Bjartur. Eftir Stefán Ingvar Vigfússon.
*
“Hvert sækir fólk tilgang? Hversvegna vill fólk tilgang? Hvaða fáfróði og freki einstaklingur ætlast til þess að líf hver einasta einstakling, hvers einasta ómerkilega, venjulega sandkorns sé einstakt? Að hver einasta stjarnfræðilega sekúndurbrot hafi varanleg og óbreytanleg áhrif á heiminn?” Bjartur starði á skjáinn, hann las orðin upphátt aftur og aftur. Þetta var nokkuð gott. Sími Bjarts hringdi, hann varð að Andra. Þetta var Valdimar, ritstjóri Styttunar. Hann hafði áhuga á að tala bæði við Andra og Bjart. Bjart um greinina sem hann var að skrifa og Andra varðandi mögulegan hitting um kvöldið. Bjartur bað um að skiladeginum yrði seinkað um einn mánuð og Andri sagðist ekki hafa tíma til þess að hitta Valdimar vegna greinarinnar sem Bjartur var að skrifa. Bjartur og Andri voru, eins og hinn glöggi lesandi hefur þegar áttað sig á, sami maðurinn. Andri var lögmaður, sem varði mest megnis seka einstaklinga sem sátu nánast aldrei inni fyrir hræðilegu afbrotin. Hann þénaði vel á því að halda skít landsins á götunum. Bjartur var tilbúningur Andra og Valdimars. Bjartur Waltersson, þeir léku á Birtíng eftir Voltaire. Þeim þótti þeir sniðugari en þeir voru.
Þegar Andri var búinn að leggja á hélt Bjartur áfram með greinina sína.
“Snemma á leit minni að tilgangi lífsins komst ég að því að það væri enginn. Líf sem slíkt er það tilgangslausasta sem hægt er að ímynda sér. Í staðinn fyrir að reyna að svara elstu og ef satt skal segja þreyttustu spurningu heimspekingar, spurning sem enginn alvöru vitmunavera hefur velt fyrir sér frá tímum forn Grikkja, ákvað ég að kynna algengustu möguleikana fyrir ykkur.”
Bjartur stóð upp og sótti sér sígarettu. Hann reykti alla jafna eina sígarettu þegar hann taldi að ákveðin textabútur gæti ekki orðið betri. Andri reykti aldrei einn. Hann reykti bara þegar hann var með vinum sínum og þegar hann heimsótti föður sinn. Bjartur var bara lifandi þegar hann skrifaði, þrátt fyrir þetta geymdi Andri sígarettunar þeirra aldrei á skrifstofunni, hann geymdi þær í skúffunni í náttborðinu sínu. Hann skildi sjálfur ekki fyllilega hversvegna hann gerði það, en sá enga ástæðu til þess að breyta því.
Bjartur settist aftur við tölvuna og kveikti sér í sígarettu.
Fyrsti kafli:
“Fyrst leit ég til fjölskyldunnar minnar, ég tvo systkini. Yngri bróður sem á þrjár stelpur og eldri systur sem strák og stelpu. Ég er þrjátíu og fimm ára, of seinn fyrir barneignir.
Móðir mín lést fyrir tíu árum, faðir minn er rúmlega sextugur en virkar þó áttræður, ég ætla ekki að fara út í ástæður fyrir örri hrönun hans í þessum hluta greinarinnar.”
Bjartur gat varla skoðað eigin líf, þar sem hann átti ekki eigið líf.
Andri tók sjálfskoðunina að sér.
*
“Ég hef alltaf litið upp til eldri systur minnar. Hún var alltaf með allt á hreinu og er enn. Ég treysti á hana til þess að útskýra fyrir mér hvaða tilgang hún sá í lífinu.”
Þetta var satt. Andri hafði alltaf litið á systur sína sem best heppnaða einstakling fjölskyldunar, þótt að flestir töldu hann hafa staðið sig langt best af systkinunum. Systir Andra, Elva, var mannauðstjóri hjá næst stærsta fjarskiptafyrirtæki landsins, hún þénaði tiltölulega vel. Hún var samt skítblönk, eins og flestir aðrir. Andri var ekki skítblankur. Andri var lögmaður, hann lærði fag sitt í virtum Bandarískum háskóla. Hann var oft kynntur, stuttu eftir að hann úskrifaðist, á eftirfarandi hátt: “Þetta er Andri, hann var að koma frá Ameríku.” Það þótti mjög merkilegt. Við erum öll kanamellur inn við beinið.
*
Elva bauð bróður sínum kaffi. Andrúmsloftið var vandræðalegt. Hversvegna eru systkinahittingar alltaf svo stirðir?
Elva vissi ekki að Andri var Bjartur. Hún var áskrifandi Styttunar og elskaði greinarnar hans. Hún bar aftur á móti nánast enga virðingu fyrir bróður sínum. Ef ekki fyrir það að vera skyld myndi hún sennilega hrækja á hann, eða láta sig dreyma um það.
“Hvað segja börnin?” spurði Andri þegar Elva færði honum kaffið.
Þessi spurning móðgaði Elvu ólýsanlega, það móðgaði hana alltaf þegar fólk kallaði börnin hennar ekki eftir nöfnum þeirra. Heldur sem “börnin.” Hún öskraði einu sinni á vinkonu sína sem kallaði þau “krakkana.”
Hún lét þó kyrrt liggja og sagði hreinlega “Allt fínt bara.”
Þau sátu andspænis hvort öðru í smá stund, þögul.
Andri áttaði sig á því að hann myndi aldrei fá nein fullnægandi svör upp úr manneskju sem vissi ekki við hvern hún var að tala.
“Ég vil breytast.” sagði hann. Elva leit upp úr kaffibollanum, sem virkaði eins og mest spennandi bolli í heiminum (og flestir bollar eru nógu spennandi.) “Nú?” spurði hún. “Þú þekkir mig,” byrjaði Andri: “að hluta til.” “Hvað meinarðu?” spurði hún. “Lestu Styttuna?” spurði Andri. “Já, ég er búinn að vera áskrifandi frá upphafi, liggur við.” svaraði hún, hálfmóðguð. Henni fannst að bróður hennar mætti alveg vita þetta. Hún kenndi sjálfa sig að svo miklu leyti við lestur tímaritsins. Hún var aðdáandi þess á Facebook!
“Ég er Bjartur.” sagði Andri. “Ha? Hvað meinarðu?” spurði hún. “Ég er Bjartur Waltersson, eða ég segist vera hann þegar ég skrifa í Styttuna.” “Ertu að ljúga að mér?” Þetta var hræðileg spurning, enginn myndi viðurkenna að hann væri að ljúga vegna þess að hann spurður hreint út sekúndu eftir lygina hvort hann væri að ljúga. En Andri var ekki að ljúga og hann sagði það. Hann sagði líka: “Ég er að skrifa grein, um tilgang lífsins og ég þarf að vita…” Hvað þurfti hann að vita, nákvæmlega? Hann vissi hvað hann vildi ekki en ekki hvernig hann gæti spurt út í það. Hann vonaðist til þess að finna svarið á þeim tíma sem það tæki hann að endurtaka spurninguna: “Ég þarf að vita til hvers þú lifir.” Hann áttaði sig samstundis á því að hann hefði ekki getað spurt hrokkafyllri spurningu þótt hann hefði reynt. Hann bjóst sterklega við að skaðbrenna á sér andlitið á næstu sekúndum þegar systir hans myndi tæma sjúklega áhugaverða bollann sinn með góðri skvettu.
Það gerðist þó, þess í stað spurði Elva, sem sá bróður sinn með allt öðrum augum: “Hvað meinarðu?” Almennt þegar hún spurði bróður sinn út í þetta var hún reið, ekki þarna. Hún hljómaði eins og auðmjúkur lærisveinn.
“Líf okkar gætu varla meira öðruvísi, hver er tilgangur þinn?” fullyrti Andri og spurði. “Ég veit það ekki, ég hef í raun og veru aldrei velt því fyrir mér.” “Jú víst, hugsaðu út í það. Þú átt börn, þú ert gift. Þú ert menntuð og stendur þig vel í starfinu þínu. Þú hlýtur að hafa hugsað út í tilganginn þinn.” “Nei, eiginlega ekki. Þetta er eitt.”
Systkinin höfðu aldrei átt samræður líkar þessum.
“Hvað stendur út úr?” “Það stendur ekkert út, ég er að vinna í lífinu.”
*
Eftir viðtal Andra við systur sína sat Bjartur við tölvuna og skrifaði niður hugleiðingar sínar.
“Það eru bara til þrjár gerðir einstaklinga. Sá sem leitar en finnur aldrei, sá telur sig hafa fundið án leitar og sá sem leitar enn þrátt fyrir að hafa fundið meira en hinar gerðinar munu nokkru sinni gera. Systir mín hefur fullt líf, hún er samt enn að leita. Sjálf segir hún að maður þurfi ekki að finna neinn ákveðinn tilgang, líf á tilgangs er líf án markmiða. Hún er ekki fyllilega sátt með stöðu sína í lífinu eins og er, hún stefnir lengra. Hún leitar enn. Ég hef enn ekkert fundið. Bróðir minn leitaði aldrei hann telur sig hafa fundið tilganginn sinn. Hann er í láglaunastarfi, ómenntaður. Hann er ástfanginn af eiginkonu sinni og elskar dætur sínar.
Í hans huga er ekki spurning hver tilgangurinn er, ekki tilgangur hans heldur tilgangur allra. Fjölskylda og ást.”
*
Faðir Andra var á sama máli, hann blindaðist af ást.
“Þið voruð jákvæðir fylgihlutir móður ykkar, en ég hef aldrei elskað ykkur jafn mikið og ég elskaði hana. Elska hana.” sagði faðir Andra, Sighvattur, við son sinn eftir að hafa verið spurður hvort fjölskylda eða ást skipti stærra máli. Sighvattur var drukkinn.
Feðganir sátu úti á lóð Sighvatts. Það var sumar, sem er fínn tími fyrir keðjureykingar.
Líf Sighvatts varð fljótlega að engu í hans augum eftir dauða konu sinnar.
Þegar þau kynntust var hann alkóholisti og reykingarmaður, hann sneri blaðinu við fyrir hana. Sæt saga, ástin breytti honum. En því sem ástin breytir gerir sorgin verra. Faðir Andra drakk nú meira enn nokkru sinni fyrr.
Andra þótti það vera skrýtin staða. Æskuminningar hans af föður sínum voru ljúfar, enda var æska Andra ljúf. Hann vissi í raun ekki hvernig hann ætti að sjá þetta, sem barn eða vinur. Samband þeirra var mikið frekar vinátta heldur en feðgasamband.
“Þú taldir líf þitt snúast eingöngu um ást, við sambandið þitt við mömmu.” sagði Andri.
“Elsku vinur, lífið snýst um ást. Þú hefur ekki fundið þína og þessvegna ertu týndur. Ef þú værir ástfanginn sæirðu enga ástæðu til þess að leita. Ef þú værir ástfanginn værirðu ekki að spyrja gamla fyllibyttu um tilgang lífsins. Ástæðan fyrir því að þú spyrð er sú að þú veist hver tilgangur lífsins er, en þú hefur hann ekki. Þú ert hræddur við það.” Andri vissi ekki hvernig hann átti að bregðast við.
*
“Er jákvætt að finna tilgang ef hann skemmir þig? Ekkert endist að eilífu, alls ekki við og nánast allt sem við stundum endist í styttri tíma en við. Ef þú telur þig hafa fundið tilganginn í einhverju, hvernig muntu þá bregðast við þegar þú missir hann?
Faðir minn missti lífsviljan með móður minni, hann hefur síðan verið að stytta líf sitt og skemmt sér ágætlega við það.”