Flugvélin þokaðist af stað. Kvíðastillandi lyfið löngu farið að missa dásamlega róandi áhrifin, hún varð viti sínu fjær. Hnútur í maganum og hjartsláttur í kokinu. Svitinn spratt út, ekki mjög áberandi samt. Ennþá. Hún reyndi að róa sig niður. En það gekk mjög illa. Leit sljóum augum í kringum sig, vélin var ekki full af fólki. Það var jákvætt fyrir innilokunarkenndina sem greip oftast um sig í kjölfar kvíðans. Hún fór að virða fyrir sér þennan mann sem sat henni á hægri hönd. Snyrtilega aflöng gleraugun hans römmuðu andlit hans inn, meitlaði útlínur sterkra kjálka. Ekki slæmt. Nú fór vélin að hristast í flugtaki. Hún fölnaði upp, hjarta hennar breyttist í hvíldarlausan trommutakt. Hjarta á yfirdrifi. Kjartan leit á hana. Sá nakinn ótta endurspeglast í augum hennar, eins og hann gæti séð beint inn í sálina. Hann tók á sig rögg. Beygði sig að henni, hún rétt greindi seiðandi rödd hans fyrir hávaða frá vélarhreyflunum “Ertu hrædd?” Hún gat rétt svo kinkað kolli. “Hvað heitirðu?” varð hans næsta spurning. “Sóllilja” muldruðu fallega bogadregnu varir hennar. Þögn. Hann hallaði sér að henni. Hún rétt greindi hvísl hans “Þetta verður allt í lagi Sóllilja”. Hann læddi hönd sinni varfærnislega í hönd hennar sem hafði áður kreist stólarminn. Hönd hennar var hlý. Eftir flugtakið ákvað hann að sleppa henni. Sólliju fannst hún vera örlítið nakin eftir á, hafði fundið styrk hans streyma til sín í þessu þétta handtaki. Flughræðslan hafði ekki yfirgefið hana. Hún varð verri og verri. Flugvélin tók að hristast og skjálfa, taka dýfur. Ókyrrð í loftinu sagði flugstjórinn. Kjartan tók þessu öllu með ró, var að glugga í flugtímaritinu “Ský”. Áttaði sig ekki alveg fyrr en hann sá Sóllilju kasta upp í bréfpokann sem var sérhannaður til þess.
Ofar skýjum urðu titringurinn og dýfurnar langtum verri. Svitinn límdi hár Sóllilju við grannan hálsinn. Annar hlýrinn á bolunum hennar hafði runnið niður af öxlinni á þokkafullan hátt. Þar perlaði svitinn á fíngerðu axlarblaðinu. Fyrir Kjartani virtist hún svo ofurviðkvæm. Hann var nú reyndar orðinn alvanur uppköstum, verandi elstur af fjórum systkinum. Hann tók um silkimjúkt og svitastokkið hár hennar og hélt því uppi meðan hún kastaði upp. Það furðulega var að Sóllilju fannst þetta svo eðlilegt, ekkert óþægilegt þó bláókunnugur maður væri að snerta hárið hennar. Eftir á rétti hann henni meiri að segja servéttuna sína. Herramaður, sjaldgæf tegund í útrýmingarhættu. Flugfreyjan kom nánast í loftköstum með vatn handa henni. Sóllilju leið ögn skár eftir að hafa kastað upp, óhjákvæmileg aukaverkun kvíðans. Lendingin var ekkert sérstaklega þægileg, Sóllilju létti samt ósegjanlega að hafa fast land undir fótum. Hún var í svo mikilli leiðslu og skammaðist sín of mikið til að geta litið á þennan indæla mann að hún flýtti sér bara út úr vélinni.
Við færibandið í flugstöðinni sá hún rauðbrúna hárinu bregða fyrir. Hún ákvað að hún skyldi ganga til hans og þakka fyrir sig, skilninginn og hjálpina sem hann hafði veitt henni í gegnum þessar kvalafullu fjörutíu mínútur sem þessi flugferð hafði tekið. Hún nálgaðist hann, fann hjarta sitt taka aukakippi eins og valhoppandi barn. En allt í einu fraus Sóllija í sporunum. Þarna var hann, hávaxinn og dularfullur. Í djúpum kossi við platínuljósku. Geisluðu bæði af neonlitaðri hamingju. Sóllilju fannst eins og hún gæti heyrt hjarta sitt bresta. Rafstrauminn sem veitti henni engann frið. Hún sleit vöknandi augu sín frá þessari sjón, tók sig saman í andlitinu. Ein stolin stund í flugferð. Dásamleg, andleg tenging milli tveggja aðila. Svo allt búið. Hún flýtti sér að taka í handfangið á hjólatöskunni sinni. Vildi gleyma þessari flugferð og kvíðanum. Hugsaði um hversu gott það yrði loksins að slaka á í stóra rúminu sínu. Reyndi að gleyma þessu öllu. Kvíðanum og hræðslunni. Þar til það kæmi allt aftur í næstu flugferð…….
“Life's like a dick, it gets hard for no reason”