegt kaffi og áttu í frábærum samræðum, skemmdir aðilar eru almennt þeir skemmtilegustu.
Það var farið að kvölda þegar Ástvaldur spurði hana hvort hún ætti að vera komin heim á einhverjum tíma í mat. Hún sagðist ekki þurfa þess. Hann spurði hana hvort hún væri til í að borða með sér. Hún þágði það glöð.
Kristín var innilega ánægð, hún var farin að vera vongóð um sambönd sín við karlmenn. Kannski var hún ekki eins mikið viðrini og hún hélt.
Byrgðirnar hans Ástvalds voru að klárast, hann bauð henni dós af niðursoðnu ananas og túnsfisk í olíu, ekkert drasl. Með matnum bauð hann henni verulega fínt vín sem hafði setið í kofanum í fleiri ár, hálf-gert drasl á bragðið.
*
Eftir mat fóru þau í göngutúr í litla ímyndaða skóginum mínum.
Þau leiddust.
Þau kysstust fyrst klukkan tíu og sváfu saman hálftíma síðar.
Ástvaldur fylgdi henni í bæinn rétt fyrir tvö.
*
Næsta dag voru þau bæði gjörbreytt, Kristín var liggur við ónýt. Hún gerði sér fyrst þá fullkomlega grein fyrir því að hún var ekki eins og aðrir. Sjálfstraust og álit Ástvalds var aftur á móti mun betra. Hann var tilbúinn að fara aftur til Reykjavíkur.
Fyrst ákvað hann þó að koma við í bænum til þess að kveðja Kristínu.
*
Þegar hann sagði henni að væri farinn féll hún liggur við grátandi í arma hans. Hún grátbað hann um að leyfa sér að koma með.
Hún sagði honum að hún væri of frábrugðin öllum í bænum og að hún gæti ekki lifað þar eftir gærkvöldið. Hún lofaði honum að láta hann í friði þegar þau kæmu aftur í bæinn.
Hann hélt utan um hana og sagði henni að hún þyrfti þess alls ekki. Hann vildi gjarnan vera í sambandi við hana og að hún mætti koma með honum.
Á leiðinni til Reykjavíkur sagði Kristín fyrst nokkrum hvernig henni leið, hvernig henni þótti hún vera öðruvísi en allir í kringum sig. Hún grét hástöfum er hún sagði honum það.
Þetta var mikill léttir fyrir hana.
*
Ástvaldur keyrði hana að hóteli í miðbænum, hann lét hana fá símanúmerið sitt og lét hana lofa sér að hún myndi hringa ef eitthvað kæmi upp á.
*
Ástvaldur var innilega hamingjusamur þegar hann keyrði frá hótelinu. Hann ákvað að heimsækja vinkonu sína, hann fór til hennar án þess að tilkynna henni það, sem enginn gerir þessa dagana.
Hann hringdi dyrabjöllunni.
Ragnheiður kom til dyra, hún kyssti vin sinn á kynnina og faðmaði hann. Hún byrjaði hinsvegar að gráta.
*
“Af hverju gerðirðu þetta, Valdi? Ég var svo hrædd.” sagði hún.
Ástvaldur brotnaði sjálfur niður við þetta.
*
Þarna stóðu þau í anddyri Ragnheiðar, í föðum, grátandi.
Nýtt fólk, ný vinátta, fædd í sorglega gleðileik Ástvalds.