Áttum að gera drauga- og- eða- sakamálasögu.
Þetta var “hópverkefni”, þið vitið öll hvernig þau enda.
Fyrsta, held ég, fyrstu persónu sagan mín.
Veit ekki alveg hvað ég ætlaði í fyrstu með hana.
Það er soldið asnalegt að nota ensk nöfn, já, en það er ástæða fyrir því að ég gerði það.
Að mínu mati er þessi saga léleg vannabí (*eiginlegaspoiler*) útgáfa af Shutter Island.
(og ef að þið ætlið að lesa hana upp einhvern tíman, ekki ruglast á frakki og krakki)



Hæ. Adrian heiti ég, kallaður Ali af sumum.
Þetta er örlítil saga af mér, sem ég af einhverjum ástæðum ætla að segja. Eða, er að segja, þar sem hún er að gerast rétt í þessu.
Ég var kallaður af stöðinni rétt áðan að rannsaka morð. Já, ég er rannsóknarlögreglumaður. Bækur Arnalds Indriðasonar, frá ég veit ekki hvaða landi, fengu mig til þess. Að vísu ekki minn eftirlætis höfundur, ég held frekar upp á King.
Líkið var staðsett á efstu hæð í fjölbýlishúsi nokkru, fjögurra hæða. Efsta íbúðin var víst tóm, enginn íbúi, næst efsta var heimili húsvarðar hússins , önnur hæðin hýsti eldri konu og jarðhæðin var fyrir fjögurra manna fjölskyldu.
Ég lít yfir líkið, tæknideildin hafði fengið mér lykla að íbúðinni. Kúgunar tilfinning læðist um mig. Sýrurnar brjóta sér leið upp úr maganum og upp í kok, þar sem ég neyði þær aftur niður. Sætur blóðfnykurinn magnar upp ógeðið sem læsist um mig þegar ég neyði mig með herkjum í að horfa á sundurlimað líkið. Það er stundum sagt að fólk „hangi í kringum húsið“. Þessi virkilega hékk í kringum húsið.
Hendur og fætur eigna sér hvert stofuhornið. Það er ekki það versta. Það versta er líklega höfuðið. Það er ekki á sínum vanalega stað, heldur grafið ofan í sundur ristan búkinn. Ég geng rólega aftur út. Sem betur fer þarf ég ekki að hanga þarna lengur til þess að taka mynd, tæknideildin hafði gert það fyrir mig og látið fá.
Ég ákveð að tala við húsvörðinn, þann eina sem átti að hafa lykil að íbúðinni. Húsvörðurinn, Clairman, bíður á annarri hæðinni og er að tala við konuna, Bethden.
,,Clairman,‘‘ segi ég. ,,Ef þú vildir ræða við mig,‘‘
,,Ég hef ekkert að segja við þig,‘‘ urrar Clairman en stendur upp og gengur til mín. ,,Hvað!?‘‘
,,Hérna, þú ert sá eini með lykla, ekki satt? Að efri íbúðinni,‘‘
,,Jú,‘‘ svarar Clairman. ,,Ég gerð‘etta samt ekki,‘‘
,,Ég sagði ekkert um það. Nú…‘‘
,,Ég gerð‘að ekki,‘‘
,,Þekktirðu fórnarlambið?‘‘ Ég rétti honum mynd af hausnum í líkinu. Clairman tekur ekki við myndinni en horfir á hana smástund.
,,Ég vill ekki tala við neinn lögguandskota, losið húsið bara við þetta,‘‘
,,Ég get fært þig niður á stöð ef þú vilt það frekar…‘‘
,,Ég þekki ekki þetta lí-þennan mann, ókei? Aldrei talað við hann. Held þó að ég hafi séð einu sinni, snuðrandi í kringum húsið. Alltaf snuðrandi. En það er enginn að fara að handtaka mig, ókei?‘‘ Hann er svo eitthvað að fela, en hvort er hann að hjálpa morðingjanum eða er hann morðinginn eða…
,,Hann hét Michael Shatner,‘‘ segi ég og dreg upp ökuskírteni hins látna.
,,Óþjált nafn. Ég vill ekkert meira segja, ætlarðu að handtaka mig eða ekki? Nei, þú hefur engan rétt til þess,‘‘ tuðar samfestingsklæddi gamlinginn. Hann virðist að minnsta kosti gamall. Hrukkóttur með virkilega pirraðan svip.
,,Einmitt,‘‘ segi ég. ,,Þú liggur undir grun má ég segja. Lánaðirðu nokkuð lyklana til einhvers…?‘‘ ég er truflaður af pílukastsspjaldi sem fellur af veggnum fyrir aftan Clairman. Pílurnar rúlla til, endarnir beinast að Clairman.
,,Huh,‘‘ segir hann. ,,Lélegir naglar,‘‘ Ég hristi hausinn og geng til konunnar. Það er ekkert hægt að fá út úr svona vitleysingum eins og Clairman.
,,Halló, ég heiti…‘‘
,,Ég veit,‘‘ segir konan og sötrar tebolla, gráblá augun stara miskunnarlaust á mig, hún virðist ekki þurfa að blikka.
,,Þú hefur vafalaust heyrt af…‘‘
,,Ég veit hvað gerðist,‘‘staðhæfir hún rám. Prjónasjalið hennar, blúnduskreytt, virðist skyndilega óvinveitt. Mér dettur drekar strax í hug. Drekafrúin. Jafn góðleg og konan virðist er hún ekki öll þar sem hún er séð, ég veit það. Ég verð að passa mig á henni. Ég berst við nær óstjórnlega löngun til þess að taka þessar djöfullegu smákökur, klassískar súkkulaðibita, sem liggja á diski á borðinu og troða þeim ofan í kokið á henni; fylgjast með því þegar hún kafnaði á eigin ólyfjan. Í stað þess þó að ráðast á gamla konu með smáköku fæ ég mér eina. ,,Þú þarft hjálp við þetta, Adrian. Þú getur ekki tekist á við þetta upp á eigin spýtur. Þú þarft hjálp,‘‘ Mér bregður virkilega. Ég hafði ekki sagt nafnið mitt. Skyndilega byrjar reykskynjarinn að væla. Brunafnykur berst um húsið. Clairman stekkur um og ég lít að honum. Frakki sem hefur hangið á snaga í forstofunni stóð í ljósum logum.
,,Frakkinn minn!‘‘ hrópar Clairman. Skyndilegur svitinn lekur niður andlit og handakrika minn og ég get mig hvergi hreyft. Reykskynjarinn ýlfrar ógurlega, lágt í fyrstu en fer stigmagnandi. Ég hristi hausinn, ég finn að gamla góða mígrenið sé að segja til sín. Clairman hendir frakkanum niður af snaganum og stappar á. Sót flýgur upp í loftið og glóð glitrar inn á milli reykjarsortans. Gamla konan situr þögul og horfir á Clairman ganga berserksgang með frakkann, stappandi á honum og skyrpandi. Ég hreyfi mig ekki heldur, en svitinn stigmagnast. Loks er Clairman búinn að slökkva í frakkanum, sótbölvandi öllu nálægu.
,,Hana, þetta færðu frá löggum!‘‘ skyrpir hann út úr sér og strunsar burt úr íbúðinni. Hurðin skellist á eftir honum. Ég stend upp með skyndilegt vald yfir líkama mínum og fer á eftir honum. Úti á ganginum heyri ég í honum fara niður. Ég er kominn út á götu þegar ég heyri í honum inni. Hann kemst ekki langt ef hann reynir að flýja. Ég ákveð því að tala við fjölskylduna á jarðhæðinni, eða fjölskyldufaðirinn sem er sá eini þarna. Hann er með teppi vafið um sig og situr í einu löggubílnum, drekkandi kaffi með bílstjóranum. Unglegur maður, kannski um þrítugt. Mig minnir að fjölskyldan hans sé fjögurra manna, hann, konan og tvö börn á leikskóla aldri.
,,Góðan dag,‘‘ segi ég varlega. Maðurinn lítur upp, útglennt sjáöldur í þreyttum augum. Hann segir ekkert. ,,Ég er Adrian rannsóknarlögreglumaður. Adrian…‘‘
,,Þú getur sagt góðan dag, það geturðu,‘‘ muldrar maðurinn. ,,Ef þú spyrð mig, sem þú ætlar líklegast að gera, þá var það hann helvískur Clairman. Hann gengur ekki heill til skógar né hvert sem er,‘‘ Skyndileg vindhviða rykkir í bílana og feykir upp ýmsum umbúðum sem liggja um flötina.
Clairman.
Ég hristi hausinn. Hafði vindurinn virkilega hvíslað Clairman?
,,Sá látni heitir…‘‘ byrja ég og fiska eftir myndinni af líkinu og skilríkjum. Ég finn þau ekki. Clairman hlýtur að hafa tekið þau þegar ég rétti honum, hugsa ég og blóta í hljóði. ,,Afsakaðu, ég gleymdi svolitlu inni,‘‘
,,Við förum í kvöld,‘‘ segir maðurinn. ,,Við öll. Ég neyta að taka þátt í þessari rannsókn, ég vill bara yfirgefa geðveikina í þessum bæ,‘‘ Ég ætla að andmæla en hann er fyrri til þess að tala. ,,Hvar er félagi þinn? Eiga löggur ekki alltaf að eiga félaga eða eitthvað?‘‘ Um stund er ég orðlaus. Eitthvað innra með mér nagar mig, eitthvað sem gekk ekki upp. Konan hefur verið að tala við hann.
Þegiðu kommaandskoti! Langar mig að hreyta í manninn en sætti mig við; ,,Þegiðu,‘‘ Hann stendur upp og gengur eitthvað í burtu. Hann brennir sig á fingri við að reyna að kveikja í sígarettu. Ég sest inn í bílinn.
,,Ekki hleypa honum burt, sæktu fjölskylduna og komdu með þau til yfirheyrslu. Lokaðu inni ef þú þarft, þessi er ekki alveg heill heldur. Geðklofi, ég er viss um það. Það er ættgengt, börnin hans ættu ekki að vera of róleg heldur,‘‘ hvísla ég áhyggjufullur að bílstjóralöggunni. Ég hef séð svona gaura áður. Öll fjölskyldan líður fyrir þá. Fætur mínir bera mig aftur inn í húsið. Ég hef ákveðið að hitta Clairman á ný. Þar sem ég feta mig varlega upp stigann heyri ég brothljóð fyrir ofan. Ónotatilfinning grípur mig og ég flýti mér enn varlegar. Hurðin að íbúð þriðju hæðar er brotin upp. Ég dreg fram byssuna, tel upp að þremur og stekk inn. Enginn þar. Ég heyri fótatak langt fyrir ofan mig. Fjórða hæð… líkið. Ég dríf mig upp stigann með skammbyssuna í hönd. Íbúð húsvarðarins er líka tóm, en lyktin af brunna frakkanum er sterk hérna. Enn vælir reykskynjarinn, hærra en nokkru sinni fyrr og dansar tangó með hausverknum. Enn heyrist fótatakið fyrir ofan mig. Ég dríf mig ekki upp, tek minn tíma í að róa mig niður á leið upp stigann. Hurðin á fjórðu hæð er hálfopin. Ég rétti út hönd og ýti við henni um leið og ég skýst upp að veggnum. Fótatakið þagnar. Lungun mín fyllast af lofti og ég stekk inn í dyragáttina með byssuna í útréttri hönd. Gólfið flæðir enn í hálfstorknuðu blóði, fætur og hendur hafa ekkert færst úr hornum sínum en yfir búknum standa tvær verur; Clairman með hníf að hálsi gömlu konunnar.
,,Ég ætlaði að þrífa þetta upp,‘‘ másaði Clairman. ,,Hefði ég bara fengið tækifæri hefði ég þrifið þetta og ekkert vandamál þurft að verða úr þessu,‘‘ Gamla konan starði sem fyrr á mig með óblikkandi grábláum augum.
,,Vaknaðu,‘‘ hvíslaði hún.
,,Clairman,‘‘ segi ég rólega. ,,Ekki gera neitt sem þú sérð eftir…‘‘
,,Mér líður ekki illa með þetta,‘‘ segir húsvörðurinn og tók skref aftur með gömlu konuna í járngreipum. ,,Mér líður bara illa að hafa alltaf gleymt að þrífa,‘‘
,,Vaknaðu,‘‘ hvíslar konan.
,,Clairman,‘‘ segi ég ákveðinn.
,,Það þurfti enginn að vita neitt,‘‘ volar maðurinn og bakkar enn. ,,Hann var bara alltaf að snuðra í mínu-…‘‘ Clairman fellur aftur með litlu ópi. Hnífurinn skrikar á bringu konunnar þar sem þau hrasa bæði um skúringafötu. Clairman dettur tígullega á bakið og við höggið klofnar sjúkur heili hans í tvennt, safinn blandast storknandi blóðinu. Mér bregður svo mikið að ég renn í blóðpolli. Þar sem ég fell aftur hægist á tímanum. Mér verður litið í spegil á veggnum. Síðasta andlitið sem ég sé áður en ég fell í gólfið var andlit húsvarðarins. Reykskynjarinn vælir.
,,Vaknaðu,‘‘ skipar konan enn. Ég ranka við mér, slímugur af blóði. Konan er eins og… og áðan. Stór skurður var frá hjartastað og niður vinstra brjóst. Ég lít í kringum mig. Líkið er þarna enn, nema hvað nú í húsvarðabúning. Michael Shatner stendur á nafnspjaldi þar. Alltaf snuðrandi um, snuðrandi um húsið mitt, fiktandi. Clairman, eða lík hans, hvergi sjáanlegt. Mígrenið er að drepa mig, helvítis reykskynjarinn… nei, þetta er enginn reykskynjari. Hvaða CSI aðdáandi sem er þekkir lögreglusírenur þegar þær hafa umkringt hús. Hróp og köll, auk kröftugra banka heyrast úr einu herberginu. Tvær fullorðinsraddir, karl og kona, og tvær barna. Ég hristi hausinn og reyni að standa upp en flækist um sviðinn frakka sem liggur þarna á jörðinni við hlið logsuðutækis.
,,Þú ert vaknaður, Adrian Clairman,‘‘
Clairman var dauður. Sá eftirlifandi var Adrian, skilinn eftir í líkamanum til þess að takast á við syndir djöfuls síns. Hann rakst í volgan málm við hönd sína. Ein fingurhreyfing, og þetta verður allt búið. Ég get ekki tekist á við heiminn án hans. Yin og Yang. Adrian og Clairman.